Viðskipti innlent

FME skoðar kvartanir vegna Dróma

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Umboðsmaður skuldara sendi fyrr á þessu ári kvörtun til Fjármálaeftirlitsins vegna fimmtán viðskiptavina Dróma, sem stofnaður var utan um rekstur SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans. Kvartanir fjölluðu um endurútreikninga gengislána, 110% leiðina og ábyrgðarskuldbindingar.

Umboðsmaður skuldara sendi Fjármálaeftirlitinu erindi hinn 24. febrúar 2012 vegna kvartana frá viðskiptavinum dróma. FME sendi svo umboðsmanni bréf hinn 30. apríl þar sem óskað var eftir nákvæmari útskýringum á ýmsum þáttum. Hinn 16. júlí 2012 svaraði umboðsmaður því bréfi og útlistaði efni kvartana nánar.

Um var að ræða 15. mál. Kvartanir sem bárust umboðsmanni skuldara voru þó töluvert fleiri, samkvæmt upplýsingum fréttastofunnar, en margir vildu ekki að mál þeirra yrðu nafngreind þar sem þeir voru að semja við Dróma hf. og höfðu áhyggjur af því að nafngreining gæti haft áhrif á samningaviðræður.

Helstu efnisatriði kvartana vörðuðu endurútreikninga gengislána, 110 prósenta leiðina og ábyrgðarskuldbindingar. Þá kom fram í bréfi umboðsmanns skuldara hversu erfitt var að semja við Dróma og fá svör frá þeim. Margir kvörtuðu jafnframt um að þeir fengju ekki nauðsynleg gögn og að svör frá Dróma væru óskýrt. Þá fengist engin afstaða til fyrirspurna.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er málið til umfjöllunar hjá Fjármálaeftirltinu og á niðurstaða að liggja fyrir fljótlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×