Viðskipti innlent

Fyrir frumkvöðla framtíðar

Ný kennslubók í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum er komin út.
Ný kennslubók í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum er komin út.

Í vetur kom út ný kennslubók í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum, Tíra, sem er fyrir elstu bekki í grunnskóla og framhaldsskóla. Bókin er samstarfsverkefni milli Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.

Höfundar hennar eru Dr. Örn D. Jónsson, prófessor í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, dr. Rósa Gunnarsdóttir, sérfræðingur í kennslufræði nýsköpunarmenntar, og Svanborg R. Jónsdóttir, doktorsnemi við Kennaraháskóla Íslands.

Tírunni er ætlað að svara þörf kennara og leiðbeinenda fyrir handbók sem tekur tillit til aðstæðna í daglegu lífi eða á starfsvettvangi, ekki síst þeirra viðfangsefna sem einstaklingar þurfa að glíma við að námi loknu. Fleiri grunn- og framhaldsskólar landsins munu bjóða upp á þetta námsefni í haust. „Þjóðfélagið hefur breyst gríðarlega á skömmum tíma og þar með vinnan og daglegt líf almennt. Tíra er eins konar verkfæri eða samansafn aðferða sem auðvelda einstaklingum að sjá umhverfið í nýju ljósi og auka víðsýni,“ segir í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

Dagana 20. til 22. júní er boðið upp á námskeið í kennsluháttum frumkvöðlafræða og nýsköpunarmenntar í Odda, Háskóla Íslands, frá 9 til 16, alla dagana. Á námskeiðinu verður meðal annars farið í skapandi hugsun, leiksvið lífsins, frumkvöðlamenntun og hugmyndafræði nýsköpunar. Námskeiðið er ætlað kennurum sem taka munu að sér kennslu í frumkvöðlafræði í haust.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×