Erlent

Bilið minnkar í Þýskalandi

Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, mætti í gær áskorendum sínum í síðustu sjónvarpskappræðunum fyrir þingkosningarnar á sunnudaginn. Nú á lokaspretti kosningabaráttunnar benda skoðanakannanir til að Jafnaðarmannaflokkur Schröders sé að vinna aftur nokkurt fylgi. Í sjónvarpsumræðunum, sem teknar voru upp á hóteli í Berlín í gærmorgun en sendar út um kvöldið, stóðu Schröder og stjórnarsamstarfsfélagi hans Joschka Fischer úr flokki græningja andspænis Angelu Merkel, formanni Kristilegra demókrata og kanslaraefni stjórnarandstöðunnar, og Edmund Stoiber, formanni systurflokksins CSU í Bæjaralandi, en hann var kanslaraefni kristilegu flokkanna fyrir kosningarnar 2002. Þá voru þarna einnig Guido Westerwelle, formaður frjálsra demókrata, sem stefna að stjórnarsamstarfi við kristilegu flokkana, og Gregor Gysi úr nýja Vinstriflokknum, kosningabandalagi austur- og vestur-þýskra sósíalista. Merkel vill mynda stjórn með frjálsum demókrötum en ef marka má stöðuna í skoðanakönnunum er alls ekki víst að þessir flokkar fái hreinan þingmeirihluta. Jafnaðarmenn bættu enn við sig í nýjustu könnunum; fylgi þeirra mældist 35 prósent í könnun Forsa-stofnunarinnar sem niðurstöður voru birtar úr í gær. Forskot kristilegu flokkanna var samkvæmt því sjö prósentustig, en það var vel yfir 10% framan af kosningabaráttunni. Á lokasprettinum hefur Schröder og hans fólk lagt áherslu á að gera sér mat úr umdeildum hugmyndum Pauls Kirchhof, "fjármálaráðherra" í skuggaráðuneyti Merkel, um róttækar breytingar á skatta- og lífeyriskerfinu sem vekja skjólstæðingum þýska velferðarkerfisins ugg. Merkel og kosningastjórar hennar leggja aftur á móti áherslu á hræðsuáróður gegn hugsanlegri "rauð-rauð-grænni" stjórn (jafnaðarmanna, græningja og vinstrisósíalista), það er að segja að ekkert mark sé takandi á heitstrengingum Schröders um að hans flokkur myndi aldrei mynda stjórn sem væri upp á stuðning Vinstriflokksins komin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×