Fastir pennar

Fórnarkostnaður kapítalismans

Meðal þess sem reikna má að gerist á árinu 2006 er að 8-9 milljónir munu deyja úr hungri. Af þessum gríðarlega fjölda verða tveir þriðju hlutar börn undir fimm ára aldri, en hungur er orsök meira en helmings dauðsfalla smábarna í heiminum. Núna búa um 840 milljónir eða sjöundi hluti mannkyns við stöðugt svelti. Meira en þriðjungur þessa hóps býr í Indlandi og Bangladesh.

Skelfilegar hungursneyðir vekja heimsathygli. Orsakir hungursneyða geta verið náttúruhamfarir af ýmsu tagi, t.d. bæði flóð og þurrkar. Einnig geta stríð leitt af sér hungursneyð. Samt sem áður eru staðbundnar hungurs­neyðir ekki meginorsök hungurs í heiminum. Innan við 10 prósent þeirra sem deyja úr hungri látast í slíkum hamförum. Almennur fæðuskortur er ekki heldur meginástæðan fyrir hungri í heiminum. Nægur matur er í heiminum til þess að tryggja hverjum einstaklingi 3500 hitaeiningar á dag. Aukin matvælaframleiðsla í löndum eins og Indlandi, Mexíkó og Filippseyjum hefur t.d. ekki dregið jafn mikið úr vannæringu í þessum löndum eins og búast hefði mátt við. Ástæðan er efnahagslegt misrétti í þessum ríkjum sem veldur því að umframframleiðslan skilar sér ekki til almennings.

Þetta er skelfilegt ástand en margir telja þó að ástandið á heimsvísu hafi skánað frá miðjum 8. áratugnum. Um þær mundir dóu 14 til 15 milljón manns úr hungri árlega. Samkvæmt tölum Alþjóðabankans hefur fólki sem býr við fátækt fækkað um 350 milljónir á þessum tíma. Samkvæmt þeim tölum hefur náðst nokkur árangur í baráttunni við hungur og fátækt. Ekki er þó allt sem sýnist í þeim efnum. Nánast allur samdrátturinn í fjölda fólks sem býr við hungurmörk hefur orðið í Kína. Ef ekki væri fyrir mikinn og stöðugan hagvöxt þar væri staðan nú svipuð á heimsvísu og hún var um 1980. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að okkur er iðulega sagt að útrýming hafta og opinberra afskipta af viðskiptum hljóti smátt og smátt að útrýma fátækt og að starf Alþjóðaviðskiptastofnuninnar (WTO) sé skref í þá átt. Stjórnvöld í Kína hafa nefnilega verið mjög afskiptasöm þegar kemur að stjórnun efnahagsmála og þó ekki síst í baráttunni við fólksfjölgun. Hefur þar verið beitt ýmsum umdeildum meðulum sem þó hafa skilað vissum árangri. Vaxandi lífslíkur jarðarbúa undanfarin 60 ár virðast stafa af svipuðum orsökum. Kína hefur átt u.þ.b. helminginn af þeirri aukningu og þá raunar fyrst og fremst áður en hagvöxtur fór vaxandi um 1980.

Í öðrum ríkjum hafa stjórnvöld hins vegar ekki brugðist við vandanum. Það er greinilegt að fjöldi hungraðra er mestur í löndum þar sem fólksfjölgun er ör, jarðnæði í eigu fámennrar yfirstéttar, menntun bágborin, heilbrigðisþjónustan léleg og tryggingakerfi ekki til. Í löndum þar sem jarðnæði hefur verið fært í hendur bænda hefur náðst betri árangur í baráttunni við hungur. Má þar taka Japan og Taiwan sem dæmi. Dæmi um hið gagnstæða er Brasilía. Þar varð aukin framleiðsla á sojabaunum fyrst og fremst til að auka útflutning en samtímis tvöfaldaðist fjöldi þeirra sem bjuggu við hungur heima fyrir. Víða er næringarskortur beinlínis vaxandi vandamál. Hungur er t.d. orðið alvarlegt vandamál í Rússlandi en var það ekki fyrir rúmum áratug. Lífskjörum almennings hefur raunar hrakað almennt í Rússlandi, en sérkennilegra er að sjá að í Bandaríkjunum skuli fjórar milljónir manns búa við hungur að mati bandaríska landbúnaðarráðuneytisins.

Og það sem meira er: Margt bendir til þess að bakslag sé komið í baráttuna við fátækt. Frá 1995 hefur hún víðast hvar farið vaxandi þótt árangur Kínverja valdi því að það kemur ekki fram í tölum sem leggja allan heiminn undir. Ein ástæðan gæti verið sú að aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og viðlíka stofnunum hefur verið veitt með skilyrðum "umbætur" í anda frjálshyggju sem hafa leitt til versnandi kjara almennings í ríkjum sem hafa hlotið slíka "aðstoð". Slíkar stofnanir verða eðlilega fyrir gagnrýni af þeim sökum en hafa ber í huga að þær framkvæma stefnu sem er mörkuð af þeim ríkisstjórnum og bönkum sem fjármagna þær. Þjóð sem vill útrýma hungri heima fyrir ætti umfram allt að varast að verða háð slíkum alþjóðastofnunum heldur vinna að umbótum heima fyrir. Sú leið sem virðist skila mestum árangri er að koma jarðnæði í hendur bænda og draga úr misrétti í eigin ranni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×