Fleiri fréttir

Neysla jókst í Bandaríkjunum

Neysla jókst um 0,8 prósent í júlí og hefur aukningin ekki verið jafn mikil á árinu. Greiningaraðilar segja vöxt neyslunnar bera merki um hægari lendingu á efnahagslífinu en óttast hafði verið. Verðbólga er hins vegar vandamál, að mati viðskiptaráðuneytis Bandaríkjanna.

Óbreyttir stýrivextir á evrusvæðinu

Evrópski seðlabankinn ákvað að loknum vaxtaákvörðunarfundi sínum í dag að halda stýrivöxtum á evrusvæðinu óbreyttum í þremur prósentum. Greiningaraðilar telja líkur á að bankinn hækki vextina hins vegar í október.

Minni verðbólga á evrusvæðinu

Verðbólga mældist 2,3 prósent á evrusvæðinu í þessum mánuði sem er 0,1 prósenti minna en mældist í síðasta mánuði, samkvæmt útreikningum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins (ESB). Greiningaraðilar segja þetta þrýsta á um að evrópski seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum.

Olía hækkar í verði

Hráolíuverð hækkaði lítillega á helstu mörkuðum vegna ótta við hugsanlegan samdrátt í olíuframleiðslu Írana. Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) gáfu Írönum frest fram til dagsins í dag til að hætta auðgun úrans og er að margra mati útlit fyrir að SÞ grípi til refsiaðgerða gegn Írönum.

Hagvöxtur vestra undir væntingum

Hagvöxtur jókst um 2,9 prósent á öðrum ársfjórðungi í Bandaríkjunum. Þótt vöxturinn sé hraður er hann engu að síður undir væntingum. Margir telja að stýrivextir verði ekki hækkaðir vestra í næsta mánuði.

Verðmiði kominn á Windows Vista

Bandaríska netverslunin Amazon.com verðleggur Windows Vista, nýjasta stýrikerfi hugbúnaðarrisans Microsoft, á allt frá 399 til 199 bandaríkjadölum, jafnvirði tæplega 30.000 króna. Verðmiði hefur ekki áður verið á stýrikerfinu sem ekki enn er komið út en búast má við að stýrikerfið verði nokkuð dýrara komið hingað til lands með álögðum kostnaði.

Svíar hækka stýrivexti

Riksbank, Seðlabanki Svíþjóðar, hækkaði stýrivexti sína um 25 punkta í dag og standa vextir bankans í 2,5 prósentum. Í rökstuðningi bankastjórnarinnar segir að hagvöxtur í Svíþjóð hafi vaxið umfram væntingar og sé verðbólga meiri en búast hafi verið við.

Olíuverð hækkaði lítillega

Olíuverð hækkaði lítillega á helstu mörkuðum í dag og fór yfir 70 bandaríkjadali á tunnu á ný eftir snarpar lækkanir síðustu tvo daga. Vikulegar upplýsingar um olíubirgðir í Bandaríkjunum verða birtar í dag og bíða fjárfestar eftir þeim.

Hráolíuverð undir 70 dölum

Olíuverð fór niður fyrir 70 dala markið á helstu fjármálamörkuðum í dag í kjölfar þess að ljóst þykir að hitabeltisstormurinn Ernesto fer framhjá olíuborpöllum við Mexíkóflóa. Þetta er annar dagurinn í röð sem olíuverð lækkar.

Atvinnuleysi minnkar í Japan

Atvinnuleysi dróst saman um 0,1 prósentustig í Japan í júlí. Það mælist nú 4,1 prósent og spá greiningaraðilar áframhaldandi efnahagsbata í landinu. Atvinnuleysi í Japan hefur minnkað jafnt og þétt 15 mánuði í röð.

Olíuverð lækkar frekar

Heimsmarkaðsverð lækkaði um 2 bandaríkjadali og fór niður fyrir 71 dal á helstu mörkuðum í dag í kjölfar fregna þess efnis að hitabeltisstormurinn Ernesto, sem nú nálgast suðurströnd Bandaríkjanna, fari framhjá olíuborpöllum við Mexíkóflóa.

Kaupa mexíkóskt tekílafyrirtæki

Bandaríska áfengisfyrirtækið Brown-Forman, sem meðal annars framleiðir Jack Daniel's viskíið og líkjöra á borð við Southern Comfort, greindi frá því í dag að það hefði keypt mexíkóska tekílaframleiðandann Grupo Industrial Herradura fyrir 876 milljónir dala, jafnvirði rúmra 61,3 milljarða íslenskra króna.

Amazon.com kaupir eigin bréf

Stjórn bandarísku netverslunarinnar Amazon.com hefur gefið heimild fyrir því að kaupa aftur eigin bréf í félaginu fyrir hálfan milljarða bandaríkjadala, jafnvirði 35 milljarða íslenskra króna, á næstu tveimur árum.

Hlutabréf lækkuðu í Evrópu

Gengi hlutabréfa lækkaði lítillega á evrópskum hlutabréfamörkuðum í dag þrátt fyrir lækkun á olíuverði en lækkunin hafði áhrif á gengi olíufélaga. Þá lækkaði gengi bandaríkjadals sömuleiðis gagnvart evru. Þá lækkaði gengi Banca Intesa og Sanpaolo IMI, sem munu renna saman í einn, um tæp 2 prósent.

Hlutabréf lækkuðu í Japan

Gengi hlutabréfa lækkaði um rúmt prósent í kauphöllinni í Tókýó í Japan í dag. Þetta er fjórða lækkunin á jafn mörgum dögum og hefur hlutabréfavísitalan ekki verið lægri í landinu í hálfan mánuð.

Olíuverð niður um rúman dal

Hráolíuverð lækkaði um rúman bandaríkjadal á helstu mörkuðum í dag í kjölfar þess að fellibylurinn Ernesto, sem er yfir karabíska hafinu, var lækkaður niður í hitabeltisstorm. Olíufyrirtæki hafa engu að síður sent starfsmenn sína á brott frá olíuborpöllum við Mexíkóflóa í varúðarskyni.

Risasamruni á Ítalíu

Hluthafar ítölsku bankanna Banca Intesa og Sanpaolo hafa samþykkt samruna tveggja af stærstu bönkum landsins. Með samrunanum verður til stærsti banki Ítalíu og 10. stærsti banki í Evrópu með markaðsvirði uppá 55 milljarða evrur, jafnvirði rúmlega 4.900 milljarða íslenskra króna.

Olíuverð hækkaði um rúman dal

Heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði um rúman Bandaríkjadal á helstu mörkuðum í dag vegna hættu á að hitabeltisstormar á Karabíska hafinu geti spillt fyrir olíuframleiðslu við Mexíkóflóa og óttast fjárfesta við að Íranar muni draga úr útflutningi á olíu verði viðskiptabann sett á landið vegna kjarnorkuáætlunar stjórnvalda.

Ryanair gegn breska ríkinu

Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair ætlar að höfða mál gegn breska ríkinu og krefjast 3,3 milljóna punda, jafnvirði 438 milljóna íslenskra króna, í skaðabætur vegna tafa á flugleiðum og óþæginda fyrir farþega vegna hertra flugöryggisreglna sem koma á í veg fyrir hryðjuverk í flugvélum.

Tilboð lagt fram í HoF

Fjárfestahópur, sem meðal annars er skipaður Baugi og FL Group, hefur lagt fram yfirtökutilboð í House of Fraser, eina þekktustu verslunarkeðju Bretlands fyrir 60 milljarða. Baugur og FL taka samanlagt helmingshlut.

Uppfærð hagvaxtarspá fyrir Þýskaland

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) hefur uppfært hagvaxtarspá sína fyrir Þýskaland. IMF spáði 1,3 prósenta hagvexti í landinu á þessu ári en býst nú við 2 prósenta hagvexti á árinu.

Óvænt uppsögn hjá McDonald's

Mike Roberts, einn af æðstu stjórnendum skyndibitakeðjunnar McDonald's, sagði upp störfum í gær. Uppsögnin kemur talsvert á óvart en gert var ráð fyrir að Roberts yrði næsti forstjóri keðjunnar.

Olíuverð lækkaði um rúman dal

Hráolíuverð lækkaði talsvert síðla dags í kjölfar þess að vikulegar upplýsingar bandaríska orkumálaráðuneytisins benda til að umframbirgðir af olíu hafi aukist á milli vikna. Þá lækkaði olíuverðið fyrr í dag vegna vilja stjórnvalda í Íran til að hefja formlegar viðræður við Sameinuðu þjóðirnar um kjarnorkuáætlun sína.

Olíuverð lækkar vegna viðbragða Írana

Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði lítillega á helstu mörkuðum í dag í kjölfar frétta þess efnis að stjórnvöld í Íran væru reiðubúin til viðræðna um kjarnorkuáætlun sína. Íranar eiga yfir höfði sér viðskiptabann hætti þeir ekki auðgun úrans fyrir ágústlok.

Góð afkoma hjá Nestlé

Svissneski matvælaframleiðandinn Nestlé sklaði rúmum 4,1 milljarði svissneskra franka, jafnvirði tæpra 239 milljarða íslenskra króna, í hagnað á fyrstu sex mánuðum ársins. Aukningin nemur 11,4 prósentum sem er í takt við væntingar greiningaraðila.

Oftast kvartað yfir Ryanair

Neytendasamtökum Evrópu bárust tæplega 400 kvartanir vegna írskra flugfélaga á fyrstu sex mánuðum ársins. Flestar kvartanir bárust frá farþegum sem flugu með lággjaldaflugfélaginu Ryanair en 133 farþegar fundu eitt og annað að starfsemi þess.

Góður hagnaður Wembleysmiða

Hagnaður ástralska verktaka­fyrirtækisins Multiplex nam 216,8 milljónum ástralskra dala, jafnvirði 11,5 milljarða íslenskra króna, á fyrri helmingi árs. Um er að ræða tvöföldun á hagnaði á milli ára.

Ofmátu afkomu Bang & Olufsen

Hagnaður danska raftækjaframleiðandans Bang & Olufsen nam 431 milljón danskra króna eða jafnvirði rúmra 5,2 milljarða íslenskra króna fyrir skatta á síðasta ári. Danska dagblaðið Börsen segir hagnaðinn nítján milljónum dönskum krónum, eða rétt rúmum 230 milljónum íslenskum krónum, minni en greiningaraðilar höfðu spáð. Afkoman er í takt við væntingar fyrirtækisins.

Ferðalangur stóðst ekki læknisskoðun

Japanski kaupsýslumaðurinn Daisuke Enomoto, sem keypti sér farmiða í vor með rússneska geimfarinu Soyuz og stefndi að því að verða fjórði einstaklingurinn til að dvelja í tíu daga í alþjóðlegu geimstöðinni, stóðst ekki læknisskoðun um helgina og fær þar af leiðandi ekki að uppfylla draum sinn.

Lífeyrissjóðirnir bættir vestra

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, undirritaði ný lög í Hvíta húsinu í Washington í Bandaríkjunum á fimmtudag í síðustu viku sem eiga að skikka bandarísk fyrirtæki til að tryggja lífeyrisgreiðslur til starfsmanna sinna.

Álrisi í fæðingu?

Stjórnendur rússneska álfyrirtækisins Sual neita fréttum þess efnis að fyrirtækið ætli að sameinast keppinaut sínum og samlanda, Rusal í október. Ef af samruna fyrirtækjanna verður mun bandaríski álrisinn Alcoa, sem nú um stundir er stærsti álframleiðandi í heimi, verða sá næststærsti á eftir sameinuðu fyrirtæki Sual og Rusal.

Þjóðverjar svartsýnir

Væntingavísitalan í Þýskalandi féll um 20,7 punkta frá júlí og mælist mínus 5,6 stig í þessum mánuði. Vísitalan hefur ekki verið lægri í fimm ár og benda niðurstöðurnar til að Þjóðverjar séu svartsýnni nú en áður um horfur í efnahagsmálum.

Ánægður með hagvöxt í Frakklandi

Hagvöxtur í Frakklandi jókst um 1,1 prósent í júní. Landsframleiðsa jókst um 0,5 prósent á fyrsta ársfjórðungi og er búist við að framleiðslan aukist um 1,9 prósent á árinu. Thierry Breton, fjármálaráðherra landsins, er hæstánægður með aukninguna, sem er sú mesta í 20 ár.

Olíuverð hækkaði um dal

Hráolíuverð hækkað að jafnaði um einn bandaríkjadal á helstu mörkuðum í dag. Helsta ástæðan er sögð vera tilraunaskot Írana með skammdræga eldflaug á laugardag.

Methækkun á evrusvæðinu

Landsframleiðsla jókst um 0,7 prósent á öðrum ársfjórðungi innan aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Þetta er 0,3 prósentustigum minni hækkun en á fyrsta ársfjórðungi 2006, samkvæmt bráðabirgðaútreikningum OECD. Landsframleiðsla á evrusvæðinu hefur ekki verið meiri í sex ár.

Verðbólga lækkar á evrusvæðinu

Verðbólga á evrusvæðinu mældist 2,4 prósent í júlímánuði, sem er 0,1 prósentustiga lækkun frá fyrri mánuði. Hagfræðingar segja lækkunina þó líklega ekki koma í veg fyrir að evrópski seðlabankinn hækki stýrivexti í október.

Afkoma Sears yfir væntingum

Eignarhaldsfélagið Sears Holding, sem rekur þriðju stærstu smávörukeðju Bandaríkjanna, hagnaðist um 294 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 20,3 milljarða íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi. Þetta er 83 prósenta aukning á milli ára og langt umfram væntingar fjármálasérfræðinga.

Indverjar bora eftir olíu í Afríku

Stjórnvöld á Indlandi hafa hug á að verja sem nemur 1 milljarði bandaríkjadala eða rúmum 69 milljörðum íslenskra króna í olíuleit-, vinnslu og námagröft á Fílabeinsströndinni á vesturströnd Afríku á næstu fimm árum.

Snörp lækkun á olíuverði

Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði fjórða daginn í röð í fyrstu viðskiptum dagsins á helstu fjármálamörkuðum og hefur verðið ekki verið lægra í tæpa tvo mánuði.

Sjá næstu 50 fréttir