Fastir pennar

Pólitík og Útvarpið

Birgir Guðmundsson skrifar

Í lok fjórða áratugar síðustu aldar komu upp átök milli þáverandi útvarpsstjóra, Jónasar Þorbergssonar og eins af höfuðpaurum Framsóknarflokksins og fulltrúum hins pólitíska valds í landinu, Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Ágreiningurinn snerist um veru tveggja fréttamanna, Hendriks Ottóssonar og Björns Franzsonar á fréttastofu Útvarpsins, sem Hriflu-Jónas taldi ófært að væru þar starfandi, enda kommúnistar. Kommúnistar og kommúnistahreyfingin í þá daga var afar gagnrýnin á Vesturveldin og lýðræðið enda voru stuttir þræðirnir frá Komintern og á þessum árum hafði Kremlarbóndinn Stalín gert griðarbandalag við Hitler. Í ljósi sögunnar kunna því einhverjir að telja áhyggjur Jónasar frá Hriflu eðlilegar. Nafni hans, útvarpsstjórinn, vildi hins vegar ekki hreyfa við mönnunum tveimur enda ekkert upp á þá að klaga í starfi og útvarpsstjóri talaði um, að það kæmi ekki til greina að koma þannig fam við saklausa "blásnauða alþýðumenn". Úr þessu varð mikil rimma milli þeirra nafnanna, en þeir voru samflokksmenn og samherjar til margra ára og niðurstaðan varð vinslit milli þeirra. Jónas Þorbergsson sýndi þarna að hann lagði aðrar mælistikur á menn sem unnu á fréttastofunni en pólitískar og hann kappkostaði ætíð að halda flokkspólitík utan við þennan áhrifamikla nýja miðlil eftir því sem hann frekast gat. Lét hann m.a. setja miklar reglur um stjórnmáaumfjöllun, reglur sem vissulega voru barn síns tíma en segja má að hafi þó lagt grunninn að því að Útvarpið náði að byggja upp traust og tiltrú hjá þjóðinni á tímum flokksvæðingar og pólitískra hrossakaupa. 

Þetta er rifjað upp hér til að draga fram að pólitísk átök og tilraunir til pólitískra afskipta af RÚV og fréttastofu Útvarps eru ekki nýjar af nálinni. Þvert á móti hafa þær viðgengist frá árdögum útvarpsins. Misjafnlega hefur þó gengið að standa gegn slíkum beinum pólitískum inngripum eins og dæmin sanna. 

Í vikunni var Auðun Georg Ólafsson ráðinn í stöðu fréttastjóra Útvarpsins með pólitísku inngripi. Nokkuð ljóst má vera að í þeirri ráðningu er byggt á óformlegum skiptareglum stjórnarflokkanna við ráðningu embættismanna og að forusta Framsóknarflokksins telur sig vera að tryggja sér mann í áhrifastöðu. Hvort Auðun Georg - sem eflaust er hinn hæfasti maður - er framsóknarmaður skiptir ekki alveg öllu máli. Það sem skiptir máli eru í fyrsta lagi vinnubrögðin og málsmeðferðin, í öðru lagi trúverðugleiki RÚV og í þriðja lagi pólitísk dómgreind stjórnarflokkanna einkum Framsóknar. Í öllum þessum atriðum hlýtur framvindan að skoðast fráleit, svo gripið sé til tempraðs orðalags. 

Vinnubrögðin eru skólabókardæmi um vonda stjórnsýslu almennt. Eytt er miklum tíma og fyrirhöfn í að setja umsækjendur í gegnum formlegt matsferli með viðtölum, persónuleikaprófum og fleiru. Þegar formleg niðurstaða kemur úr því ferli og sýnir 5 umsækjendur hæfasta, er ferlinu í heild ýtt til hliðar og önnur sjónarmið látin ráða. Markús Örn Antonsson - öfugt við forvera sinn Jónas Þorbergsson forðum - kýs að láta undan pólitíkinni og skrifa rökstuðning sem vísar eingöngu á mikilvægi lögbundins umsagnarhlutverks útvarpsráðs. Hann stendur eins og Pílatus forðum og þvær hendur sínar og býður stjórnmálavaldinu Barrabas, úr því það vildi ekki taka mark á faglegu rökunum varðandi umsækjendur. 

Gagnvart trúverðugleika RÚV er augljóslega um skemmdarverk að ræða, því skilaboðin eru að stjórnmál skipti meiru en fagmennska og reynsla. Það út af fyrir sig er stóralvarlegt mál, því eitt af mikilvægustu hlutverkum fréttastofa RÚV er að vera fordæmi og fyrirmynd vandaðrar og faglegrar fréttamennsku. 

Loks, varðandi pólitíska dómgreind hlýtur sú spurning að vakna hvort framsóknarforustan telji að hún muni í raun og veru græða á því að fá þarna inn mann sem er þeim hliðhollur - eða í það minnsta ekki andsnúinn? Heldur formaður Framsóknarflokksins - sem gjarnan hefur kvartað undan óvilhallri fjölmiðlaumfjöllun - að þessi aðgerð muni rétta af þá slagsíðu ef hún hefur einhver verið? Það passar einfaldlega ekki manni sem hóf formannsferil sinn undir merkjum alþjóðlegrar frjálslyndisstefnu og nútímalegrar lífssýnar að ætla að grípa á lofti hugmyndir og vinnubrögð Hriflu-Jónasar sem þóttu meira að segja gamaldags í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar. 

Þessi stíll passar vitaskuld ekki heldur hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins. Mjög margir sjálfstæðismenn af frjálshyggjuskólanum hafa þó lengi haft horn í síðu fréttastofu Ríkisútvarpsins og gráta krókódílatárum yfir upplausn hennar - og ekki spillir fyrir að það er Framsóknarflokkurinn sem mun bera hinn pólitíska herkostnað af þessu gæluverkefni þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×