Erlent

Skammaður fyrir björgunarleiðangur

Farsakennt, hryggilegt, hættulegt. Þetta eru nokkur þeirra orða sem jafnt samherjar sem andstæðingar franska þingmannsins Didier Julia nota um síðasta uppátæki hans, för hans til Miðausturlanda á eigin vegum til að bjarga tveimur Frökkum sem og sýrlenskum bílstjóra þeirra sem öllum er haldið í gíslingu í Írak. Didier Julia er samherji Jacques Chirac Frakklandsforseta á franska þinginu en er þekktur fyrir að vilja fara sínu fram. Nú þykir hins vegar mörgum sem hann hafi gengið of langt. Julia ákvað að gera sitt til að frelsa gíslana sem hafa nú verið hálfan annan mánuð í haldi íraskra vígamanna. Hann tók sig til og hélt til Damaskus, höfuðborgar Sýrlands, upp á eigin spýtur, naut reyndar til þess aðstoðar Laurent Gbagbo, forseta Fílabeinsstrandarinnar, sem útvegaði honum flugvél sem flutti hann til Miðausturlanda. Julia sagðist telja að sambönd sín í Miðausturlöndum gætu nýst við að frelsa frönsku blaðamennina Christian Chesnot og Georges Malbrunot úr haldi. Enn sem komið er hafa tilraunir hans ekki borið árangur og ekki gert annað en að valda fjaðrafoki. Á föstudag tilkynnti Julia fréttamönnum að vígamenn hefðu samþykkt að sleppa gíslunum úr haldi og að þeir hefðu verið á leið til Sýrlands í bílalest þar til Bandaríkjamenn klúðruðu málum. Þingmaðurinn sagði að bandarískir hermenn hefðu skotið á bílalestina með gíslunum og þá hefðu vígamenn hætt við allt. Ekki leggja allir trúnað við þetta enda hjálpar ekki til að helsta samstarfsmanni hans, Philippe Brett, er lýst sem hraðlygnum náunga með skrautlegan feril að baki. Hann sagðist á föstudag hafa gíslana í augnsýn og vera að semja um lausn þeirra. Síðan hefur ekkert heyrst frá honum annað en að hann er kominn til Damaskus, en án gíslanna. Samherjar Julia vanda honum ekki kveðjurnar. Yves Censi, talsmaður UMP, flokks Julia, sagði tiltæki hans aumkunarvert og að því yrði best lýst sem farsa ef það væri ekki til þess fallið að gera stöðu gíslanna enn hættulegri. Sósíalistinn Laurent Fabius, fyrrum forsætisráðherra, sagði gjörðir Julia grátlegar og stórhættulegar. Julia fór frá Miðausturlöndum í gær, áleiðis til Parísar þar sem hann á að taka sæti á þingi í dag. Gíslarnir eru þó eftir sem áður í haldi vígamanna, líkt og áður en Julia lét til sín taka.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×