Erlent

Dæmt í máli Katalóníuforseta undir lok mánaðar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Quim Torra, forseti Katalóníuhéraðs.
Quim Torra, forseti Katalóníuhéraðs. vísir/getty
Hæstiréttur Katalóníu kveður upp dóm sinn í máli hins opinbera gegn Quim Torra, forseta héraðsstjórnar Katalóníu, dagana 25. og 26. september. Forsetinn er sakaður um að hafa ekki fjarlægt stuðningsyfirlýsingar við útlæga og ákærða katalónsku sjálfstæðissinna af opinberum byggingum í síðustu kosningabaráttu þótt kjörstjórn hafi farið fram á það. Katalónski héraðsmiðillinn ACN greindi frá þessu.

Saksóknaraembættið krefst þess að Torra verði settur í tuttugu mánaða langt bann frá því að gegna kjörnu embætti. Hann verði sömuleiðis sektaður um þrjátíu þúsund evrur. Ef dómstóllinn felst á kröfuna þýðir það því að Torra verður rekinn úr embætti.

Héraðsforsetinn undrast tímasetninguna og sagði það áhugavert hversu hraða meðferð málið hefur fengið. Dómskerfið sé einungis í hægagangi þegar nauðsyn krefur, sagði forsetinn og vísaði þar til þess að hæstiréttur Spánar var að mati sjálfstæðissinna of lengi að hefja málsmeðferð í máli sem enn stendur yfir gegn leiðtogum katalónsku sjálfstæðishreyfingarinnar.

Torra hefur raunar þegar viðurkennt sekt í málinu. „Já, ég óhlýðnaðist. Vegna þess að ég stend í skuld við æðra umboð. Að standa vörð um mannréttindi,“ sagði hann þann 15. maí við meðferð málsins.


Tengdar fréttir

Katalónar hrífast af íslensku leiðinni

Alfred Bosch, utanríkisráðherra Katalóníu, ræðir við Fréttablaðið um réttarhöld yfir leiðtogum katalónsku sjálfstæðishreyfingarinnar, stöðuna í Katalóníu og hvernig Katalónar geti lært af Íslendingum.

Óreiða og usli er Katalónarnir mættu

Fimm katalónskir sjálfstæðissinnar sem hafa verið ákærðir fyrir uppreisn og setið í gæsluvarðhaldi í meira en ár mættu sem nýir þingmenn á spænska þingið í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×