Fastir pennar

Þátttaka í þjóðfélagsumræðu

Ég heiti því að taka mig á. Þýðir ekki að skrifa hérna á mánaðarfresti. Ég hef samt aldrei talið aðsóknina hingað inn á vefinn - veit þó að hún var þónokkur í eina tíð. Kunningi minn spurði í tölvupósti um daginn hvort ég væri "gufaður upp"? Ég svaraði að þjóðfélagsumræðan mætti eiga sig fram á haustið - enda væri núna "the Silly Season", allavega ef marka mætti marka fréttir um prump og annað merkilegt í sjónvarpinu. "Skeytingarleysi þitt um þjóðfélagsumræðuna er ískyggilegt!" svaraði hann. --- --- --- Á sunnudagskvöldið var Reykjavík orðin eins og hún verður í vetur, Ekki hræða á gangi. Bara bílalestin sem silaðist niður Laugaveginn. Ítalskir ferðamenn sem snæddu á veitingahúsi konu minnar spurðu: "Where is the Center?" Og þegar þeim var tjáð að þeir væru einmitt staddir þar, spurðu þeir: "But where are all the people?" Miðbærinn í Reykjavík minnir á sumardvalarstað þaðan sem allir fara á haustin. Annars er þetta búið að vera fínt. Svona hlýindi voru aldrei í æsku minni - þá var alltaf einhver smá kuldahrollur í loftinu. Ég var í sveit vestur í Dölum 1969. Að girða upp á fjalli. Það var slagveðursrigning á hverjum degi. Sumurin þrjú síðan Kári fæddist hafa verið falleg og blíð. Sakna þess að heyra ekki Sigurð Guðjónsson, stundum nefndan Truntusól, tjá sig um veðrið. Enginn gerir það af viðlíka yfirsýn og tilfinningu og hann. Óskir sem Siggi setti fram um betra veður handa Íslendingum í sjónvarpsþætti hjá mér fyrir fimmtán árum hafa líka ræst. --- --- --- Við vorum í uppsveitum Árnessýslu þegar hitabylgjan gekk yfir. Á Laugarvatni var svo heitt að við lögðumst í skuggann undir tré. Klukkan tvö um nótt var 24 stiga hiti á Flúðum. Sandarnir upp við Heklu voru þurrir eins og Sahara. Ég fór í morguntíðir að gregoríönskum hætti í Skálholti með nokkrum hópi fólks - þar á meðal gamla biskupi, Sigurbirni. Skálholt er virðulegur og góður staður og mikil menningarstarfsemi þar á vegum kirkjunnar. Meira að segja hægt að fá að éta að hætti Þorláks helga. Þarna stóð yfir organistamót, mættir kirkjuorganistar frá öllu landinu, hljóðfærasláttur í hverju horni. Annars er landslag á þessu svæði að breytast með afgerandi hætti. Það eru komin aspartré sem vaxa þráðbein meðfram vegum og í beinni línu eftir hæðardrögum. Skrítið að sjá þetta. Algjörlega óíslenskt. Eins og maður sé kominn til Suður-Skandinavíu. Ég helst eiginlega ekki við í Reykjavík. Eins og böndin sem tengdu mig þessari borg séu alveg að detta í sundur. --- --- --- Var svo lentur í þætti um Ólympíuleikana hjá Loga Bergmann. Hafði lítið að segja um íþróttaviðburðina - handboltann og sundfólk. Reyndi að mæra Grikkland eins og ég gat. Var meira að segja búinn að draga fram kvæðið eftir Gíorgos Seferis sem var flutt á opnunarhátíðinni, þegar kentárinn skaut ör í átt að höfðinu stóra sem hékk í strengjum í loftinu. Það heitir Goðsaga, þýtt af Sigurði A. - skýrir að nokkru leyti það sem bar fyrir augu á þessari miklu hátíð: "Ég vaknaði með þetta marmarahöfuð í höndunum, það örmagnar mig í olnbogunum og ég veit ekki hvar á að leggja það. Það datt inní drauminn þegar ég kom útúr draumnum, svo örlög okkar fléttuðust og verða vart greidd sundur aftur." Náði svo ekki að segja nema til hálfs söguna af Spiridon Louis, fjárhirðinum sem sigraði í fyrsta maraþonhlaupi Ólympíuleika nútímans, árið 1896 - klæddur fullum skrúða grísks smala. Að launum fyrir sigurinn fékk hann geit, asnakerru, landskika og smá lífeyri. Sagt er að hann hafi drukkið vín til að svala þorsta sínum á leiðinni. Hann hljóp á 2.58.50 - heilum sex mínútum á undan næsta manni. Þetta hefur verið mikill íþróttamaður. Tíminn er svaka góður. Maraþonhlaupararnir núna hlaupa inn á sama leikvang og þá, hinn tilkomumikla Panathinaiko, sem er allur byggður úr marmara og eins og stórt U í laginu - í stíl fornaldar. Fjórum árum síðar, á leikunum í París, setti maraþonhlaupið aðeins ofan. Þá kom fyrstur í mark bakarasveinn sem síðar kom í ljós að hafði stytt sér leið í gegnum hús og garða í borginni. Grikkir hafa verið daprir yfir spretthlaupurunum Kenteris og Thanou sem mættu ekki í lyfjapróf. Ég sé ekki betur en að augun í þeim standi á stilkum - rétt eins og augun voru að springa út úr hausnum á Ben Johnson á sinni tíð. Ég hef áður stungið upp á því að haldnir verði sérstakir Ólympíuleikar fyrir dópaða liðið - þar getur það sett sín ógurlegu heimsmet í boði alþjóðlegra lyfjafyrirtækja. Það hlýtur að taka dálítið á að vera í hitanum í Aþenu. Ég las að fínasta fólkið gisti á Mykonos og færi svo í þyrlum í bæinn. Allir þyrlupallar upppantaðir fyrir löngu. --- --- --- Páfinn var í Lourdes um helgina. Ég kom þangað fyrir nokkrum árum. Skynjaði afskaplega lítið af helgi staðarins, heldur fannst mér lágkúran blasa við alls staðar - eins og væri verið að narrast að fólki. Keypti penna með guðsmóður syndandi inni í hylkinu og dós af piparmyntum - líka með mynd af guðsmóður. Alls staðar búðir að selja svona draslvarning. Þetta var afar óaðlaðandi, eins og að horfa á óæðri endann á kaþólskunni. Kaþólsk trú hefur alltaf sótt mikinn styrk í fáfræði og hindurvitni. Það hefur verið tíska á Íslandi að tala illa um lúterstrú eins og við stundum hana hér. En hún er miklu geðslegri siður. Vantar bara myndirnar. --- --- --- Leiðarar Morgunblaðsins verða stöðugt óútreiknanlegri. Í forystugreininni í gær var fjallað um krankleika Davíðs Oddssonar. Sagði þar að "gildismat fólks" breyttist frammi fyrir slíkum veikindum. Spurning hvað Mogginn hefur fyrir sér í því? Eigum við von á nýjum Davíð Oddssyni? Og fannst Morgunblaðinu eitthvað að þeim gamla? --- --- --- DV var með úttekt á sjónvarpsfólki um helgina. Ég skoðaði ekki blaðið fyrr en því var troðið framan í mig. Óttalega er eitthvað beiskt að halda því fram að Gísli Marteinn sé versti sjónvarpsmaðurinn. --- --- --- Las þetta á Málverjavefnum áðan, eftir höfund sem kallar sig Gamli sorrí Gráni. Satt að segja svolítið fyndið, Framsókn er ekki fisjað saman: "Forystukona kvennauppreisnar Framsóknar sem merkilegt nokk er einnig aðstoðarkona Sivjar Friðleifsdóttur sagði eitthvað á þessa leið í hádegisfréttum útvarps: "Auðvitað snýr þetta mál að Siv Friðleifsdóttur en einnig að öðrum konum í þingflokki Framsóknar sem eru FULLBURÐA til að vera ráðherrar". FULLBURÐA!? Mikið þykir okkur vænt um það hér í sveitinni þegar notuð er svona húsdýraterminólógía yfir þingmenn."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×