Viðskipti innlent

Enginn nýgræðingur í bankaheiminum

Birna Einarsdóttir tók við stöðu framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs Glitnis um síðustu mánaðamót.
Birna Einarsdóttir tók við stöðu framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs Glitnis um síðustu mánaðamót. MYND / GVA

@Mark.Meginmál Upphafsstafur:Birna Einarsdóttir, sem tók um mánaðamótin við starfi framkvæmdastjóra Viðskiptabankasviðs Glitnis á Íslandi, er enginn nýgræðingur í bankaheiminum. Hún á meðal annars að baki sex ára reynslu hjá Royal Bank of Scotland í Edinborg auk þess að hafa unnið sem markaðsstjóri hjá Íslandsbanka.

Í starfi framkvæmdastjóra þróunarsviðs Glitnis, sem Birna hefur gegnt undanfarið, hafði hún umsjón með starfsmannamálum bankans á alþjóðavettvangi. Þá heyrðu markaðsmál bankans á alþjóðavísu undir hana, í samstarfi við Bjarneyju Harðardóttur, markaðsstjóra Glitnis á Íslandi. Í nýju starfi mun Birna áfram hafa yfirumsjón með uppbyggingu vörumerkisins Glitnis samhliða því að stjórna viðskiptum bankans við einstaklinga, lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi.

Breytingin á högum Birnu kemur í kjölfarið á skipulagsbreytingum hjá bankanum. Meðal annars hefur vinna staðið yfir á breytingu á skipulagi bankans í svokallað matrix-skipurit. Þetta er sérstaklega gert í því miði að samtvinna áherslur allra vara á öllum mörkuðum sem bankinn starfar á. Stjórnendur Glitnis stefna á áframhaldandi stækkun á næstu árum. Skipuritinu er ætlað að hjálpa til við að það verði á farsælan hátt.

Fáar konur á toppnumKonur eru ekki eins áberandi og karlar innan bankanna og þeim fækkar hratt eftir því sem ofar dregur í skipuritinu. Á toppnum hefur Birna fáar samferðakonur. Hún segist þó aldrei hafa upplifað að eiga erfiðara uppdráttar en karlar í störfum sínum. „Þegar ég útskrifaðist úr viðskiptafræðinni í HÍ var ég mjög búin undir að þurfa að berjast fyrir mínu og var með jafnréttishnefann á lofti. Fyrsta starfið sem ég sótti um var staða framkvæmdastjóra Íslenskra getrauna. Ég vissi ekkert um fótbolta en ákvað að sækja um af því að það ætluðu strákarnir, skólafélagar mínir, að gera. Fjórtán karlar sóttu um. Ég var eina konan og fékk djobbið. Það má segja að ég hafi því fallið á eigin bragði.“ Hvergi betri þjónusta

Birna segir íslenska einstaklinga fá ágætis kjör hjá íslenskum bönkum. Þá sé almennt þjónustustig hvergi hærra en hér. Þjónustan sé í toppstandi, hvort sem litið sé á hraðann, afgreiðsluna eða ferlana. „Íslenski markaðurinn er afar mikilvægur grunnur í starfsemi Glitnis. Hér höfum við mörg þúsund viðskiptavini sem við viljum þjóna afskaplega vel. Þessi grunnur er mikilvægur í uppbyggingu bankans erlendis og við vitum að gott orðspor að heiman fylgir okkur hvert sem við förum.“

Birna segir að almennt séu Íslendingar mjög tryggir sínum viðskiptabanka. Hún segir hins vegar yngri viðskiptavini ekki eins trygga og þá eldri. Þetta komi meðal annars til af aukinni samkeppni á bankamarkaðnum. „Samkeppni á íslenskum bankamarkaði er mikil. Það er barist um hvern einasta viðskiptavin. Þetta er mjög virkur markaður.“

Stýrði nafnabreytingunni

Nafnabreytingin úr Íslandsbanka í Glitni á síðasta ári var meðal verka Birnu í starfi framkvæmdastjóra þróunarsviðs. Hún er hreykin af því hversu vel breytingin gekk fyrir sig, bæði út á við en ekki síst innan bankans. „Um leið og við skiptum út nafninu tókum við upp gildin „fast, smart and thorough“ eða „fljót, snjöll og fagleg“. Eftir sex mánuði spurðum við alla starfsmenn bankans hvort þeir þekktu gildin. Níutíu og níu prósent þeirra gera það og mikill meirihluti sagðist vinna eftir þeim. Það hlýtur að vera heimsmet.“

Hún er ekki síður ánægð með tengingu bankans við Reykjavíkurmaraþonið. „Maraþon-hlaup á svo vel við gildi Glitnis. Í fyrsta lagi þarftu að vera fljótur. Svo þarftu að vera snjall til að úthugsa hvernig þú ætlar að hlaupa. Þá þarftu að hlaupa faglega, ef þér er alvara með að verða góður hlaupari.“

Tilhugsunin um Glitnismara­­þonið kallar ósjálfrátt upp mynd af Bjarna Ármannssyni, fyrrverandi forstjóra Glitnis, skokkandi í mark með bros á vör. Ímynd bankans var náið samtvinnuð hans persónu og því ekki úr vegi að forvitnast um stemninguna í bankanum eftir brotthvarf hans.

„Hann var að verða fertugur og við þurftum að yngja upp,“ segir Birna hlæjandi. „Lárus [Welding] er ofsalega kraftmikill, bankamaður af guðs náð og flinkur á sínu sviði. Ofan á það er hann sérlega traustur og góður maður. Svo ég get ekki verið annað en ánægð með skiptin.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×