Viðskipti innlent

Stefnir í umtalsverða verðhækkun á internetþjónustu

BBI skrifar
Sævar Freyr, forstjóri Símans.
Sævar Freyr, forstjóri Símans. Mynd/Arnþór
Farice ehf. hefur boðað næstum þrefalda verðhækkun á þjónustu sinni, en fyrirtækið heldur úti tveimur af þremur sæstrengjum sem tengja Ísland við umheiminn. Núgildandi samningur fyrirtækisins við Símann og Vodafone rennur út í október. Eftir þann tíma fer fyrirtækið fram á téða verðhækkun.

„Til að við getum boðið upp á internetþjónustu hér á Íslandi þá þurfum við á þessum strengjum að halda," segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans. „Nú er ágreiningur milli okkar og Farice ehf. um verðlagningu."

Umræður hafa staðið yfir síðan í janúar og enn hefur ekki náðst samkomulag. Ef þessi boðaða verðhækkun Farice nær fram að ganga mun það hafa í för með sér umtalsverða hækkun á verðlagningu á internetþjónustu á Íslandi.

„Það eru viðræður í gangi. En við erum að skoða alla aðra valkosti sem geta boðist, þar með talið að koma á öðrum samböndum," segir Sævar. Hann býst við að niðurstaða úr viðræðum við Farice muni liggja fyrir í sumar.

Um er að ræða tvo sæstrengi. Þar fyrir utan liggja til landsins tveir aðrir strengir. Annars vegar gamall sæstrengur, nefndur Cantat-3, en flutningsgeta hans er lítil miðað við hina og hins vegar Greenland-connect strengurinn.

Mbl.is birti í dag frétt um að Farice ehf. hefði sagt upp samningnum frá og með október í ár.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×