Fastir pennar

Stjórnmálaviðhorfið



Þingið sem er að taka sér frí fram á sumar hlýtur að teljast eitt hið tíðindaminnsta í manna minnum. Það sem stendur upp úr er málþóf um vatnalög og síðan um Ríkisútvarpið. Þrátt fyrir að fá mál og smá kæmu fram, tókst ekki að kára á tilsettum tíma og því eru þingmenn kallaðir aftur til funda í sumar. Gott á þá er sjálfsagt útbreitt viðhorf - að þurfa að halda áfram að svitna yfir RÚV yfir hásumarið.

Mál málanna þessa dagana er efnahagur þjóðarinnar. Þingið hefur verið furðu sinnulítið um hann - kannski af því það ræður hérumbil engu um hagstjórnina lengur? Meira að segja maðurinn í Seðlabankanum er farinn að mælast til þess að ríkisstjórnin reyni að koma böndum á efnahagslífið - segir eins og satt er að hinir háu vextir bitni einna verst á þeim sem minna mega sín, geta ekki spilað á kerfið eins og stóru fiskarnir.

Eða bankarnir sem taka sér stöðu með eða á móti krónunni alveg eins og hentar.

--- --- ---

Skoðanakönnunin sem birtist um daginn og sýndi að ríkisstjórnin hefur aðeins 48 prósenta fylgi vekur athygli. Þarna eru vísbendingar um að hveitibrauðsdögum Geirs Haarde sem formanns Sjálfstæðisflokksins sé að ljúka. Það kom líka í ljós hjá Gallup að ánægjan með störf hans hafði minnkað verulega. Hræringarnar í efnahagsmálunum eru slíkar að fólk hefur áhyggjur af eigin hag, launin gufa upp í gengisfalli og verðbólgu, vextir og verðbætur breyta lánabyrðinni í ok.

Það er skiljanlegt að ánægjan með ríkisstjórnina minnki þegar svona gerist. Á sama tíma er næstum eins og Geir sé horfinn. Maður veltir jafnvel fyrir sér hvort honum sé farið að leiðast í pólitík. Það þarf sterkan anda til að sitja í fjármálaráðuneytinu í hérumbil áratug og breytast ekki í kerfiskarl.

Við þetta bætast svo varnarmálin - óskiljanlegur skortur á hreinskilni sem hefur einkennt alla þá atburðarás. Það er ekki beint til þess fallið að efla traust á stjórninni.

--- --- ---

Sjálfstæðismenn hafa verið í uppsveiflu víðast um landið - þeir njóta augljóslega sterkrar stöðu flokksins í landsmálapólitíkinni. Í Reykjavík stefnir í að flokkurinn geti unnið meirihluta í borgarstjórn. Þó hefur hann einungis um 47 prósent í skoðanakönnunum. En það gæti verið nóg.

Þetta er nokkurn veginn það fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði í tvennum kosningum undir Árna Sigfússyni. Hann fiskaði semsagt ágætlega fyrir flokkinn. Fylgið dalaði svo verulega í síðustu kosningum þegar Björn Bjarnason var settur í oddvitasætið og Frjálslyndir buðu fram.

Skoðanakannanir sýna reyndar að margir kjósendur hafa ekki gert upp hug sinn - hlutfall óákveðinna er allt upp í fjörutíu prósent. Það er spurning hvert þetta fólk hallast. Frambjóðendur þurfa greinilega að fara að drífa sig út á akurinn til að slíta upp atkvæðin.

--- --- ---

Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að reka áhrifameiri kosningabaráttu en Samfylkingin. Hún er áferðarfallegri, virkar útpældari. Hefur yfir sér rauðan bjarma jafnaðarstefnunnar. Höfðar inn á miðjuna. Hin félagslegu yfirboð frá öllum flokkum eru athyglisverð - sumt af því getur varla talist annað en skrum miðað við það sem maður ímyndar sér að sveitarfélög hafi efni á.

En auðvitað speglar þetta samfélagið eins og það er orðið þar sem báðir foreldrar vinna langan vinnudag til að eiga fyrir neyslunni. Það er langt síðan ein fyrirvinna dugði til. Nú er ekki nóg að koma börnunum fyrir á leikskólum - þeir eiga að vera ókeypis þrátt fyrir að ekki sé til fé til að reka þá almennilega í núverandi mynd.

Það á líka að tryggja fjölskyldunni meiri tíma, ráðast gegn "skutlinu". Aðferðin virðist helst vera sú að koma börnunum í vist á frístundaheimilum eftir að skóladegi lýkur. Þannig þarf stöðugt meiri vistun, meiri stofnanir. Til skamms tíma hétu þessi fyrirbæri skóladagheimili og voru fræg fyrir hvað starfið þar var lélegt, starfsmennirnir illa launaðir, ekki peningar til að gera neitt og allt í skötulíki.





×