Fastir pennar

Kjarnorka, fjölmiðlar, atvinnupólitíkusar, Ögmundur og Ármann

Ef mönnum er alvara með skelfileg áhrif loftslagsbreytinga er ekki nokkur leið að horfa fram hjá kjarnorku. Það getur ekki talist vera annað en hræsni. Staðreyndin er sú að afar fáir hafa látið lífið vegna friðsamlegrar notkunar kjarnorku - tölurnar um mannfall vegna Tsjernóbyl hafa til dæmis verið stórlega ofmetnar - og það að koma kjarnorkuúrgangi fyrir hlýtur að vera viðráðanlegt viðfangsefni á tækniöld, ekki síst ef blasir við heimskreppa og alls kyns hryllingur vegna loftslagsbreytinga.

Það eru Frakkar sem losa einna minnst af gróðurhúsalofttegundum - ástæðan er í meginatriðum sú að þeir eru eitt kjarnorkuvæddasta ríki í heimi.

--- --- ---

Það er ekki furða að menn séu að pæla í um að sameina Skjá einn og Stöð 2. Í meginatriðum er betra að samkeppni komi úr þremur áttum eða fleiri en tveimur. Hins vegar er frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. þess eðlis að einkafjölmiðlarnir hljóta að bregðast við. Það er meiriháttar aumt að geta ekki tekið Rúv af auglýsingamarkaði á sama tíma og verið er að tryggja stofnuninni öruggar tekjur með skatti sem nemur tugum þúsunda á hvern fullveðja einstakling á ári - líka þá sem horfa ekki á sjónvarp.

Það hafa verið sett fram fjölmiðlalög á nýjan leik og nú ber svo við að enginn að ræða um þau. Kannski er skuggalegt þegar allir flokkar eru sammála um svona mál?

--- --- ---

Valgerður Bjarnadóttir, einn áhugaverðasti frambjóðandinn í prófkjörum haustsins, gerir atvinnustjórnmálamenn að umtalsefni á heimasíðu sínni.

"Viðhorf mitt til verkefnisins - þ.e. viðhorf mitt til stjórnmála, sem ég tel ekki atvinnugrein heldur hlutverk eða verkefni. Eftirlaunaósóminn sem ég kalla svo er til marks um hvernig stjórnmálamenn hafa misskilið hlutverk sitt, haldið að þeir séu stéttarfélag og skammtað sér eftirlaunakjör sem ekki eru einu sinni fjarskyld eftirlaunakjörum annars fólks í landinu."

Við ættum að fara að hugsa þessi mál af alvöru. Stjórnarskrárnefndin sem nú situr hefur ekki sýnt fram á annað en að stjórnmálamenn eru ófærir um að setja reglur um sjálfa sig - enda í raun fáránlegt að þeir véli þar einir um.

Ég fjalla um þetta í pistli í þættinum mínum á morgun. Það mætti til dæmis takmarka verulega tímann sem ráðherrar og þingmenn sitja, stytta sjálfan þingtímann, gera ráð fyrir að þingmenns séu í öðru starfi, draga úr eilífum og óþörfum ferðalögum, fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum, athuga með að taka upp einmenningskjördæmi - setja framkvæmdavaldinu skorður þannig að það sé þjónn en ekki drottnari.

--- --- ---

Ég hef fjallað dálítið um gatslitin slagorð í prófkjörum. Sum eru góð og það besta er Ármann á Alþingi.

Fyrir þá sem ekki kunna Íslandsöguna sína, þá er skýringin hérna.

--- --- ---

Er Ögmundur að meina það þegar hann segist vilja losna við bankana úr landinu til að jafna kjörin? Ég vissi að Vinstri grænir hölluðust til vinstri - en mér var ekki kunnugt að þeir væru svona miklir bolsévíkar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×