Fastir pennar

Danskur rasismi, ný blöð, West Ham, fátækt barna

Þá hefur það verið staðfest. Danir líta niður á þá sem tala með hreim. Ég tala ágæta dönsku, en er löngu hættur að nota það tungumál í Danmörku. Maður uppsker ekkert nema fýlusvip hjá Dönunum, fyrirlitningu eða þaðan af verra. Í andlitum þeirra les maður - þú ert aðskotadýr, líklega frá Austur-Evrópu, kominn til að spilla okkar góða landi. Danir eru mestu rasistar á Norðurlöndunum - maður gefur ekki mikið lengur fyrir hina dönsku hygge.

Miðað við þetta er alveg ástæðulaust að kenna dönsku í skólum. Enska dugir betur. Þó er sjálfsagt að gera þá kröfu til Íslendinga að þeir geti lesið norðurlandamálin.

--- --- ---

Það er kannski ellimerki að ég er ekkert yfir mig spenntur yfir hræringum á blaðamarkaðnum hér. Haraldur í Andra hefur marga fjöruna sopið í rekstri fjölmiðla - hann mælir nokkuð spaklega í Fréttablaðinu í dag undir yfirskriftinni Búið að höggva nóg:

"Ég get ekki ímyndað mér að þetta sé góður tími til að stofna nýjan fjölmiðil, ég myndi að minnsta kosti ekki vilja leggja mína peninga í þetta. Ég tel bara að það sé ekki grundvöllur fyrir þessu, ég get ekki séð að það sé eftirspurn eftir nýjum blöðum."

Nýtt vikublað, Viðskiptablaðið í dagblaðsformi, götublað í anda DV.

Jú, þetta er ágætt. Verður ábyggilega allt góð viðbót. Ég ætla samt að vera fúllyndur og rifja upp nöfnin á blöðum sem ég hef skrifað í á aldarfjórðungsferli í fjölmiðlum og eru búin að týna tölunni: Tíminn, NT, Þjóðviljinn, Alþýðublaðið, Helgarpósturinn, Pressan, Eintak, Morgunpósturinn, Heimsmynd, Þjóðlíf.

--- --- ---

Nú bíð ég eftir því að Guðjón Þórðarson verði ráðinn þjálfari West Ham. Býst við tilkynningu þess efnis næstu dagana. Annað hlýtur að stappa nærri landráðum. Íslendingarnir sviku Guðjón þegar hann þjálfaði Stoke - nú er kominn tími til að hann fái annað tækifæri.

--- --- ---

Er það rétt hjá Andrési Magnússyni að mælingin á fátækt íslenskra barna byggi á einhvers konar meðaltali - hét það ekki meðalkúrfa í skólakerfinu? Þá er nú ekki mikið að marka þetta og umræða um skýrsluna í raun þarflaus. Það er vert, segir Andrés -

"...að vekja athygli á því að þessi fátæktarmæling byggist ekki á kjörum fólks heldur hlutfallslegum kjörum þeirra miðað við meðaltalið. Það er sumsé innbyggt í mælinguna að neðstu prósentin eru skilgreind fátæk óháð efnalegri stöðu. Þannig að fátæktin verður aldrei upprætt meðan það er viðmiðunin, alveg sama hvað börnin fá að bíta og brenna.

Það er afar sennilegt að á Íslandi finnist börn, sem búa við fátækt af ýmis konar völdum, og auðvitað ber okkur að gæta þeirra bræðra okkar og systra. En þessi umræða er auðvitað á fullkomnum villigötum ef það er innbyggt í kerfið að engu skipti hvernig búið er að fólki svo lengi sem einhver finnst, sem kann að hafa það betra. Er þá nokkuð annað ráð en að núllstilla ártalið og taka upp kommúnisma að kambódískri fyrirmynd? Jafna allt við jörðu?"





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×