Viðskipti innlent

Við­kvæm staða í björgunar­að­gerðum Play Europe

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Kröfuhafar reyna nú að bjarga Play Europe á Möltu. Vonast er til að staðan skýrist innan nokkurra vikna.
Kröfuhafar reyna nú að bjarga Play Europe á Möltu. Vonast er til að staðan skýrist innan nokkurra vikna. Vísir

Skuldabréfaeigendur í Play keppast nú við að bjarga dótturfélagi flugfélagsins á Möltu með því að ná samningum á ný við flugvélaleigusala svo starfsemin geti haldið þar áfram. Í upptöku  af starfsmannafundi dótturfélagsins á Möltu sem fréttastofu hefur undir höndum kemur fram að leigusalarnir hafi kippt að sér höndum við fall Play á Íslandi og staðan sé flókin.

Samkvæmt heimildum fréttastofu vinna nú kröfuhafar hörðum höndum að því halda starfsemi Play Europe áfram á Möltu en félagið var dótturfélag Play á Íslandi.

Björgunaðgerðir eru í gangi

Play Europe fékk flugrekstrarleyfi á Möltu í vor og þar starfa 18 manns á skrifstofu en um sextiu manns hafa verið í áhöfnum félagsins.   Samkvæmt heimildum fréttastofu var barist fram á síðustu stundu við að halda lífinu í Play hér á landi og var það mikið reiðarslag að það hafi ekki tekist. Nú séu í gangi björgunaraðgerðir til að halda maltneska flugfélaginu í rekstri. Starfsemin þar snýr að því að leigja út áhafnir og vélar í ýmis verkefni. Nú sé fyrst og fremst unnið að því að endurnýja leigusamninga við flugvélaleigusalann AerCap um leigu á fjórum til sex flugvélum sem voru áður í rekstri. Vonast er til að þeir samningar náist á næstu vikum svo Play á Möltu geti hafið starfsemi aftur.

Fjárfestarnir sem nú eru kröfuhafar keyptu 2,8 milljarða skuldabréf í Play í ágúst sem átti að tryggja rekstur Play á Íslandi. Þeir fengu meðal annars tryggingar á efndum á bréfunum í formi veðs í öllu hlutafé dótturfélaga, Fly Play Europe og Play í Litháen,

Stjórnendur stappa stálinu í starfsfólk á Möltu

Fréttastofa hefur fengið senda upptöku af starfsmannafundi Play Europe á Möltu sem var haldinn í gær. Þar er starfsfólk fullvissað um að starfsemin haldi áfram. Fundurinn fór fram á ensku en hér er þýðing þar sem Carmen Cuschieri, yfirmaður flugþjóna hjá Fly Play Europe reynir að stappa stálinu í starfsfólk varðandi framhaldið.

„Flyplay Europe er algjörlega aðskilið Play á Íslandi. Svo þó að hinu íslenska sé lokað þýðir það ekki að Flyplay Europe sé lokað. Staðreyndin er að við munum reyna að færa vélarnar hraðar yfir í okkar rekstur, það fer þó eftir ýmsu.“

Þá kemur fram síðar:

„Í okkar flugmálum köllum við þá leigusala. Við héldum að þetta yrði auðvelt, en þegar fréttirnar fóru allt út í gær stöðvuðu leigusalar okkur í að halda rekstri áfram. Sum ykkar voru á leið til Damansk og flugin voru felld niður, en við erum að vinna í því. Við gerum ráð fyrir að fá vélarnar aftur innan þriggja, í allra mesta lagi fimm daga. Ef ekki allar, þá líklega átta.“

Ekki raunhæft að samningar náist á nokkrum dögum

Í kjölfar fundarins með starfsfólki á Möltu í gær sendu stjórnendur þar út tölvupóst til starfsmanna sem fréttastofa hefur undir höndum. Þar kemur m.a. fram að staðan sé mun alvarlegri og flóknari en gefið hafi verið í skyn. Allar fullyrðingar um endurræsingu félagsins á Möltu innan nokkurra daga eigi sér ekki stoð í rekstrarlegum staðreyndum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er frekar horft til þess að það taki nokkrar vikur að ná samningum við flugvélaleigusalann AerCap í stað fáeinna daga.


Tengdar fréttir

Hætti korteri eftir peppfund með Möltufólkinu

Halldór Guðfinnsson, flugrekstrarstjóri Play og maltneska dótturfélagsins, fékk uppsagnarbréf hvað íslenska félagið varðar afhent fimmtán mínútum eftir starfsmannafund maltneska félagsins og sagði í kjölfarið upp störfum á Möltu. Á fundinum sagði hann að hann væri einn tveggja starfsmanna félagsins á Íslandi sem héldi vinnunni og hann væri viss um að starfsemin á Möltu væri fjármögnuð.

Isavia gefur strandaglópum engin grið

Strandaglópar sem komast ekki til landsins vegna falls Play og eru með bíla sína á bílastæði Isavia við Keflavíkurflugvöll þurfa að greiða fyrir viðbótardaga í stæðunum.

Hvetur stjórnvöld til að veita ferðaskrifstofum lán eins og í Covid

Sigurður Kolbeinsson, forstjóri Kólumbus ævintýraferða og Ferðaskrifstofu eldri borgara, hvetur stjórnvöld til að fara sömu leið og í Covid og lána ferðaskrifstofum pening svo þau geti greitt fyrir tap vegna gjaldþrots Play. Minni fyrirtæki sérstaklega geti farið illa út úr gjaldþroti Play.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×