Fastir pennar

Undanhald í áföngum

Flokkarnir tveir, sem hafa stjórnað Íslandi nær óslitið síðan 1927 ýmist saman eða hvor í sínu lagi, gátu löngum gengið að nærri tveim þriðju hlutum kjörfylgisins sem gefnum hlut. Svo sterk staða í skjóli bjagaðra kosningalaga hlaut að marka landsstjórnina og stjórn einstakra sveitarfélaga.

Tökum Reykjavík. Samanlagt kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í sveitarstjórnarkosningum í höfuðborginni 1930-1990 fór aldrei niður fyrir 55 prósent (1946), og fylgi þeirra nam samtals 69 prósentum 1990. Sama máli gegnir um fylgi þessara flokka í sveitarstjórnarkosningum á landsvísu: samanlagt fylgi þeirra í sveitarfélögum, þar sem listar þeirra voru bornir fram 1974-2002, fór aldrei niður fyrir 52 prósent (1978), en fylgi þeirra hélzt annars á bilinu 62-68 prósent nema 1986 (56 prósent). Það á vel við að leggja fylgi þessara tveggja flokka saman frekar en að skipta því á milli þeirra, því að þeir eru nauðalíkir í flestum aðalatriðum og hafa jafnan verið. Það er að vísu rétt, að þeir elduðu stundum grátt silfur á fyrri tíð, en það stafaði meðal annars af því, að þeir voru löngum svo að segja alveg eins og þurftu því að bítast um sama fylgi, einkum til sveita. Staðsetning Reykjavíkurflugvallar í mýrinni í miðri Reykjavík er til marks um veldi þessara flokka í höfuðborginni, þótt þeir hafi nú loksins báðir fyrir kosningar lofað því að flytja flugvöllinn burt, Sjálfstæðisflokkurinn þó með semingi.

Úrslit sveitarstjórnakosninganna um daginn eru eftirtektarverð í þessu ljósi. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna í fjórum stærstu sveitarfélögunum fór nú í fyrsta skipti niður fyrir helming. Fylgi þeirra í Reykjavík reyndist 49 prósent, 56 prósent í Kópavogi, 30 prósent í Hafnarfirði og 46 prósent á Akureyri. Fylgi stjórnarflokkanna í þessum fjórum sveitarfélögum, þar sem 64 prósent kjósenda búa, nam 47 prósentum á heildina litið. Fylgistapið á þessum stöðum er ekki bundið við Framsóknarflokkinn, því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðeins einu sinni áður í sögu sinni hlotið minna fylgi í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík (2002).

Þessi bága útkoma stjórnarflokkanna vekur hugboð um, að til tíðinda kunni að draga í alþingiskosningum að ári. Fari svo, að stjórnarflokkarnir tveir nái þá ekki meiri hluta atkvæða í fyrsta sinn frá upphafi núverandi flokkaskipanar, munu þau úrslit leggja mikla ábyrgð á hendur andstöðuflokkanna. Margir kjósendur virðast styðja stjórnarflokkana í þeirri trú, að stjórnarandstaðan sé svo veik, að henni sé síður treystandi til að varðveita stöðugleikann í efnahagslífinu: þetta er inntakið í gömlu glundroðakenningunni. Það er engu líkara en þeim, sem trúa þessari kenningu, sjáist yfir ábyrgðarleysið, sem hefur einkennt feril núverandi ríkisstjórnar undangengin ár, því að hún hefur nú hleypt verðbólgunni upp í átta prósent á ári, sem er Evrópumet eina ferðina enn, hleypt erlendum skuldum þjóðarbúsins langt upp fyrir 300 prósent af landsframleiðslu, seilzt út á yztu nöf í pólitískum embættaveitingum, knúið á um mjög aukinn ójöfnuð í skiptingu auðs og tekna og skilið landið eftir varnarlaust í þokkabót fyrir einskæra handvömm að því er virðist. Það þarf býsna líflegt ímyndunarafl til að hugsa sér, að stjórnarandstöðuflokkunum þætti árennilegt að halda lengra áfram á sömu braut.

Samt er allra veðra von. Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður til höfuðs ranglátri fiskveiðilöggjöf. Ætla mætti, að flokkurinn reyndi að gæta þess, að stefna hans í öðrum greinum sé samboðin sérstöðu hans í því mikilvæga máli. Og hvað gerir Frjálslyndi flokkurinn þá? Hann er ekki fyrr búinn að samþykkja skýra ályktun um nauðsyn þess að rýma Vatnsmýrina í Reykjavík fyrir blómlegri byggð en hann snýr við blaðinu rétt fyrir kosningar og lofar að negla flugvöllinn niður í mýrinni, eftir að hinir flokkarnir fjórir höfðu allir heitið Reykvíkingum, hver á sinn hátt, að flytja flugvöllinn. Reynslan mun skera úr því, hvort nýr borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mun standa við loforðin um flutning flugvallarins. Skyndilegur áhugi þeirra á málinu skömmu fyrir kosningar lofar ekki góðu um tímabærar efndir.

Reykjavík er aflstöð þjóðlífsins um landið. Ísland er eins og önnur lönd: borgirnar bera uppi sveitirnar, en þó þannig, að borg og sveit eru systur. Það er óskandi, að loforð allra flokka nema eins um flutning flugvallarins verði efnt sem allra fyrst til skýrra hagsbóta fyrir fólkið í landinu.


×