Innlent

Starf lögreglumanna verði metið að verðleikum

Stjórn Landssambands lögreglumanna harmar þá stöðu sem er í kjaraviðræðum lögreglumanna við ríkisvaldið. Í ályktun sem stjórnin samþykkti á dögunum segir að nú sé svo komið að lögreglumenn hafi verið með lausa kjarasamninga frá því 31. maí 2009 og eru viðræður um nýjan kjarasamning inni á borði Ríkissáttasemjara.

„Stjórn LL er fullljóst það ástand sem við blasir í efnahagsmálum þjóðarinnar og sú þrönga staða sem ríkisfjármálin eru í. Því er þó rétt að halda til haga hér að lögreglumenn fengu á sig gríðarlegar launalækkanir „korteri" fyrir gerð kjarasamninga s.l. sumar, sem unnir voru undir merkjum „Stöðugleikasáttmála". Ríkisvaldinu mátti því vera það ljóst að þeir samningar, sem þá voru gerðir fengju dræmar undirtektir félagsmanna LL enda var það raunin að samningarnir voru felldir af yfir 90% félagsmanna LL," segir einnig.

Þá er bent á að lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt, eru með auknar skyldur er kemur að yfirvinnu og viðveru á vinnustað eftir ákvörðun forstöðumanna stofnana „auk þess að vera ofurseldir miklum skerðingum á sínum frítíma er kemur t.d. að bakvöktum, sbr. nýlega genginn dóm Félagsdóms þar um."

Þá geta lögreglumenn ekki ráðið sig til annarra launaðra starfa í sínum frítíma, líkt og aðrir þegnar þessa þjóðfélags, nema með sérstöku og skriflegu leyfi sinna yfirmanna.

„Af fréttum undanfarinna vikna er það ljóst að þær stéttir sem hafa verkfallsrétt og hóta að beita honum njóta forgangs er kemur að frágangi kjarasamninga á meðan lögreglumenn sitja á hakanum. Verkfallsréttur virðist því vera orðin forsenda fyrir því að stéttarfélög fá gerða við sig ásættanlega kjarasamninga," segir einnig.

Því krefjast lögreglumenn þess að þær takmarkanir sem þeim eru settar með sinn frítíma og auknar skyldur verði metið að fullu til launa og að auki sú ábyrgð, hæfni og áhætta sem starf lögreglumanns krefst. Þetta á að mati lögreglumanna að endurspeglast í launakjörum lögreglumanna „en þannig er því aldeilis ekki farið í dag."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×