Atvinnulíf

Að byrja að vinna á ný í sorg

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það getur falist viss hjálp í því að byrja að vinna eftir fráfall ástvinar. En ýmiss góð ráð er þó gott að hafa í huga þegar byrjað er að vinna á ný, en í sorg.
Það getur falist viss hjálp í því að byrja að vinna eftir fráfall ástvinar. En ýmiss góð ráð er þó gott að hafa í huga þegar byrjað er að vinna á ný, en í sorg. Vísir/Getty

Síðustu vikurnar hefur Atvinnulífið fjallað um ýmiss áföll í vinnu. Allt frá uppsögnum yfir í að samstarfsfélagi eða við sjálf greinumst með krabbamein.

Eins hversu mikilvægt það er að fólk hljóti áfallahjálp þegar það starfar við mjög erfiðar aðstæður. Til dæmis viðbragðsaðilar.

Í dag ætlum við hins vegar að rýna í nokkur góð ráð sem geta gagnast þegar fólk mætir aftur til vinnu en er í sorg eftir ástvinamissi. 

Í grein sem birt var í Harvard Business Review eru ýmiss atriði nefnd.

Til dæmis að sumt fólk upplifi sig stundum svolítið einangrað þegar það mætir aftur til vinnu. Ekki vegna sorgarinnar sjálfrar heldur vegna þess að sumt samstarfsfólk veit ekki alveg hvernig það á að bregðast við, vera eða hegða sér. Svo margt er allt í einu öðruvísi og þess vegna er einfaldlega ágætt að gera ráð fyrir því.

Hér eru nokkur góð ráð sem nefnd eru sérstaklega.

1. Skrýtið – undrandi - hissa

Eitt af því sem fólki er bent á að búa sig undir er að stuðningur getur komið úr óvæntustu áttum. En jafnvel ekki komið úr þeim áttum sem þú hefðir búist við. Fólk í sorg getur því einfaldlega stundum orðið svolítið hissa, eða undrandi á því sem ýmist gerist eða gerist ekki.

Annað sem er gott að búa sig undir er að samstarfsfólk á mis auðvelt með að vita hvernig það á að bregðast við sjálft.  Sumir bera til dæmis upp samúðarkveðjur fyrir framan aðra og gera það strax, öðrum finnst betra að gera það í einrúmi, sumir spyrja hvernig þér líður á meðan aðrir vilja forvitnast um hvað gerðist, sumir segja aldrei neitt. 

2. Að stýra ferðinni sjálf

Það hvað við gerum, hvernig við gerum það, hvað við segjum eða veljum að deila með öðrum er undir okkur sjálfum komið. Sem þýðir að þótt fólk spyrji okkur spurninga, er ekki þar með sagt að spurningunni þurfi að vera svarað. Stundum getum við einfaldlega sagt að við séum ekki tilbúin til að ræða það. Eða að beina umræðunni frá og í annað.

Þessu tengt er líka ágætt að vera undir það búin að í nokkra mánuði geta ólíklegustu hlutir, orð eða atvik triggerað okkur. Jafnvel þegar síst skyldi. 

Ágætis ráð er sagt vera að ákveða svolítið fyrirfram hvernig við viljum þá bregðast við. Sumir velja til dæmis að upplýsa fólk. Segja eitthvað eins og Afsakið, ég er einfaldlega enn frekar meyr eftir fráfall xxxx …. Á meðan öðrum finnst betra að segja minna og draga sig frekar í hlé.

Markmiðið með þessu er að reyna að koma í veg fyrir að okkur líði illa eftir einhver samskipti eða atvik og það gerum við best með því að leyfa okkur að stýra ferðinni sjálf.

3. Að velja fulltrúa

Enn eitt góða ráðið er að velja fulltrúa á vinnustaðnum sem við treystum til að upplýsa aðra. Þetta getur verið traustur vinur eða yfirmaður, einhver sem okkur finnst gott að ræða við um sorgina okkar og líðan. 

Það sem þetta getur hjálpað okkur með er að biðja um aðstoð frá samstarfsfólki. Til dæmis aðstoð við það að draga úr áreiti, passa upp á að við séum ekki að hitta of marga viðskiptavini fyrst um sinn, bókuð á marga fundi eða viðburði. 

Í stað þess að við séum að ræða málin við alla, getum við rætt málin við fulltrúann okkar, sem síðan ræðir við samstarfshópinn.

4. Orkan þín og afköst

Sorg tekur frá okkur orku. Það munu því koma dagar þar sem þú nærð að afkasta miklu og gera mikið. En aðrir dagar þar sem þér finnst þú eiginlega ekki hafa orku til að gera neitt.

Þetta er eðlilegt og mikilvægt að við séum meðvituð um að í vinnunni þurfum við líka svigrúm til að syrgja. 

Fyrir suma geta öndunaræfingar hjálpað eða hugleiðslur. Öndunaræfingar eru til dæmis dæmi um eitthvað sem getur hjálpað okkur að gefa okkur smá svigrúm og taka okkur hlé frá vinnu vegna þess að sorgin þarf að komast að, án þess að þessi stund taki of langan tíma. Því það getur verið allur gangur á því hvort okkur finnist við þurfa eitt augnablik fyrir sorgina okkar eða lengri tíma. Enginn er eins og ekkert eitt er réttari leið en önnur.

5. Næðisrými, hlé

Næstu mánuði munu koma augnablik þar sem tárin spretta fram eða við finnum að við verðum meyr. Þá er gott að vera búinn að ákveða hvar okkar næðisrými er.

Greinahöfundur Harvard Business Review nefnir bílinn sinn sem sitt næðisrými. Þegar viðkomandi var í vinnunni og fann allt í einu þörf til að gráta, fór viðkomandi einfaldlega út í bíl. Þar var hann með bréfþurrkur, púða, vatn og  lítið box með uppáhalds saltkaramellunum. Því ef næðisrýmið okkar er svolítið kósí, getur það gert okkur auðveldari um vik að jafna okkur. Í greininni er fólki reyndar ráðlagt að vera með bréfþurrkur á sér fyrstu mánuðina í sorginni. 

Enn eitt atriðið sem fólki er bent á er að þótt við séum vel fær um að standa okkar pligt í vinnunni, upplifa sumir sig svolítið utan við sig á stundum. Jafnvel eins og minnið sé stundum að stríða okkur. Allt er þetta þó eðlilegt og eitthvað sem jafnar sig. 

Að byrja að vinna á ný í sorg getur nefnilega falið í sér heilmikla hjálp.  Í viðtali sem birt var í Atvinnulífinu fyrir nokkrum árum, segir stjórnarformaður Sorgarmiðstöðvarinnar meðal annars:

Okkar tilfinning er að fólk vill fara fljótt til vinnu, það er ákveðin hvíld í því. 

En svo geta koma erfiðir dagar inn á milli og þá er gott að hafa svigrúmið. 


Tengdar fréttir

Sorg á vinnustöðum: „Ég kveið fyrir því að byrja að vinna“

„Mjög margir tala um að þeir hafi snúið of fljótt til vinnu eftir andlát ástvinar og sjá eftir því. Fólk talar um að það hefði viljað gefa sér meiri tíma,“ segir Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir stjórnarformaður Sorgarmiðstöðvarinnar.

„Starfsfólkið sem eftir er vegnar oft verr andlega heldur en fólkinu sem hættir“

„Rannsóknir sýna að starfsfólkið sem eftir er vegnar oft verr andlega heldur en fólkinu sem hætti störfum í kjölfar uppsagnar,“ segir Hilja Guðmundsdóttir ráðgjafi hjá Mental ráðgjöf og sérfræðingur í mannauðsstjórnun. Og er þar að vísa í það sem getur gerst á vinnustað, eftir hópuppsagnir.

Sorg á vinnustöðum: Auðvelt að gera mistök

„Það skiptir öllu máli að vinnustaðurinn láti mann finna að sorgin og söknuðurinn sem maður er að fara í gegnum sé viðurkenndur, svigrúm veitt til að syrgja en á sama tíma séu skilaboðin skýr um að maður skipti máli sem starfsmaður og að þeir vilji mann aftur. Þetta er algjört lykilatriði í skilaboðum vinnuveitenda til þess sem missir náinn ástvin," segir Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir stjórnarformaður Sorgarmiðstöðvarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×