Leikurinn var jafn og æsispennandi, en þrettán sinnum skiptust liðin á að hafa forystu og ellefu sinnum var jafnt. Á endanum hafði Golden State sigur í framlengdum leik, 108-100.
Bæði lið fengu tækifæri til að vinna leikinn í venjulegum leiktíma. Kyrie Irving, leikstjórnandi, Cleveland, varði sniðskot kollega síns og besta leikmanns deildarinnar, Stephen Curry, ótrúlega þegar lítið var eftir.
Irving ver skotið frá Curry:
Cleveland fór í sókn þar sem LeBron James át niður klukkuna áður en hann reyndi skot með Andre Igoudala í andlitinu. Sá frábæri varnarmaður gerði nógu vel til að LeBron klikkaði og framlenging staðreynd.
Í henni var Golden State-liðið betra, en þar munaði mikið um að Kyrie Irving fór af velli meiddur eftir 48 mínútur og gat ekki spilað framlenginguna. Hann hefur átt í vandræðum með hnéð á sér og er óvíst hvað verður um hann.
LeBron James gerði allt hvað hann gat til að draga sína menn að landi, en hann skoraði 44 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Irving skoraði 23 stig, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.
LeBron skorar 44 stig:
David Blatt, þjálfari Cleveland, notaði bekkinn ekki mikið, en aðeins átta leikmenn liðsins komu við sögu í nótt. Cleveland fékk ekki nema níu stig af bekknum og þau komu öll frá J.R. Smith.
Stephen Curry var stigahæstur Golden State með 26 stig auk þess sem hann gaf 8 stoðsendingar, en Klay Thompson, sem jafnaði sig af heilahristingi fyrir úrslitaeinvígið, skoraði 21 stig.
Liðin mætast næst á sunnudagskvöldið, en bein útsending á Stöð 2 Sport hefst klukkan 23.00.