Um­fjöllun: Höttur - Tinda­­stóll 87-82 | Ó­trú­legur loka­kafli tryggði sæti í úr­slita­keppninni

Pétur Guðmundsson skrifar
Höttur er komið í úrslitakeppni Subway-deildar karla í körfubolta.
Höttur er komið í úrslitakeppni Subway-deildar karla í körfubolta. Vísir/Hulda Margrét

Höttur vann gríðarlega mikilvægan sigur á Íslandsmeisturum Tindastóls í næstsíðustu umferð Subway-deildar karla í körfubolta. Það stefndi allt í sigur gestanna en ótrúlegur 4. leikhluti tryggði Hetti sigurinn sem tryggir sæti í úrslitakeppni í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Liðin voru jöfn með 10 sigra og 10 töp í 7. og 8. sæti fyrir leik dagsins. Takist Stjörnunni að leggja Grindavík að velli gætum við fengið æsispennandi lokaumferð sem sker úr um hvaða lið slefar inn í úrslitakeppnina og hvaða lið situr eftir með sárt ennið. 

Leikur dagsins fór hægt af stað og liðin fóru sér hægt í stigaskorun. Stólarnir byrjuðu betur og voru skrefi á undan, staðan 6-15 um miðjan fyrsta Leikhluta. Virtust Hattarmenn ekki geta keypt sér körfu framan af. Þegar fyrsta leikhluta var lokið var staðan 13-18 og Tindastóll með mun betri nýtingu ásamt því að virðast hafa minna fyrir sóknarleiknum en heimamenn.

Höttur náði að stilla sig af eftir smá taugatitring í byrjun

Í öðrum leikhluta var svipað upp á teningnum, það er að segja Tindastólsmenn alltaf skrefi á undan. Stigskorið dreifðist vel hjá þeim og voru sjö leikmenn komnir á blað snemma í öðrum leikhluta. Driffjöðrin í sóknarleik þeirra var Þórir Guðmundur Þorbjarnarson. Náðu gestirnir mest upp 16 stiga mun í stöðunni 20-36.

Þórir fékk hins vegar sína þriðju villu um miðjan leikhluta og þurfti á bekkinn. Höttur gekk í kjölarið á lagið og saxaði niður forskotið fyrir hálfleik, staðan þá 30-38.

Eftir hálfleiksræðuna voru það Hattarmenn sem komu beittari til leiks og það var Gustav Suhr-Jessen sem hóf áhlaupið. Hann setti fyrstu fimm stig leikhlutans og allt í einu bara þriggja stiga munur á liðunum.

Jafn leikur og mómentið með heimamönnum. Höttur komst yfir í fyrsta skipti í leiknum í stöðunni 46-44, þegar 16 mínútur til leiksloka. Liðin skiptust á að skora og var staðan jöfn á síðustu mínútu leikhlutans en þá settu David Geks og Pétur Rúnar Birgisson niður stór hetjuskot og Tindastóll var með yfirhöndina fyrir fjórða leikhluta, staðan 59-64.

Tindastóll hélt áfram að ganga á lagið og náði mest 12 stiga forystu í fjórða leikhluta. Á þessum kafla voru það Þórir og Ragnar Ágústsson sem drifu liðið áfram meðan Drungilas og Kayshawn Woods sátu hjá. Voru hlutirnir farnir að líta ansi vel út fyrir Stólana. 

En Hattarmenn voru ekki hættir og héldu sig við sitt, að þétta vörnina og saxa á forskotið hægt og örugglega. Þar voru það þeir Obie Trotter og Nemanja Knezevic sem fóru fyrir sínum mönnum. Um miðjan leikhlutan var staðan 69-75 og Stólarnir farnir að þreyttast meðan heimamenn voru hvattir ákaft áfram af troðfullu húsi áhorfenda. 

Þrátt fyrir að lykilmenn Stólana hafi fengið hvíld á stórum köflum þá voru það Hattarmenn sem voru sterkari á lokasprettinum og settu niður öll spennu vítin meðan Stólarnir gerðu klaufamistök eins og að fá á sig sóknarvillur, henda boltanum út af og brutu óíþróttamannslega. Lokatölur 87-82 og með sigri tókst Hetti að tryggja sig í úrslitakeppnina í fyrsta skipti í sögu félagsins

Fyrir lokaleikhlutan var Obie Trotter með 6 stig og ekki enn þá búin að setja skot utan af velli meðan Nemanja var að verða undir í baráttuni við Drungilas. Nemanja var kominn með 2 stig og búin að taka 6 fráköst. Í loka leikhlutanum var Obie með 9 stig, endaði einn af tíu af gólfinu en 12 af 12 af línunni. Nemanja var með 12 stig og 6 fráköst og endaði með laglega tvennu 14 stig og 12 fráköst.

Hjá Tindastól var það Callum Lawson sem var bestur í jöfnu liði. Endaði með 16 stig og 10 fráköst.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira