Erlent

Einkageimflaug komst út í geim

Einkaframtakið náði nýjum hæðum í dag þegar geimflaug í einkaeign komst í yfir hundrað kílómetra hæð og þar með út í geim. Þetta er stórt skref fyrir mannkynið - í það minnsta þann hluta þess sem hefur efni á að kaupa sér far með svona flaug. SpaceShipOne heitir farið sem hóf sig á loft í Mojave-eyðimörkinni í Kaliforníu í morgun á leið út í geim. Þetta er í annað skipti á tveimur vikum sem SpaceShipOne fer hærra en hundrað kílómetra frá jörðu, þ.e.a.s. út í geim. Það er jafnframt fyrsta einkageimskipið. Nokkur þúsund geimfíklar og vísindamenn fylgdust spenntir með því þegar Brian Binnie, sem áður flaug orrustuflugvélum í tilraunaskyni, stýrði skipinu upp í himinhvolfin og niður aftur. Þegar farið lenti fengu hönnuðir þess og bakhjarlar tíu milljóna dollara verðlaun en SpaceShipOne var fyrsta skipið í Ansari X Prize-keppninni sem uppfyllti öll skilyrði, þ.e. að komast út í geim með áhöfn og til baka tvisvar sinnum innan tveggja vikna. Verðlaunaféð skiptir líklega meginbakhjarlinn, Paul Allen Microsoft-milljarðamæring, litlu enda hefur hann lagt um tuttugu milljónir í verkefnið. Annar auðjöfur fylgdist spenntur með en það var Richard Branson sem hefur stofnað flugfélagið Virgin Galactic. Það hyggst bjóða geimferðir í fari eins og SpaceShipOne frá og með árinu 2007. Miðinn kostar litlar fjórtán milljónir króna. Á myndinni sést Brian Binnie, eigandi geimflaugarinnar, fagna afrekinu á þaki hennar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×