Fastir pennar

Draumurinn getur ræst

Frekar er að marka drauminn en vökuna, segir í frægri bók. Vissulega eigum við að láta okkur dreyma. Veruleikinn er til að bæta hann. Sumir draumar geta ræst, aðrir verða martraðir. Bandaríkin eru dæmi um draum, sem rættist. Tugmilljónir manna flýðu eymd og kúgun Norðurálfunnar og hösluðu sér nýjan og betri völl. Hið stóra ríki í vestri kom síðan lýðræðissinnum í Norðurálfunni til aðstoðar í tveimur heimsstyrjöldum og kalda stríðinu. Ráðstjórnarríkin eru hins vegar dæmi um draum, sem varð að martröð. Kommúnisminn mistókst, af því að í honum fólst ekki nægur skilningur á eðli mannanna og lögmálum auðs og eklu.

Sumir draumar eiga sér fótfestu í staðreyndum. Hópur hagfræðinga undir forystu Miltons Friedmans hefur fengist við það síðustu áratugi að mæla atvinnufrelsi í ýmsum löndum. Þeir hafa til þess smíðað sér vísitölu, og eru niðurstöður mælinga þeirra athyglisverðar. Í ljós kemur firnasterkt samband atvinnufrelsis og hagsældar. Þær þjóðir, sem búa við mest atvinnufrelsi, njóta einnig langbestu lífskjara, hvort sem þau eru skilgreind sem landsframleiðsla á mann eða líka teknir með í reikninginn þættir eins og réttaröryggi og aðgangur að heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt þessari vísitölu er Ísland 13. frjálsasta land í heimi, og hefur atvinnufrelsi stóraukist hér hin síðari ár.

Ætti draumur okkar ekki að vera, að Ísland yrði frjálsasta land í heimi? Samkvæmt vísitölunni fær Ísland 7,7 stig af 10 mögulegum, en frjálsasta atvinnulíf heims er í Hong Kong, sem fær 8,7 stig. Þrennt dregur einkum úr hlut Íslendinga. Hagkerfið er ekki nógu opið, því að innflutningur landbúnaðarvöru er takmarkaður, opinberi geirinn er of stór og skattar of háir. Þessi mál eru öll leysanleg. Draumurinn um frjálsasta land í heimi getur ræst.

Í fyrsta lagi þyrfti að gera Ísland allt að einni fríhöfn. Leyfa ætti frjálsan innflutning landbúnaðarvöru og fella niður tolla og vörugjöld. Þetta hefði þær afleiðingar, að hér yrði ódýrara að lifa. Matvælaverð myndi snarlækka. Þetta er nú loks orðið framkvæmanlegt af stjórnmálaástæðum, því að eftir síðustu kjördæmabreytingu eru neytendur í þéttbýli orðnir miklu öflugri hagsmunahópar en framleiðendur matvæla í strjálbýli.

Í öðru lagi þyrfti að halda áfram að selja fyrirtæki í eigu hins opinbera. Því hefur verið haldið fram, að ákvarðanir Landsvirkjunar um framkvæmdir ráðist ekki alltaf af arðsemissjónarmiðum. Lausnin er að selja fyrirtækið. Það er einnig óviðunandi, að Íbúðalánasjóður sé stærsta lánastofnun landsins og njóti ríkisábyrgðar. Bankarnir geta tekið við hlutverki sjóðsins. Eðlilegt er síðan að veita læknum og kennurum tækifæri til að spreyta sig á einkarekstri, en auðvitað með því skilyrði, að kostur fátæks fólks á heilsugæslu og skólagöngu verði hvergi lakari en hann er nú.

Í þriðja lagi þyrfti enn að lækka skatta. Til dæmis er brýnt að lækka tekjuskatt á einstaklinga niður í hið sama og fyrirtæki bera, 18%. Einnig þyrfti að lækka virðisaukaskatt. Engin ástæða er til að óttast, að opinber þjónusta myndi minnka. Við frjálsara atvinnulíf myndi velmegun aukast og skattstofninn þess vegna vaxa, svo að skatttekjur myndu ekki lækka að sama skapi og skattheimtan. Lítið af miklu getur verið meira en mikið af litlu. (Skatttekjur eru til dæmis svipaðar í Sviss og Svíþjóð, um eitt þúsund Bandaríkjadalir á mann, þótt skattheimta í Sviss, um 30% af landsframleiðslu, sé aðeins helmingur af því, sem hún er í Svíþjóð.)

Jafnframt þessu verða Íslendingar að haga nýtingu náttúruauðlinda sinna skynsamlega. Kvótakerfið í sjávarútvegi var stórt skref fram á við, þótt enn vanti á, að kostir eignarréttar séu þar virtir. Íslendingar eru síðan svo heppnir að þurfa hvorki kjarnorku né olíu með allri þeirri mengun, sem því fylgir, heldur getum við virkjað vatnsaflið upp til fjalla og fáum þá í kaupbæti uppistöðulónin, vötn, sem hylja urð og grjót og prýða landið. Draumurinn getur ræst.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×