Sport

Berjast frændurnir um KR stöðuna?

Jónas Kristinsson, stjórnarmaður í KR-sport, segir að verið sé að skoða þjálfaramálin hjá KR fyrir veturinn en ekkert sé nú orðið víst í þessum efnum. Teitur Þórðarson hefur verið orðaður við þjálfarastarfi að undanförnu, en hann er náskyldur Sigursteini Gíslasyni, núverandi þjálfara liðsins.  "Sigursteinn Gíslason og Einar Þór Daníelsson eru þjálfarar liðsins núna og það er eðlilegt tímabilið sé klárað áður en ákvarðanir verða teknar. En við erum að skoða þá möguleika sem til greina koma," sagði Jónas.Sigursteinn Gíslason er þjálfari meistaraflokks og 2.flokks KR eins og staðan er nú og mun sinna þeim störfum þangað til tímabilinu lýkur. Hann hefur ekkert heyrt af því að Teitur Þórðarson muni taka við liðinu eftir að tímabilinu lýkur. "Ég er ekki að hugsa um neitt annað en næsta leik sem er framundan. Ég gerði samning út tímabilið og mun klára hann. Svo gerði ég tveggja ára samning um þjálfun 2.flokksins síðasta haust, en ég mun endurskoða mín mál í lok sumars."Sigursteinn hefur ekkert heyrt í frænda sínum til þess að spyrja hann út í þjálfaramálin og er ekkert að hugsa um hver tekur við starfinu hjá KR. "Ég er ekkert að hugsa um það hver verður þjálfari KR á næsta tímabili, en mér finnst ekkert undarlegt ef stjórn KR er skoða þá möguleika sem í boði eru." Í þau skipti sem þjálfara meistarflokks KR hefur verið sagt upp störfum á meðan Íslandsmótið stendur enn yfir, hefur sá sem tók við liðinu aldrei haldið áfram með liðið á næsta tímabili á eftir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×