Fastir pennar

Allir kokkar gleðjast

Í gær var ég að lýsa eftir því að menn færu að gera eitthvað í sambandi við hið brjálæðislega matarverð í stað þess að tala bara út í eitt. Og nú er það komið, matarskattur svokallaður verður lækkaður í 7 prósent, bæði á vörum sem hafa borðið 14 og 25 prósenta virðisaukaskatt. Það ætti að muna um þetta.

Hins vegar er fyndið að þetta á ekki að koma til framkvæmda fyrr en í mars, kortéri fyrir kosningar eins og það heitir. Það verður kosið seinnipartinn í apríl. Þá geta stjórnarflokkarnir aftur gert sér mat úr þessu. Skyldi þetta vera ávísun á áframhaldandi setu sömu ríkisstjórnarinnar - er hún kannski eilífðarvél?

Matarverð á Íslandi hefur hækkað svo mikið á þessu ári að furðu sætir. Lækkun á gengi krónunnar skilaði sér lítt út í matarverðið en maður undireins var við gengishækkanir. Nú er spurning hvort ítrustu áætlanir ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga. Einhvern veginn er maður pínu efins um að það gerist svona af sjálfu sér. Hvað taka stórmarkaðirnir mikinn hluta lækkunarinnar til sín - og hversu mikið skilar sér til neytenda? Og veitingahúsin, eigum við von á að verðið þar verði loksins skaplegt?

Virðisaukaskattur hefur verið fáránlega hár hér á landi, einhver sá hæsti í heimi. Svo auðvitað fagnar maður þessu. En kannski hefði verið ráð að lækka virðisaukaprósentuna almennt í stað þess að flækja skattkerfið enn frekar - eða þá bara stíga skrefið til fulls og leggja flata skattprósentu á allt, vörur, þjónustu, tekjur, fyrirtæki og fjármagn?

Annars á Guðni Ágústsson orð dagsins: "Það munu allir kokkar í eldhúsum Íslands gleðjast."

--- --- ---

Víða á landinu stefnir í bráðskemmtileg prófkjör með ágætum frambjóðendum. En ekki hjá Sjálfstæðismönnum í Norðvesturkjördæmi. Þeir ætla ekki að taka sénsinn á að þetta verði sami skrípaleikurinn og síðast þegar kjörkassar voru bornir út um allar koppagrundir og frambjóðendur svindluðu í gríð og erg. Nú verður stillt upp - maður getur rétt ímyndað sér plottin sem fara í gang, undirferlin og hrepparíginn.

Sturla Böðvarsson ætlar sér sjálfsagt fyrsta sætið eins og síðast. En Einar Kristinn Guðfinnsson er miklu sterkari stjórnmálamaður en Sturla svo það er varla neitt óeðlilegt þótt hann sækist eftir fyrsta sætinu. Hins vegar er Einar mjög kurteis maður og kannski til í að bíða. Einar Oddur Kristjánsson ætlar sér sjálfsagt þriðja sætið. Þá eru komnir á lista Vestlendingur og tveir Vestfirðingar - og engin endurnýjun.

Borgar Þór Einarsson, stjúpsonur Geirs Haarde og formaður SUS, sækist eftir fjórða sætinu. Borgar er frá Akranesi - Skagamenn vilja náttúrlega fá sinn þingmann. En þá vantar konur. Birna Lárusdóttir vill komast á þing. Vandinn er bara að hún er líka frá Vestfjörðum eins og Einararnir.

Og hvað þá með Húnavatnssýslur og Skagafjörð? Vilhjálmi Egilssyni var bolað af listanum síðast og nú vilja Sjálfstæðismenn á Norðurlandi vestra ábyggilega fá sinn sinn þingmann.

Þetta er eiginlega alveg svakaleg flækja.

--- --- ---

Tvennt athyglisvert úr þætti mínum í gær:

Ingibjörg Sólrún sagði og margendurtók að stjórnarandstöðuflokkarnir muni tala fyrst saman um ríkisstjórnarmyndum ef þeir ná meirihluta eftir kosningarnar. Þetta ættu að vera stórpólitísk tíðindi, hlýtur að skýra valkostina í kosningunum allverulega. Ekki er þetta kosningabandalag en stjórnarandstaðan ætlar semsagt að reyna að mynda ríkisstjórn ef hún hefur nægt fylgi.

Hitt var viðtalið við Michael Corgan. Corgan er ekki bara stjórnmálafræðingur, heldur var hann líka yfirmaður á Keflavíkurflugvelli um árabil. Varla neinn erlendur maður þekkir betur samskipti Íslands og Bandaríkjanna. Corgan segir fullum fetum að Íslendingar fái ekkert úr úr varnarsamkomulaginu við Banadaríkin sem þeir hefðu ekki getað fengið gegnum aðildina að Nató.

Pétur Gunnarsson er með athyglisverðar bollaleggingar um þetta á bloggsíðu sinni undir yfirskriftinni Follow the money - já, kannski snýst þetta aðallega um peninga?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×