Innlent

Neyðarkall frá lögreglumanni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglumaðurinn kallar eftir bættum aðbúnaði lögreglumanni. Rétt er að taka það fram á lögreglumaðurinn á myndinni tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Mynd/ Anton.
Lögreglumaðurinn kallar eftir bættum aðbúnaði lögreglumanni. Rétt er að taka það fram á lögreglumaðurinn á myndinni tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Mynd/ Anton.
Lögreglumönnum er stefnt í hættu vegna fámennis í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Í sumum tilfellum eru þeir einir á bílum, jafnvel á næturvöktum um helgar. Þetta kemur fram í bréfi sem fréttastofa Vísis og Stöðvar 2 fékk sent í gærkvöld frá manni sem segist vera lögreglumaður. Maðurinn segist ekki koma fram undir nafni af ótta við yfirstjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir að efni tölvupóstsins eigi aftur á móti erindi inn á heimili landsmanna þar sem þeir eigi rétt á að vita hvernig komið sé fyrir löggæslu á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn segir að lögreglubifreiðar á vegum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu séu 5-7, en auk þess hafi deildin yfir nokkrum hjólum að ráða. Stundum sé einn bíll til staðar frá lögreglunni og jafnvel tveir.

Maðurinn segir að þetta hafi valdið vandamálum. Nefnir hann nýleg dæmi, yfirstandandi innbrot í Mosfellsbæ þar sem næsta lögreglubifreið hafi verið á Sæbraut. Slagsmál í Lindahverfi Kópavogs þar sem næsta lausa lögreglubifreið hafi verið í 101 Reykjavík. Lögreglubifreið úr Hafnarfirði sé sífellt í Breiðholtinu til að aðstoða Kópavogsbifreið og er Hafnarfjörður jafnan óvarinn á meðan.



Lögreglumönnum stefnt í hættu


„Við þessu var brugðist með því að setja lögreglumenn eina á bíl. Eitthvað sem að mati lögreglumanna er hættulegt. Lögreglumenn hafa jafnvel verið einir á bifreiðum á næturvöktum um helgar. Vegna sífelldra niðurskurða er svo komið að þessi aðgerð hefur mistekist og núna eru færri lögreglumenn á færri lögreglubifreiðum en áður," segir í tölvupósti mannsins.

Maðurinn segir að ein helsta vörnin fyrir því að hægt hafi verið að setja lögreglumenn eina í lögreglubifreiðar hefur verið hinn svokallaði Eye-witness búnaður. Þetta sé upptökubúnaðurinn sem taki upp það sem fram fari fyrir utan lögreglubifreiðina sem innan. Búnaðurinn notist við DVD diska til að vista gögnin. Sökum fjármagnsskorts hafi embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu ekki keypt tóma diska í einhvern tíma og séu því ekki til diskar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu núna.

„Kom því upp það sorglega tilfelli nú um helgina að eftirförin á eftir Yaris bifreiðinni er að mestum hluta byggð á frásögn eins lögreglumanns. Um er að ræða þann hluta eftirfararinnar sem átti sér stað í Breiðholti, á göngustígum og í Elliðaárdal þar sem fólki var stefnt í lífshættu. Lögreglumaður þeirrar lögreglubifreiðar (273) var einn í bifreiðinni og var slökkt á upptökubúnaði þar sem ekki var til tómur diskur fyrir hann.



Lögreglubifreiðar varla nothæfar


Næsta lögreglubifreið inn í eftirförina var lögreglubifreið 228 sem er 2006 árgerð af Volvo, tvöfaldur viðgerður tjónabíll sem ekinn er á fjórða hundrað þúsund kílómetra. Til stóð að sú bifreið yrði ekki lengur notuð við hefðbundið eftirlit og í útköll almennu deildar og var því Eye-witness búnaður fjarlægður úr henni 2008.

Hafnarfjarðarbifreið 281 varð fyrir vélarbilun í Mosfellsbæ. Mun það ekki vera óalgengt með þá bifreið. Í raun er eina ástæðan fyrir því að einhver hluti af eftirförinni náðist á myndband sú að sérsveit RLS var stödd með tvær bifreiðar á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma og gat því aðstoðað við eftirförina og var það þeim að þakka að ekki fór verr," segir í bréfi mannsins.

Þá segir maðurinn að hægt væri að víkja að því hvernig eða öllu frekar hvort löggæslu hafi verið háttað á höfuðborgarsvæðinu meðan þetta fór fram. Yfirstjórn LRH myndi líklega verja þetta með þeim orðum að um væri að ræða undantekningartilfelli en staðreyndin sé sú að þessum undantekningartilfellum fari ört fjölgandi. Þeim fari fjölgandi útköllum eða verkefnum sem lögreglan sinni alls ekki. Þessi fáliðun og niðurskurður hafi valdið því að viðbragðstími lögreglu sé langt frá því að vera viðunandi og hafi verið þannig í langan tíma. Skemmst sé að minnast ránsins á Seltjarnarnesi. Húsvörður LRH, eldri maður, sem ekki hafi sinnt lögreglustörfum í fjölda fjölda ára sé til að mynda kominn á lögreglubifreið og farinn að sinna útköllum.



Afbrotamenn sleppa oftar


„Ekki er hægt að nefna nein dæmi um að þetta hafi valdið líkams- eða eignatjóni, einfaldlega vegna þess að ekki er hægt að benda á slíkt með beinum hætti. Þá er klárt að afbrotamenn sleppa mun oftar en áður, vegna þess að lögreglan er lengi á vettvang, ef hún yfirhöfuð kemst þangað. Fáliðunin teygir sig upp úr almennu deild lögreglunnar í rannsóknardeildir sem nýlega urðu fyrir miklum breytingum, að flestra mati til hins verra, þar sem meðal annars forvarnadeild lögreglu var lögð niður. Þar eru dæmi um að einstakir rannsóknarlögreglumenn séu með um 100 mál til rannsóknar. Þeir eru sem betur fer ekki margir en málunum hjá þeim sem eru „bara" með 30-40 mál fer fjölgandi. Er það vegna fjölgunar afbrota, niðurskurðar á vinnutíma, fækkunar starfsmanna, álags í starfi og ömurlegra starfsskilyrða.

Yfirstjórn LRH státar sig af því að verja starfsmenn sína en það mun aðeins vera á yfirborðinu. Þeir veigra sér nú við því að ráða starfsmenn til lengri tíma og gætu þannig verið að undirbúa niðurskurð á starfskrafti um áramótin. Þar eru nokkrir starfsmenn sem eru með tímabundna ráðningu. Þar er jafnvel dæmi um að tímabundin ráðning stangist á við starfsmannalög en starfsmenn geta ekkert gert þar sem þeir hafa aðeins um tvo kosti að ræða, sætta sig við stuttar ráðningar eða missa vinnuna. Þannig er mönnum haldið í gíslingu og látnir sætta sig við afarkosti. Sumir eiga jafnvel erfitt með að taka sumarfrí," segir maðurinn í bréfi sínu.













Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×