Fastir pennar

Opin pólitísk taflstaða

Nú er vetur til alþingiskosninga. Í ljósi reynslunnar sýnast vera fleiri spurningarmerki á lofti um pólitíska þróun næstu mánaða en oftast áður á svipuðum stað á tímaási kjörtímabilsins.

Það er óvissa um markmið flokka eins og Samfylkingar og Framsóknarflokks. Það er óvissa um verðbólguþróun. Það er óvissa um hvaða mál eru líklegust til þess að hafa mest áhrif á val kjósenda þegar nær dregur.

Að þessu virtu er fróðlegt að rýna í niðurstöður skoðanakönnunar sem Fréttablaðið birtir í gær og í dag. Þær fela í sjálfu sér ekki í sér stór tíðindi. En þar á móti staðfesta þær að um margt er erfiðara nú en fyrr að sjá ákveðna framvindu fyrir.

Meirihluti stjórnarflokkanna er á tæpasta vaði og skilar þeim satt best að segja varla starfhæfum meirihluta. En í sjálfu sér er það ekki áhugaverð spurning í því ljósi að enginn veit hvort flokkarnir hafa hug á að starfa saman að loknum kosningum.

Helsta áhyggjuefni Sjálfstæðisflokksins sýnist vera að fylgi kvenna hefur dalað aftur. Eftir margra ára lægð sveiflaðist það upp á við fyrir ári en sýnist samkvæmt þessu alltént ekki vera orðið stöðugt á nýjan leik. Framsóknarflokkurinn gat tæpast búist við uppsveiflu áður en reyndi á nýja forystu.

Samfylkingin er enn undir kjörfylgi þó að hún bæti sig talsvert frá síðustu skoðanakönnun. Vöxtur Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs er hins vegar svo mikill að hann þrengir augljóslega stöðu Samfylkingarinnar til þess að gera sér dælt við Sjálfstæðisflokkinn.

Könnunin leiðir í ljós að þriðjungur kjósenda á sér þann kost helstan að núverandi stjórn sitji áfram. Það bendir til nokkurrar þreytu í kjósendahópnum með samstarfið. Enginn einn annar kostur kemst þó í hálfkvist við þennan í augum kjósenda.

Ríflega helmingur kjósenda vill einhvers konar stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þar á móti vill tæplega helmingur einhvers konar stjórn með Samfylkingu. Litlu færri vilja einhverja kosti með Vinstri grænu.

Athyglisvert er að einungis tólf af hundraði kjósenda vilja Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna saman í ríkisstjórn. Í því felast nokkuð skýr skilaboð um að kjósendur sjá þessa flokka helst sem kosti hvorn á móti öðrum.

Á þessu stigi er örðugt að bollaleggja um fyrstu taflleikina eftir kosningar. Þó má strax sjá þann möguleika að framsóknarmenn kjósi að halda sig til hlés með skírskotun til þess að málefnalegt olnbogarými á báða bóga sé of þröngt. Aðrir myndu sennilega líta á slíkan leik sem málefnalega uppgjöf.

En með þessu móti gætu framsóknarmenn hugsanlega neytt Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna til samstarfs sem þjóðin virðist lítinn áhuga hafa á. Í þeirri stöðu er aukheldur ljóst að Vinstri grænt myndi halda vinstri væng Samfylkingarinnar í stöðugu uppnámi sem smám saman myndi eitra stjórnarsamstarfið.

Slíkt samstarf myndi því aldrei standa lengur en í eitt kjörtímabil og líklega skemur. Framsóknarflokkurinn fengi ráðrúm til þess að ná vopnum sínum við hliðina á Vinstri grænu en til þess hefur hann einmitt verið að tapa atkvæðum.

Eins og sakir standa eru bollaleggingar af þessu tagi harla marklitlar. Þær þjóna fyrst og fremst þeim tilgangi að sýna hversu opin staðan er á taflborði stjórnmálanna. Endataflið geta menn einfaldlega ekki séð fyrir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×