Viðskipti innlent

Stofnandinn var í vinnunni fram á síðasta dag

Ernest Gallo, sem stofnaði bandaríska vínfyrirtækið Gallo árið 1933, lést fyrir stuttu tæplega 98 ára að aldri.
Ernest Gallo, sem stofnaði bandaríska vínfyrirtækið Gallo árið 1933, lést fyrir stuttu tæplega 98 ára að aldri.

Ernest Gallo, annar af tveimur stofnendum bandaríska vínfyrirtækisins Gallo, lést í bænum Modesto í Kaliforníu í byrjun mánaðarins, rétt tæplega 98 ára að aldri. Sonur hans rekur fyrirtækið í dag, en gamli maðurinn var viðloðandi reksturinn allt fram á seinasta dag.

Hann hafði haft þann sið, þrátt fyrir að hafa látið af stjórninni fyrir allnokkru, að mæta daglega og spjalla við starfsfólk fara yfir áætlanir, huga að framleiðslunni og annað slíkt.

Ernest stofnaði fyrirtækið ásamt Julio bróður sínum, í kjölfar þess að vínbanni var aflétt í Bandaríkjunum árið 1933, með tæplega sex þúsund dali í vasanum og alla sína þekkingu á víngerð frá ítalskættuðum foreldrum sínum.

Bræðurnir uppskáru vel enda skilaði fyrirtæki þeirra 30.000 dala hagnaði eftir fyrsta árið. Gallo-bræðurnir nýttu hagnaðinn til stækkunar fyrirtækisins, meðal annars með kaupum á fleiri vínekrum auk þess sem þeir juku framleiðsluna til muna og stækkuðu vöruhús sitt.

Fyrirtækið varð brátt eitt af stærstu vínframleiðendum í heimi en áætlað er að á ári hverju seljist um 75 milljón flöskur undir merkjum Gallo.

Þrátt fyrir velgengnina héldu þeir Gallo-bræður sig til hlés. Breska ríkisútvarpið hafði eftir nánum samstarfsmönnum þeirra að ástæðan fyrir því væri hvernig fór fyrir foreldrum þeirra bræðra. Faðir þeirra myrti móður þeirra og framdi sjálfsmorð að því loknu. Atburðurinn átti sér stað í júnímánuði árið 1933. Bræðurnir stofnuðu Gallo-fyrirtækið tveimur mánuðum síðar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×