Fastir pennar

Staðreyndir fram í dagsljósið

Ef ríkisstjórninni er annt um álit sitt og trúverðugleika á hún að fara að tilmælum stjórnarandstöðunnar og leggja öll spil á borðið varðandi aðdraganda stuðningsyfirlýsingarinnar við innrásina í Írak í fyrravor. Á Alþingi situr Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra nú undir ásökunum um að vera tvísaga í frásögnum sínum um atburðarásina og við það verður ekki unað. Það þarf að skýra málið í smáatriðum fyrir Alþingi og þjóðinni. Sama dag og ráðist var inn í Írak, 20. mars 2003, bárust þær fréttir frá Washington, hafðar eftir blaðafulltrúa Hvíta hússins, að Ísland væri meðal þeirra ríkja sem lýst hefðu yfir stuðningi við innrásina. Þetta kom á óvart því ekkert hafði spurst út um að ríkisstjórnin hefði gert samþykkt í þessa veru né heldur að utanríkismálanefnd hefði verið kölluð saman til að ræða þessa ákvörðun eins og lög kveða á um þegar um "meiri háttar utanríkismál" er að ræða. Raunar hefði mátt vænta þveröfugrar afstöðu miðað við málflutning Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi utanríkisráðherra, sem á Alþingi boðaði á þessum tíma friðsamlega lausn Íraksdeilunnar og lagði áherslu á að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna væri samstíga í ákvörðun sinni. Þótt alþingismenn og fjölmiðlar hafi margsinnis borið fram fyrirspurnir um það með hvaða hætti ákvörðunin var tekin hafa ráðherrarnir Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, sem virðast lykilpersónur í málinu, vikið sér undan því að svara skýrt. Í Kastljósi Sjónvarpsins fyrir nokkrum dögum sagði Halldór Ásgrímsson að engin "formleg ákvörðun" um stuðning við innrásina hefði verið tekin af ríkisstjórninni. Í umræðum sem urðu á Alþingi í lok síðustu viku virtist ráðherrann vera orðinn tvísaga. Þá sagði hann að stuðningurinn við innrásina hefði verið ræddur á ríkisstjórnarfundi 18. mars 2003 og sendiráði Bandaríkjanna tilkynnt um stuðning Íslands við hernaðaraðgerðir í framhaldi af því. Felst ekki í þessum orðum að ríkisstjórnin hafi þá tekið ákvörðun um stuðning við innrásina? Var það kannski "óformleg ákvörðun"? Og hvað er "óformleg ákvörðun" þegar ríkisstjórn á í hlut? Þá kom fram í máli ráðherrans að utanríkismálanefnd hefði verið skýrt frá aðdraganda ákvörðunarinnar á fundi 21. mars, daginn eftir innrásina. Málflutningur forsætisráðherra vekur fleiri spurningar en hann svarar. Hvað var bókað í fundargerð ríkisstjórnarinnar um málið? Var málið þannig kynnt á ríkisstjórnarfundinum að öllum ráðherrunum væri ljóst að haft yrði samband við bandaríska sendiráðið og opinber stuðningsyfirlýsing gefin? Var einhver skoðanamunur innan ríkisstjórnarinnar? Og hvaða rök voru færð fram í málinu? Hvenær bárust tilmæli um þetta frá Bandaríkjastjórn og hvernig voru þau sett fram? Skjöl og gögn um öll þessi atriði þarf að opinbera. Nauðsynlegt er einnig að aflétta þeim trúnaði sem ríkir um fundinn í utanríkismálanefnd Alþingis 21. mars. Vel má vera að mörgum spurningum málsins sé svarað í fundargerðinni en þau svör - og önnur sem þar er ekki að finna - þurfa að koma fram opinberlega. Af hverju ætti ríkisstjórnin að hafna því ef hún hefur ekkert að fela?


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×