Fastir pennar

Hinn óbærilegi léttleiki

Ég má til með að byrja á því að segja ykkur frá prófkjörs-raunum mínum, sem einkum voru fólgnar í því að láta fara sem minnst fyrir mér. Einstaka maður klappaði mér á bakið og sagði um leið og hann glotti við tönn: jæja þá, alltaf í prófkjörum (les: alltaf í boltanum).

Þetta lýsir auðvitað þeirri kurteisi Íslendinga að vera góður við aumingjana og mér leið bara nokkuð notalega með þetta hlutskipti, þangað til ég hitti pólitískan áhugamann á förnum vegi daginn fyrir kjörið, sem fullyrti að ég myndi lenda í sjötta eða sjöunda sæti. Þá fann ég aftur til ábyrgðar minnar og rauk út í Áfengi til að kaupa bjór og hvítt vín, til að taka á móti fylgis-mönnunum og fagnaðar-látunum, sem mundu brjótast út strax við fyrstu talningu. Keypti fyrir fimmtán þúsund kall. Sem voru einu útgjöld mín fyrir utan óvænt útgjöld sem komu til með þeim hætti að þegar við hjónin vorum á leið á kjörstað á laugardeginum, hringdi farsíminn. Falleg kvenrödd tilkynnti: Í talhólfinu eru ein ný skilaboð, ýttu á einn ef þú vilt hlusta, ýttu á tvo ef þú hafnar símtalinu. Við horfðumst í augu hjónin og ég sá vonarglampa minna eigin augna í augunum á Ágústu. Kannske var þarna kominn kjósandi þrátt fyrir allt. Ég ýtti á einn og angur-vær rómur Össurar Skarphéðinssonar ómaði í talhólfinu: mundu að kjósa, mundu að kjósa mig, sagði Össur án þess að minnast einu orði á mitt framboð! Þar fór síðasta vonin. Og kostaði mig tíkall!

Ekki það að ég þurfi að kvarta. Fjórir af hverjum tíu greiddu mér atkvæði, fjörutíu prósent var ágætt og ég ákvað að segja mig ekki úr flokknum. Enda var ég kominn á þing nokkrum dögum síðar, svei mér þá og ópólitískur vinur minn hringdi og sagði: það gekk vel hjá þér prófkjörið, kominn strax á þing!

Nei, sagði ég, þetta er út af feðra- og fæðingarorlofi. "Hvað ertu búinn að eignast enn eitt barnið?" var hrópað hinum megin á línunni. Menn hafa ennþá trú á mér!!

Nei, þetta var barn í brók hjá mér, en Helgi Hjörvar var kominn í hálfsmánaðar barn-eignarfrí, sem ekki þekktist meðan ég var á mínum sokkabandsárum og hlóð niður börnunum og nú er bara að bíða og vona eftir fleiri barneignum í þingflokknum. Ég hef verið að mæla þá út, hverjir séu líklegastir.

Það var gaman að koma aftur í þingið. Þar entist ég áður fyrr í hálfan annan áratug, þegar framtíðin beið mín og ég beið eftir henni. Mér hefur liðið eins og forngrip, afturgenginn alþingismaður aftan úr forn-eskju.

Guðni kom og heilsaði upp á mig og minnti mig á að ég sat með karli föður hans á þingi, þeim heiðursmanni Ágústi frá Brúnastöðum. Þó er Guðni orðinn langsetinn ráðherra og með eldri mönnum á þingi. Og svo kom Halldór Blöndal, minn gamli vinur, og vakti athygli mína á því, að vorum saman á þessum vinnustað fyrir þrjátíu og fimm árum og það var óbærilegur léttleiki yfir allri þessari endurkomu minni, sjálfur Kristur risinn upp frá dauðum eða hvað? Nema það að ég er hvorki fæddur né endurborinn frelsari, heldur bara maður á besta aldri, sem hefur gaman af svona uppákomum. Það er gaman að geta gert gagn, gaman að því að finna hlýhug og velvild sam-herja og pólitískra andstæðinga og geta litið upp til þeirra fjölmörgu manna og kvenna, sem taka þetta starf alvarlega. Auðvitað er þetta fólk, sem situr á þingi, að sækjast eftir frama og upphefð í stjórnmálum, en leggur það þó á sig, að sitja endalausa leiðinlega fundi, karpa um keisarans skegg og hafa skoðanir á þjóðmálum og hagsmunamálum út og suður. Þetta er í rauninni óbærilegt líf, að svo miklu leyti sem það er líf að eiga aldrei sjálfan sig og vera almenningseign. Ég þekki þetta hvorutveggja og af tvennu illu, verð ég að viðurkenna að hún togar í mann þessi freisting, þessi áskorun, að vera kominn á þann aldur að vera maður sjálfur en eiga sér þó enn þann draum að gera heiminn og tilveruna ögn betri. Það getur maður sosum gert, innan þings sem utan, en mestu máli skiptir þegar upp er staðið að vera sjálfum sér trúr, samvisku sinni og hugsun og reynslu. Þess vegna er ég þar sem ég er.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×