Erlent

Vaxandi spenna í Noregi

Norski Vinstriflokkurinn er nálægt því að ná fjögurra prósenta fylgi samkvæmt nýrri fylgiskönnun Aftenposten. Nái hann því marki í kosningum til Stórþingsins 12. september næstkomandi gæti það ráðið úrslitum um það hvort hægristjórn Kjell Magne Bondevik heldur velli. Vinstri, sem er frjálslyndur flokkur hægra megin við miðju, hefur aðeins tvo þingmenn. Skríði hann yfir fjögurra prósenta markið fær hann sex til sjö þingmenn. Niðurstöður nýju könnunarinnar benda til þess að vinstrabandalag Verkamannaflokksins, Sósíalíska vinstriflokksins og Miðflokksins fengi samanlagt 87 þingsæti af 165. Hægriflokkarnir þurfa því aðeins fimm þingsæti til viðbótar til að tryggja sér meirihluta þingsæta gagnvart vinstrabandalaginu. "Við venjulegar kringumstæður gætum við bætt við okkur einu prósentustigi síðustu vikuna fyrir kosningar. Ég vona að það lykilhlutverk sem við erum komin í skili okkur að því marki," segir Lars Sponheim, formaður Vinstriflokksins, í samtali við Aftenposten. Verkamannaflokkurinn og Framfaraflokkurinn tapa fylgi samkvæmt niðurstöðum nýju könnunarinnar, en stjórnarflokkarnir - Kristilegi þjóðarflokkurinn og Hægriflokkurinn - bæta við sig. Stoltenberg hamrar á þörf kjósenda fyrir styrka meirihlutastjórn. Bondevik og minnihlutastjórn hans hafa þurft að reiða sig á stuðning Framfaraflokksins. Nú andar hins vegar köldu milli Framfaraflokksins og Kristilega þjóðarflokksins, sem telur sig jafnvel eiga meiri samleið með Verkamannaflokknum en Carl I.Hagen og Framfaraflokki hans. Stoltenberg er nauðugur einn kostur að halda fast við kosningabandalag sitt við Sósíalíska vinstriflokkinn og Miðflokkinn og hefur ekki gælt við önnur stjórnarmynstur í átökum sínum við Bondevik í fjölmiðlum. Hann hefur meira að segja hafnað samstarfi við Rauðabandalagið, flokk utarlega á vinstri kantinum, nái það manni á þing. Taugaspennan eykst hins vegar dag frá degi og enn má búast við hreyfingum á fylgi flokkanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×