Innlent

Ellefu milljarðar í nýjar tekjur og laun fryst í eitt ár

Alls verður skorið niður um 32 milljarða króna á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem lagt verður fram á næstu dögum. Alls verður aflað nýrra tekna fyrir 11 milljarða króna.

Þetta er mun betri staða en gert var ráð fyrir í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar. Þar var reiknað með að stoppa þyrfti í 50 milljarða gat, en betri staða ríkissjóðs gerir það að verkum að það gat verður 43 milljarðar króna.

Ráðuneytin hafa unnið að tillögum um niðurskurð og tekjuaukningu og skila tillögum til fjármálaráðuneytisins í dag. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er gert ráð fyrir 5 prósenta niðurskurði í velferðarmálum en 10 prósentum í öðrum málaflokkum.

Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hafa séð frumdrög að fjárlögunum og hafa ekki gert við þau stórvægilegar athugasemdir. Bætt staða ríkissjóðs gerir það að verkum að hægt er að slaka á þeim viðmiðum sem gerð voru og er það gert með samþykki sjóðsins.

Athygli sjóðsins hefur frekar beinst að Evrópu, þar sem hvert ríkið á fætur öðru glímir nú við fjárhagsvanda.

Hallarekstur á fjárlögum 2009 nam 12 prósentum og ef ekkert verður að gert er ljóst að það stefnir í 15 prósenta halla á næsta ári. Óljóst er hver hallinn verður, en allt útlit er fyrir að hann verði svipaður og í Frakklandi, en þar er hann um 9 prósent. Á Írlandi er 14 prósenta halli, 13 prósent í Bretlandi og 12,3 á Grikklandi.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verða laun opinberra starfsmanna fryst í eitt ár, en reiknað er með að það spari fimm milljarða króna. Ekkert hefur verið ákveðið um lengri tíma, en Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra ræddi í vikunni um frystingu í þrjú ár. Það er ekki í bígerð, samkvæmt heimildum blaðsins.

Stjórnvöld hafa átt fundi með opinberum starfsmönnum um fjárhagsvandann, en launafrystingin er þó ekki gerð í beinu samráði við þá.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×