Innlent

Ríkið áfrýjar dómi ME

Íslenska ríkið hefur í fyrsta sinn áfrýjað dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Stjórnvöld una því ekki að hafa verið dæmd til að greiða fyrrverandi sjómanni átta milljónir króna í skaðabætur fyrir mannréttindabrot. Fyrir sléttum þremur mánuðum komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu. Brotin felast í að dómstólar landsins staðfestu að Lífeyrissjóði sjómanna væri heimilt að svipta Kjartan Ásmundsson bótum vegna slyss sem hann varð fyrir sem ungur sjómaður á grundvelli nýrra laga. Ríkið tók sér allan þann tíma sem það hefur, þrjá mánuði, til að ákveða hvort dóminum yrði áfrýjað en Skarphéðinn Þórisson ríkislögmaður sagði í samtali við fréttastofu í dag að eingöngu skaðabótaþætti málsins væri áfrýjað. Hann telur dóminn vera byggðan á röngum forsendum þar sem Kjartan hefði ekki orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. Hins vegar er langt í frá öruggt að Mannréttindadómstóllinn samþykki að taka málið til skoðunar öðru sinni og hafa sérfróðir menn í þessum efnum bent á að það sé einungis gert í málum sem hafa afgerandi mikla þýðingu, til að mynda milliríkjadeilur og annað sambærilegt. Af þessu tilefni hefur Lilja Jónasdóttir, lögmaður Kjartans, sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir: „Það kemur vissulega á óvart að íslenska ríkið skuli vísa bótaþætti málsins til yfirdeildar mannréttindadómstólsins með þessum hætti sérstaklega þar sem ólíklegt verði að telja að skilyrði mannréttindasáttmálans fyrir því að yfirdeild dómstólsins taki málið til meðferðar séu uppfyllt, en skilyrðin eru að málið veki alvarlega spurningu varðandi túlkun eða framkvæmd á sáttmálanum eða alvarleg deiluefni sem almennt er mikilvægt. Því ber hins vegar að fagna að í þessu felst vissulega viðurkenning íslenska ríkisins á því að brotið hafi verið með ólögmætum hætti gegn eignarrétti Kjartans.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×