Handbolti

Óskar Bjarni: Stoltur af strákunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Óskar Bjarni á hliðarlínunni í kvöld.
Óskar Bjarni á hliðarlínunni í kvöld.

Valsmenn luku í kvöld keppni Meistaradeild Evrópu þetta tímabilið eftir sjö marka tap fyrir Fotox Veszprem frá Ungverjalandi.

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Valsmanna, sagði eftir leikinn að hann hafi verið mjög sáttur við fyrri hálfleikinn en staðan var jöfn í hálfleik, 14-14.

„Eftir það misstum við þetta of fljótt frá okkur. Fyrstu tíu mínúturnar í síðari hálfleik voru ekki sterkar en við gerðum mikið af tæknifeilum. Ég er þó stoltur af strákunum eftir sigurinn á Celje Lasko og fyrri hálfleikinn í kvöld."

Hann segir að það hafi tekið sinn tíma að venjast hraðanum í leikjum Meistaradeildarinnar. „Við vorum aðeins of lengi að átta okkur á hlutunum í fyrsta leiknum gegn Gummersbach. En seinni umferðin hefur svo verið allt önnur. Það væri gaman að fara aftur í þessa keppni að ári og byggja þá á þessari reynslu. Við sýndum gegn Celje hvað við getum og hefur leikur okkar alltaf verið að batna."

Óskar Bjarni sagði að leikjaálag Meistaradeildarinnar hafi ekki komið niður á frammistöðunni í N1-deild karla. „Það eina sem hefur komið upp á er að það var smá þreyta í mannskapnum í leiknum við Gummersbach í Þýskalandi. Vissulega þurftum við að venjast því að spila bæði í deildinni og í Meistaradeildinni en staða okkar í deildinni er engan vegin Meistaradeildinni að kenna."

Baldvin: Höfum lært heilmikið

Baldvin Þorsteinsson var markahæstur Valsmanna í kvöld með fimm mörk. „Við höfum lært gríðarlega mikið af þátttöku okkar í Meistaradeildinni," sagði hann eftir leik.

Baldvin Þorsteinsson skorar úr hraðaupphlaupi gegn Veszprem í kvöld.Mynd/Valli

„Fyrri umferðin var ekkert sérstök en við náðum mun betri leikjum í seinni umferðinni, eins og á móti Celje. Gegn Gummersbach vorum við svo góðir í 40-45 mínútur og í fyrri hálfleiknum í kvöld. Þetta er reynsla sem við getum allir nýtt okkur enda gerir hún okkur að betri handboltamönnum."

Lajos Mocsai, þjálfari Veszprem: Valur með ungt og efnilegt lið

Þjálfari Veszprem, Lajos Mocsai, sagði á blaðamannafundi eftir leik að sigurinn hafi verið góður. „Við vorum taugastrekktir í fyrri hálfleik og fundum ekki taktinn. En í seinni hálfleik var betra flæði á milli varnar og sóknar og kom líkamlegur styrkur leikmanna okkur vel í lokin. Þegar við náðum að stöðva hættulegustu sóknaraðgerðir Valsmanna varð leikurinn léttari fyrir okkur."

Hann sagði þó að Valur væri með sterkt lið. „Ég óska Val alls hins best. Þetta er ungt og afar skemmtilegt lið. Það er verið að vinna góða vinnu hér."

Žarko Šesum: Mikilvægur sigur

Leikstjórnandinn Žarko Šesum fór á kostum í seinni hálfleik og reyndist Valsmönnum afar erfiður. Hann skoraði alls tíu mörk í leiknum.

„Það var mikilvægt að ná þessum sigri," sagði hann. „Við gerðum það sem við þurftum og nú þurfum við að stóla á sigur Gummersbach gegn Celje. Ég held að þeir eigi góðan möguleika á sigri í Slóveníu enda efstir í riðlinum."

Veszprem er nú í öðru sæti riðilsins með sex stig en Celje Lasko er með fimm stig og kemst áfram með sigri á Gummersbach á laugardaginn, á kostnað Ungverjanna.

Šesum sagði að sigurinn á Val hefði alls ekki verið auðveldur. „Valsmenn eru hættulegir á heimavelli. Við undirbjuggum okkur mjög vel og vissum að það mætti ekkert gefa eftir í 60 mínútur. En ég held að við séum með betra lið og við sýndum það í kvöld."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×