Fastir pennar

Nokkur atriði um tunguna

Í mér hefur alltaf blundað málfeigðarsinni, stundum vildi ég vera alveg laus við þetta tungumál sem er talað af nokkur hundruð þúsund hræðum á afskekktu og sjálfbirgingslegu eylandi, íbúatölu smáborgar í Evrópu, útnára heimsins, handhafa menningar sem álítur sig hafa mikla yfirburði.

--- --- ---

Ég hef verið að hlusta á umræður um tunguna - eins og það er kallað - síðustu dagana. Þetta fer í ýmsa kunnuglega farvegi. Sumir segja að íslenskan verði bráðum dauð; að slettur, beygingavillur og lítill orðaforði séu meiriháttar vandamál. Aðrir að þetta sé bara býsna heilbrigt, aldrei hafi verið skrifað og talað meira en einmitt á Íslandi nútímans.

Svo bíður maður eftir að þeir taki líka tl máls sem segja að íslenskan sé kúgunartæki, sérstaklega málverndarstefnan ssem sé notuð til að lemja á innflytjendum. Enn eitt viðhorf sem mun heyrast er að við séum bara að upplifa eðlilegar einfaldanir í málkerfinu - svona kerfi geti aldrei verið statísk - tungumál einfaldist þegar tíminn líður.

Danska er þannig einfaldasta mál í heimi og kannski það auðveldasta - ef ekki væri hinn hroðalegi framburður.

--- --- ---

Eitt sinn þótti sjálfsagt að skipta menningunni í hámenningu og alþýðumenningu - núorðið þykir það líklega hroki og snobb. Mörkin lág- og hámenningar hafa reyndar mikið til verið að mást út; lágmenningin er sífellt að færast ofar í samfélaginu. Nýríkir menn í nútímanum telja sig ekki þurfa að nudda sig utan í hámenningu; þeir hafa bara sama smekk og aðrir.

Forðum tíð var alþýðumenningin mjög þjóðleg, líkt og sést á þjóðsögum og rímum. Íslenskan lifði af meðal alþýðunnar sem var mjög einangruð frá umheiminum.

Yfirstéttin var hins vegar alþjóðlegri. Hún var næstum orðin dönsk þegar Rasmusi Rask og Fjölnismönnum tókst að endurlífga íslenskuna á fyrrihluta 19. aldar. Þetta var svosem ekkert einstætt; þjóðtungurnar voru mjög mikilvægur þáttur í rómantískum þjóðernishreyfingum þessa tíma. Flestar smáþjóðir eiga sinn Jónas eða hliðstæðu hans.

Fjölnismenn settu íslenskumælandi bændur á stall sem fyrirmyndir; þetta tókst svo vel að innan skammt var íslenskan aftur orðin mál yfirstéttarinnar, menntamanna og stjórnmálamanna.

Við berum okkur stundum saman við Íra; á Írlandi gerðist þveröfugt - írskan hélt áfram að vera bara mál kotfólksins og því hlaut hún að deyja út.

--- --- ---

Nú ber svo við að þjóðleg menning alþýðunnar hefur gjörsamlega liðið undir lok, það er ekki eftir tangur né tetur af henni. Menning alþýðunnar er alþjóðleg ; hvert sem litið er streyma bachelor og ídol út úr sjónvarpstækjunum.

Þannig er lítið eftir af hugmyndinni um hinn góða alþýðumann sem situr við uppsprettulindir tungunnar. það þýðir ekki lengur að nefna við hann Gretti sterka eða Gunnar á Hlíðarenda. Maður fær bara skilnigsvana augnaráð. Kannski er ekki furða að þeir sem gæta bókmenningarinnar séu svolítið skelkaðir.

--- --- ---

Ég byrjaði á málfeigðinni; ég verð að viðurkenna að ég hef dálítið tvíbenta afstöðu til íslenskunnar. Að mörgu leyti er það eins og að vera í fangelsi að tilheyra svo litlu málsvæði. Hér er mjög auðvelt að vekja athygli; hópurinn er afar takmarkaður og eins umfjöllunarefnin. Þetta er allt mjög friðsælt og gott, en að sumu leyti eins og að vera staddur í dálítið leiðinlegu griðlandi.

Það er sífellt verið að tala um að það sem geri þjóðina að þjóð sé tungan - og nú hefur reyndar bæst við náttúran sem sumir segja að sé ennþá sterkara sameiningartákn. Mér dettur stundum í hug að þurfi ekki að flækja þetta svona mikið; við erum bara fædd hérna og það er ekki endilega svo auðvelt að komast burt. Eða eins og Roman Polanski sagði þegar hann kom hingað einu sinni: Ég get ekki hugsað mér að búa í svona litlu samfélagi, en ef maður er fæddur hérna og þekkir ekki annað, þá er það kannski ágætt.

Tungan er svolítið eins og íslenska krónan, hún er alltof hátt skráð en þú getur hvergi notað hana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×