Fastir pennar

Kosningar – hvað er í spilunum?

Dagarnir eftir kosningarnar gætu orðið spennandi hér í Reykjavík - það er ef Sjálfstæðisflokkurinn vinnur ekki hreinan meirihluta. Hér í borginni er engin hefð fyrir stjórnarmyndunarviðræðum - við höfum engan forseta til að útdeila umboði til stjórnarmyndunar. Því gæti ríkt hálfgerður glundroði dagana eftir kosningarnar - allir tala við alla, gengur á með boðum og yfirboðum. Minni flokkarnir geta gert sig ansi dýrkeypta í svona ástandi.

Auðvitað er líka hugsanlegt að einhverjir séu þegar búnir að tala saman, hafi jafnvel gefið ádrátt um samstarf eftir kosningarnar.

Fyrir kjósendur er þetta kannski ekki nógu sniðugt. Það væri kannski hreinlegra ef flokkarnir gæfu út fyrirfram með hverjum þeir hyggjast starfa - eða jafnvel að kjósendur gætu sýnt vilja sinn í þessu efni á kjörseðli.

Sjálfstæðisflokkurinn á mikla möguleika eins og sjá má þegar spáð er í spilin. Samfylking er háð því að fá Vinstri græna með sér - það ætti varla að vera bundið vandkvæðum - en reyna svo að lokka Frjálslynda flokkinn eða Framsókn til samstarfs.

En svona líta möguleikarnir út:



Sjálfstæðisflokkur
- hreinn meirihluti. Það getur gerst þótt flokkurinn fái alveg undir 45 prósenta fylgi.

Sjálfstæðisflokkur - Frjálslyndi flokkurinn. Nokkuð líklegt. Hugsanlegt þó að Sjálfstæðismenn telji að Ólafur F. Magnússon sé erfiður í samstarfi eða að hann gerist of einstrengingslegur í stjórnarmyndunarviðræðum.

Sjálfstæðisflokkur - Framsóknarflokkur. Spurningin er auðvitað hvort Framsókn nær manni inn. Sporin hræða kannski - ef til vill er Framsóknarflokkurinn ekkert alltof snokinn fyrir meira samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn en orðið er.



Sjálfstæðisflokkur - Vinstri grænir.
Í þætti mínum í gær útilokaði Svandís Svavarsdóttir ekki að það kæmi til greina. Styrmi Gunnarsson dreymir um þetta samstarf.



Sjálfstæðisflokkur - Samfylking.
Verður að teljast ólíklegt, að sumu leyti vegna stærðar flokkanna, en líka vegna þess hvað tónninn milli þeirra er oft heiftúðugur. Málefnalega er þó ekki mikill munur. Innan beggja flokkanna eru ýmsir sem telja að þetta stjórnarmynstur sé það eina sem komi til greina eftir næstu alþingiskosningar.

Samfylking - Vinstri grænir - Framsókn. Þetta er R-listinn. Miðað við skoðanakannanir er ólíklegt að hann haldi meirihlutanum.

Samfylking - Vinstri grænir - Frjálslyndi flokkurinn. Þessi meirihluti var mögulegur samkvæmt Gallupkönnun í gær. Þetta þýðir að Ólafur F. Magnússon er í oddastöðu og gæti orðið mjög valdamikill, til dæmis er líklegt að hann myndi reyna að stöðva alla vinnu við flutning flugvallarins.



Samfylking - Vinstri grænir - Frjálslyndi flokkurinn - Framsókn.
Ef allir þessir flokkar ná inn mönnum minnka líkur á því að Sjálfstæðisflokkur fái hreinan meirihluta. En hvort þetta gæti orðið starfhæfur meirihluti - það er annað mál.






×