Neytendur

Dæmi um kol­ranga á­ætlun Skattsins

Bjarki Sigurðsson skrifar
Runólfur Ólafsson er framkvæmdastjóri FÍB.
Runólfur Ólafsson er framkvæmdastjóri FÍB. Vísir/Arnar

Framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) segir mikilvægt að fólk skrái kílómetrastöðu ökutækja áður en fresturinn rennur út á morgun. Þá gæti verið sniðugt að fara yfir hvort skráningin sé alveg örugglega rétt. 

Síðasti skráningardagur kílómetrastöðu er á morgun. Fyrsti gjalddagi nýs kílómetragjalds er 1. febrúar og byggist upphæðin á reiknuðum meðalakstri út frá síðustu tveimur skráningum á kílómetrastöðu.

„Við ráðleggjum fólki að skrá. Í einhverjum tilvikum er fólk með bíl sem fór í aðalskoðun seint á síðasta ári, það sleppur kannski betur. En flestir sem eru ekki með neina skráningu, kannski með nýlega bíla, þá er gott að skrá núna og svo aftur eftir mánuð. Þá er komin einhver viðmiðunartala, því annars áætlar skatturinn einhverja notkun,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB. 

Borgar sig að yfirfara gögnin

Dæmi eru um að áætlunin sé langt frá raunkeyrslu, svo það gæti borgað sig að fara yfir þá tölu sem Skatturinn áætlaði. Greiði fólk of mikið fær það endurgreitt síðar og öfugt greiði það of lítið.

„Við þekkjum þetta varðandi notkun á rafmagni og hita á heimilum. Þá eru viðmiðunartölur varðandi notkun. Þannig það er betra að skrá oftar en sjaldnar,“ segir Runólfur. 

Eldra fólk stundum í brasi

Þingið var lengi að afgreiða kílómetragjaldið og segir Runólfur margt við innleiðingu þess ekki hafa gengið nægilega vel.

„Að hluta til eru kerfin ekki alveg undirbúin fyrir þessar breytingar. Þetta er gríðarleg breyting á skattaumhverfi ökutækja. Þetta krefst víðtækrar kynningar. Sem dæmi höfum við hjá FÍB þurft að setja upp aukatölvu og aðstoða fólk við að skrá. Sérstaklega eldri borgarar eru óöruggir með Ísland.is og netið. Rafræn skilríki og svona. Þetta eru hlutir sem þarf að ganga frá. Fólk hefur getað fengið hjálp með því að fara á skoðunarstöðvar en það kostar. Fólk borgar fyrir skráninguna þar,“ segir Runólfur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×