Erlent

Áhersla á þátttöku kvenna

Ein af forsendunum fyrir því að forsetakosningarnar í Afganistan á laugardag gangi upp er að konur nýti kosningarétt sinn. Í landi þar sem konur hafa notið takmarkaðra réttinda og þar sem hvort tveggja ráðamenn og óþekktir íhaldsmenn reyna að koma í veg fyrir að þær kjósi er það hægara sagt en gert. Fjöldi kvenna hefur þó gefið sig fram. "Ég er ánægð að geta gert eitthvað fyrir land mitt," sagði Maimana Tarek sem var á námskeiði fyrir kosningastarfsmenn. "Margar óttast þó að eitthvað gerist, að eldflaugum verði skotið á okkur eða sprengjum komið fyrir." Átak er í gangi að þjálfa starfsfólk til vinnu á kjörstöðum. Þar sem karlar og konur fá ekki að kjósa í sömu kjördeildum þarf að þjálfa karlmenn til starfa í kjördeildum þar sem karlar kjósa og konur í kjördeildir kvenna. Sums staðar fást ekki nógu margar konur til starfa, ekki síst vegna þess að konur sæta hótunum fyrir það eitt að ætla að taka þátt í kosningunum. Þar sem ekki fást nógu margar konur til starfa eiga klerkar og öldungar að starfa í kjördeildum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×