Fastir pennar

Hefur eitthvað breyst?

Jarðskjálftar eru þeirrar náttúru að leiða út spennu sem hleðst upp í skorpu jarðar. Flokksþing Framsóknarflokksins megnaði hins vegar ekki að leysa út þá spennu sem hlaðist hefur upp á yfirborði flokksstarfseminnar á liðnum misserum.

Halldór Ásgrímsson gerði flokkinn að frjálslyndum stjórnmálaflokki í evrópskum stíl. Stór hluti flokksmanna sýnist á hinn bóginn aldrei hafa sætt sig við nýtt hlutskipti. Spenna milli nýs tíma og rómantíkur horfinnar aldar hlaut því að byggjast upp.

Gamli Þverárhlíðarhreppurinn í Borgarfirði var dæmigerður sveitahreppur þar sem framsóknarmenn höfðu sterk pólitísk tök. Nú segja kunnugir að flokkurinn sæki þangað varla fleiri atkvæði en fjögur. En þessi gróskumikla en fámenna sveit hefur á undanförnum árum alið af sér ekki færri en fimm doktora til starfa í þekkingarsamfélagi nútímans.

Þessi smáa tölfræði lýsir þeim umskiptum sem orðið hafa í íslensku samfélagi. Gamli Framsóknarflokkurinn sem átti stærð sína og áhrif að þakka samhentu fjölmennu bændasamfélagi og sterkum samvinnufyrirtækjum framleiðslusamfélagsins kemur ekki aftur. Héðan af verður hann aðeins rómantísk ímynd þeirra sem henni unna.

Hitt er annað að ugglaust er unnt að breyta Framsóknarflokknum aftur í þá veru að hann vinni til skiptis til hægri og vinstri og láti af öllum metnaði um fastmótaða pólitíska sýn á framtíðina. En það er hins vegar ekki jafn auðvelt þegar aflið sem fyrrum stóð að baki er ekki lengur til. Það sá Halldór Ásgrímsson.

Með kjöri Jóns Sigurðssonar sýnast framsóknarmenn hafa valið til forystu pólitíska framlengingu fráfarandi formanns. Keppinautur hans fór fram sem fulltrúi nýrrar kynslóðar en sótti helst fylgi í raðir gamla rómantíska hluta flokksmanna. Og varaformaðurinn var endurkjörinn með glæsibrag úr þeirra véum.

Í þessu ljósi verður ekki séð að flokksþingið hafi breytt miklu. Engin spenna var leyst úr læðingi. Svar fékkst ekki við þeirri spurningu hvers konar flokkur framsóknarmenn vilja vera til þess að mæta viðfangsefnum nýrrar aldar.

Sú breyting er helst fyrirsjáanleg í kjölfar flokksþingsins að nýr formaður muni leggja meiri rækt en áður var gert við að halda hæfilegum raka á rótum gömlu flokksrómantíkurinnar. Þannig má búast við meiri málamiðlunum.

Fyrstu merkin þar um felast í því að báðir armar flokksins lýstu því yfir að leggja ætti Evrópuumræðuna til hliðar um sinn. Þetta gerist þó að við blasi að einmitt á næsta kjörtímabili geti spurningar þar að lútandi í fyrsta sinn orðið raunhæf álitaefni.

Trúlega hefur það verið innanflokkspólitísk nauðsyn að ná fram samhljómi um þetta viðfangsefni. Þar hafa stundar hyggindi legið að baki. Það léttir tímabundið á spennunni.

En mála sannast er að allar líkur eru á að sú stóra spurning verði sett á dagskrá af öðrum öflum í samfélaginu en stjórnmálaflokkunum. Vera má fyrir þá sök að skemmra sé til þess en menn ætluðu að Framsóknarflokkurinn eins og aðrir flokkar komist ekki hjá því að taka afstöðu í þessum efnum.

Að öllu virtu má segja að Framsóknarflokkurinn hafi valið að vísu lítt þekktan en trúverðugan og traustan formann án þess að svara spurningum kjósenda um það á hvaða vegferð flokkurinn er. Til hvers var Halldór Ásgrímsson að hætta á þessu sumri?






×