Fastir pennar

Til hvers er verið að funda?

Nú síðdegis munu deiluaðilar í kennaradeilunni hittast hjá ríkissáttasemjara. Tveimur tímum síðar er boðaður samningafundur. Margir foreldrar og aðilar þessarar kjaradeilu hafa eflaust andað léttara eftir þessar fréttir í gær. Þegar slitnaði upp úr samningaviðræðum á fimmtudaginn var annar fundur ekki boðaður fyrr en eftir tvær vikur og á meðan ekki er fundað eru litlar líkur á að semjist. Þessar fregnir bárust eftir að deiluaðilar höfðu fundað með fulltrúum ríkisstjórnarinnar sitt í hvoru lagi, skömmu áður en Ásgrímur Stefánsson ríkissáttasemjari var boðaður á fund. Það voru mjög undarlegar yfirlýsingarnar sem komu í kjölfar þessara funda. Þó að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, Geir H. Haarde fjármálaráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hafi setið þessa fundi, sagði Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambandsins, eftir fundinn að ekkert útspil hafi komið frá ráðherrunum til lausnar deilunni. Einungis kom fram að Halldór hefði lýst því yfir að ótækt væri að funda ekki í tvær vikur. Það er að sjálfsögðu bagalegt ef pattstaðan er slík milli kennara og launanefndar sveitarfélaganna að ríkissáttasemjari sjái enga ástæðu til að funda á næstunni. En þó að fundir séu forsenda þess að þetta verkfall leysist, er það ekki nægjanleg forsenda. Það er einnig bagalegt fyrir alla aðila að mæta reglulega upp í Karphús til að standa fastir á sínu ef engin lausn er í sjónmáli. Ef þetta var það eina sem ríkisstjórnin hafði að segja, var þá nauðsynlegt að funda? Það virðist fátt sem ríkisstjórnin geti aðhafst, fyrst hún ætlar ekki að koma sveitastjórnum til bjargar með auknu fjárframlagi, nema fengið fólk til að funda sem virðist ekki hafa neitt til að tala um. Það sem ég undrast er ekki ráðaleysi ríkisstjórnarinnar og hvað hún aðhefst lítið. Það er mun undarlegra að hafa ekkert heyrt frá sveitarstjórnarmönnum, nema í mýflugumynd. Kristján Þór Júlíusson, sem reytti marga kennara til reiði áður en verkfallið hófst, hefur sagt að ógjörningur sé að verða við kröfum kennara. Stefán Jón Hafstein vill að fólk semji, en hann hefur ekki sagt um hvað eigi að semja. Það er vitað að sveitafélögin hafa mismunandi burði til að semja við kennara. Stór sveitafélög eiga að geta borgað kennurunum betur en þau litlu. Á meðan þau eru öll að semja sem eitt verða þau því að finna einhverja leið til þess að koma til móts við minni sveitafélögin, til dæmis með jöfnunarsjóði sveitafélaganna. Stærð þeirra á því ekki að vera afsökun fyrir samningsleysi. Vonandi hafa kennarar og sveitafélög um eitthvað að ræða næstu dagana til að hægt sé að leysa úr minni vandkvæðum svo sem þeim hvernig úthlutað er úr jöfnunarsjóði.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×