Körfubolti

Auðvelt og afgerandi hjá KR-ingum

George Byrd fékk ekki mikla hjálp frá félögum sínum í Hamar/Selfoss gegn KR í gær.
George Byrd fékk ekki mikla hjálp frá félögum sínum í Hamar/Selfoss gegn KR í gær. MYND/Valli

KR-ingar unnu mjög auðveldan 23 stiga sigur á Hamar/Selfoss í DHL-Höllinni í gær, liðinu sem hafði unnið þá tvívegis í vetur, þar á meðal slegið þá út úr bikarnum. Nú átti KR-liðið hinsvegar öll svör við sóknarleik Hamars/Selfoss sem skoraði aðeins 52 stig nýtti aðeins 35% skota sinna og tapaði 27 boltum.

“Það var eins og það væri eitthvað andleysi yfir Hamars-liðinu og að þeir tryðu því aldrei að þær gætu unnið þennan leik,” sagði Fannar Ólafsson, fyrirliði KR.

“Við ætlum að klára okkar leiki og vonast til þess að Skallagrímur tapi á móti Snæfelli svo að við náum 2. sætinu. Við erum annars að slípa hlutina hjá okkur og ætlum að toppa í úrslitakeppninni,” segir Fannar sem var ánægður með svæðispressuna sem riðlaði algjörlega sóknarleik HS og átti mikinn þátt í öllum töpuðu boltunum og lélegu skotunum sem liðið tók í gær.

Það var ekki að sjá á þessum leik hvernig HS vann KR tvívegis fyrr í vetur. “Skytturnar þeirra fengu engan frið og við fórum einmitt með það inn í þennan leik og gefa þeim ekkert því Friðrik og Hallgrímur hafa verið að klára okkur í síðustu leikjum,” segir Fannar um lykilbreytinguna á milli leikja en HS-liðið klikkaði á 12 af 13 þriggja stiga skotum sínum og þeir Hallgrímur Brynjólfsson og Friðrik Hreinsson skoruðu til samans aðeins 3 stig en höfðu skoraði 54 stig í hinum tveimur leikjunum

Hamar/Selfoss er nú búið að tapa fjórum leikjum í röð og 7 af síðustu 8 og það er ekki hægt að segja að liðið sé að koma á góðu róli inn í úrslitakeppnina ef liðið kemst þangað því framundan eru leikir við lið sem berjast fyrir lífi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×