Viðskipti innlent

Frumkvöðlar í hreyfigreiningu

Bjarni Þór Gunnlaugsson kine hefur þróað vél- og hugbúnað sem greinir virkni vöðva við hreyfingu og getur sparað sjúkraþjálfurum umtalsverðan tíma.
Bjarni Þór Gunnlaugsson kine hefur þróað vél- og hugbúnað sem greinir virkni vöðva við hreyfingu og getur sparað sjúkraþjálfurum umtalsverðan tíma. MYND/Anton

Heilbrigðistæknifyrirtækið Kine er eitt af elstu íslensku sprotafyrirtækjunum sem kynnir starfsemi sína á fjárfestaþingi Seed Forum á morgun. Fyrirtækið hefur allt frá árinu 1999 unnið að þróun ýmiss konar vél- og hugbúnaðar til hreyfigreiningar en búnaður sem þessi nýtist sjúkraþjálfurum við meðhöndlun sjúklinga í endurhæfingu sem lent hafa í meiðslum og þurfa að byggja upp ákveðna vöðva.

Kine státar af nokkrum vörum sem allar tengjast hreyfigreiningu; vöðvarita, vél- og hugbúnað sem mælir virkni vöðva. Því tengdu er svo mælir sem samanstendur af sama vélbúnaði en öðrum hugbúnaði. Þá hefur fyrirtækið búið til göngugreiningarforrit sem gerir skýrslu um vöðvavirkni og hreyfingu sjúklinga.

Vörur undir merkjum Kine má finna víða um heim en á meðal viðskiptavina fyrirtækisins er NASA auk háskóla og sjúkrastofnana jafnt hér sem erlendis.

Bjarni Þór Gunnlaugsson, forstjóri Kine, segir umtalsvert hagræði fást fyrir alla aðila með búnaði sem þessum. Hann geti til dæmis stytt komutíma sjúklinga til sjúkraþjálfara mikið. „Venjulega þurfa sjúklingar að koma, segjum fjórum sinnum, til sjúkraþjálfara til að greina vöðvavirkni. Með búnaði Kine má stytta tímann niður í 15 mínútur,“ segir hann. Kine var með námskeið fyrir fimm fyrirtæki hér á landi í desember í fyrra. Fulltrúar fimm fyrirtækja tóku þátt í því og nota nú þrjú þeirra búnað frá Kine.

Bjarni bendir á að markaður fyrir vörur sem þessar sé geysistór og vitnar til þess að í Bandaríkjunum einum leiti 11,2 milljónir sjúklinga sér lækninga vegna hnévandamála. „Svipaður fjöldi sjúklinga er með axlavandamál,“ segir Bjarni.

Fyrirtækið ætlar sér stóra hluti í framtíðinni og vonast til þess að með tilkomu viðskiptaengla í fyrirtækið fáist fjármagn til að efla markaðssetningu á vörum Kine úti í hinum stóra heimi. „Það er ekki nóg að vera með háklassavöru. Það þarf alltaf fjármagn til að koma henni áfram,“ segir Bjarni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×