Innlent

Orkuveitan losar sig við Línu.net

Og Vodafone og Orkuveita Reykjavíkur hafa undirritað viljayfirlýsingu um að félögin eigi samstarf um ljósleiðaravæðingu heimila og fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt viljayfirlýsingunni á Og Vodafone að einbeita sér að markaðssetningu, vöruþróun og þjónustu við viðskiptavini, meðan Orkuveitan einbeitir sér að rekstri og uppbyggingu ljósleiðaranetsins. Stefnt er að því að Orkuveitan starfi á heildsölusviði en Og Vodafone á sviði smásölu. Samstarfið felur í sér að Og Vodafone eignast hlut Orkuveitunnar í Línu. neti og Orkuveitan tekur yfir ljósleiðaralagnir Og Vodafone. Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitunnar, segir þetta áframhald á samstarfi sem fyrirtækin hafa átt í allt frá því að Íslandssími var stofnaður. Með þessu sé Orkuveitan ekki að keppa um viðskiptavini í smásölu og haldi sig við heildsöluna. Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fagnar því að Orkuveitan sé búin að losa sig við Línu.net. "Ódýrast hefði verið fyrir borgarbúa hefði það verið gert fyrr," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×