Fastir pennar

Heilbrigðisvottur

Viðvörun matsfyrirtækisins Fitch Ratings varðandi stöðu ríkisfjármálanna hefur valdið nokkrum efnahagslegum óróa undanfarna daga. Viðbrögð fjármálamarkaðarins voru eins og álit matsfyrirtækisins hefði varpað ljósi á einhver ný sannindi. Í raun og veru kom þó ekkert fram í þessu áliti, sem ekki hefur blasað við um nokkurn tíma. Það eina sem kemur í raun og veru á óvart er, að þetta tilefni hafi þurft til að hreyfa við fjármálamarkaðnum í þá veru að veikja krónuna.

Þegar óróleiki af þessu tagi verður skiptir máli, að undirstöður efnahagslífsins eru sterkar og skuldastaða ríkissjóðs óvenju góð. Öll þróun efnahagsmála hefur verið á þann veg, að þjóðarbúskapurinn ætti að vera vel í stakk búinn til þess að mæta þessum aðstæðum.

Einkavæðing bankanna, aukinn sveigjanleiki og frjálsræði á fjármálamarkaði, nýjar fjárfestingar í orkuframleiðslu og stóriðnaði hafa styrkt undirstöður efnahagskerfisins. Stefnan í ríkisfjármálum hefur verið tiltölulega aðhaldssöm, og á sviði peningamála hefur Seðlabankinn gengið eins langt og vænta mátti í aðhaldsaðgerðum til þess að sporna gegn verðþenslu. Óróleiki af því tagi, sem nú hefur átt sér stað, þarf því ekki að valda verulegum áhyggjum um framtíðina.

Veiking krónunnar getur ekki komið nokkrum á óvart. Í reynd hafa menn búist við slíkum breytingum um allnokkurn tíma. Vaxandi viðskiptahalli hefur verið ótvíræð vísbending þar um. Að hluta til er viðskiptahallinn vottur um heilbrigði og grósku í efnahagslífinu; að svo miklu leyti, sem hann á rætur í fjárfestingu er skila mun auknum arði og meiri verðmætasköpun inn í þjóðarbúið.

En sagan er ekki öll sögð þar með. Of stór hluti viðskiptahallans á rætur að rekja til aukinnar einkaneyslu. Þjóðin hefur eytt um efni fram. Kaupmáttur ráðstöfunartekna er meiri en verðmætasköpunin stendur undir. Hin skarpa innkoma bankanna á húsnæðismarkaðinn hefur eðlilega haft áhrif í þessa veru ásamt með aðgerðum ríkisstjórnarinnar á því sviði. Þannig hefur orðið til svigrúm til aukinnar neyslu og skuldaaukningar heimilanna.

Hin hliðin á peningastefnu Seðlabankans hefur einnig leitt til aukins áhuga erlendra peningastofnana til þess að gefa út skuldabréf í íslenskum krónum. Það hefur augljóslega haft áhrif í þá veru að styrkja krónuna og búa þannig til óraunhæfan kaupmátt, sem hvergi er innistæða fyrir. Öll þessi teikn hafa blasað við um nokkurn tíma og lýsa hinni óheilbrigðu hlið viðskiptahallans.

Stundum hefur verið sagt að viðskiptahallinn sé besti vinur ríkissjóðs. En það er fölsk vinátta. Ljóst er að drjúgur hluti af tekjuafgangi ríkissjóðs á rætur að rekja til þeirra umsvifa, sem orðið hafa til vegna viðskiptahallans. Í því er fólgin ein helsta hættan, sem menn standa frammi fyrir nú. Þó að tekjuafgangur ríkissjóðs sé hlutfallslega mjög mikill og þoli samanburð við það sem best gerist með öðrum þjóðum, segir það ekki alla söguna. Nú vænta menn þess að veikari króna leiði til minni viðskiptahalla. Það mun hins vegar draga úr tekjum ríkissjóðs.

Við ríkjandi aðstæður þarf að vera áframhald á verulegum tekjuafgangi ríkissjóðs. Það eru gömul sannindi og ný, að peningamálastefna Seðlabankans megnar ekki ein að halda í við þensluáhrif í hagkerfinu. Þó að ekki sé tilefni til grundvallarstefnubreytingar í ríkisfjármálunum er einsýnt í ljósi allra aðstæðna, að í framhaldinu gæti verið þörf á harðari útfærslu þeirrar aðhaldstefnu í ríkisfjármálum, sem góðu heilli hefur verið fylgt um langt skeið.

Aðlögun krónunnar að raunverulegum aðstæðum í þjóðarbúskapnum var löngu orðin tímabær. Það hefði verið merki um óheilbrigði, ef fjármálamarkaðurinn hefði öllu lengur verið ónæmur fyrir viðskiptahallanum. Frekari hægfara aðlögun að raunveruleikanum með minnkandi viðskiptahalla er beinlínis æskileg þróun á næstu mánuðum. Útflutningsgreinarnar, bæði sjávarútvegur og nýsköpunariðnaður, munu njóta breyttra skilyrða. Óróleikinn síðustu daga hefur að því leyti jákvæð áhrif á framvindu efnahagslífsins. Í raun réttri má segja, að hann merki betri horfur um efnahagslegt heilbrigði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×