Atvinnulíf

Finns­son fjöl­skyldan: „Það var samt eitt­hvað svo fal­legt við þetta“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það er oft hlegið þegar ævintýralegt líf Finnsson fjölskyldunnar er rifjað upp; Hjónanna Óskars Finnssonar og Maríu Hjaltadóttur og barnanna: Klöru, Guðfinn og Finns. En það er líka grátið og oft finnum við hjartað herpast saman. Ást og kærleikur skín í gegn í helgarspjallinu við Finnsson fjölskylduna.
Það er oft hlegið þegar ævintýralegt líf Finnsson fjölskyldunnar er rifjað upp; Hjónanna Óskars Finnssonar og Maríu Hjaltadóttur og barnanna: Klöru, Guðfinn og Finns. En það er líka grátið og oft finnum við hjartað herpast saman. Ást og kærleikur skín í gegn í helgarspjallinu við Finnsson fjölskylduna. Vísir/Anton Brink

Það er svo margt dæmigert íslenskt í sögu Finnsson fjölskyldunnar; Ein með öllu samsetningin, flott AA feðgin, allir kunna að vinna rosa mikið. Allir samt búnir að læra að lífið er alls konar og ekkert undan því komist að svo sé.

En það er líka svo margt óvenjulegt; þvílíkt ævintýralíf! England á þensluárunum. Sundlaug og geggjað hús í Barcelona. Vá hvað sagan þeirra er skemmtileg og oft í miklum ljóma!

„Finnur fékk það til dæmis í gegn að ganga í breskan einkaskóla,“ segir Óskar Finnsson og hlær þegar hann rifjar upp einkaskóla yngri sonarins í Barcelona, þar sem margir nemendur voru með lífverði og einkabílstjóra!

Svo oft munum við skella upp úr í spjallinu við Finnsson fjölskylduna. Enda svo margt í sögunni þeirra sem rifjar upp alls kyns minningar úr samtímasögunni okkar; oft svo broslegar þegar horft er til baka.

En við munum líka gráta.

Og finna hvernig hjartað herpist saman.

„Þetta var eitthvað svo óraunverulegt,“ segir Klara Óskarsdóttir sem dæmi. Og tárin renna niður kinnarnar þegar hún rifjar upp hádegið á afmælisdaginn hennar, 17. janúar árið 2020, þegar Óskar og María Hjaltadóttir eiginkona hans, boðuðu börnin sín þrjú til fjölskyldufundar.

Þar sem þeim var tilkynnt að Óskar væri með ólæknandi fjórða stigs Glioblastoma heilaæxli.

Og ætti aðeins nokkra mánuði ólifaða.

Klara grætur. 

Og Finni brestur orð. Enda yngstur.

Guðfinnur er elstur. Vill sýna mömmu og pabba að hann er stór og sterkur og alltaf til staðar. 

En verður samt svo lítill í sér og meyr þegar fundurinn er rifjaður upp.

„Það var samt eitthvað svo fallegt við þetta,“ segir hann svo.

Og lýsir því hvernig fjölskyldan grét saman í faðmlögum þar sem þau öll héldu í hvort annað svo þéttingsfast.

Sem þau gera reyndar enn.

Þvílíkt ævintýralíf! Efri: Hús fjölskyldunnar í Guildford og mynd af Óskari og Maríu á heilsusetrinu sem þau stofnuðu þar með enskum dreifingaraðilum. Neðri; Sæt systkinamynd frá Barcelona; Finnur, Guffi og Klara og mynd frá ströndinni þegar Finnsson fjölskyldan bjó þar.

Ást í lopapeysu

Það kemur fljótt í ljós að María er frábær sögumaður. Enda ekki annað hægt en að skella upp úr þegar hún segir frá fyrstu kynnum hennar og Óskars.

Hann fæddur á Seyðisfirði árið 1967. Hún í Reykjavík árið 1963, þá þegar með einn fjögurra ára gutta.

„Ég var ein með öllu,“ segir hún og hlær.

Þegar hjónin kynntust, var María sölustjóri hjá Álafossi. Síðar lærði hún hárgreiðslu og hefur svo sannarlega tekið virkan þátt í öllu sem kemur að veitingarekstri fjölskyldunnar.

Gleðibankaárið 1986 snerist hins vegar allt um að selja útlendingunum lopapeysur.

„Ég var því stödd á Seyðisfirði til að ná þeim áður en þeir færu í Norrænu,“ útskýrir hún.

„En mig vantaði módel!“

Og nú er eflaust flesta farið að gruna framhaldið.

Því já; Óskari kynntist hún því þegar kokkurinn ungi, sem þá vann á sjónum, var einn þeirra sem nappaður var í módelstörfin: 

Svo útlendingarnir keyptu örugglega lopapeysu!

Meira að segja mynd af leiðtogunum Reagan og Gorbatsjov fór á Álafoss-lopapeysurnar árið 1986; árið sem Óskar og María kynntust. María var þá sölustjóri Álafoss og nappaði Óskari sem módel á Seyðisfirði. Seinna um kvöldið bauð Óskar Maríu á rúntinn og þá var ekki aftur snúið: Ástarneistinn kviknaði! Tv. Morgunblaðið 10/12 1989, th. Tíminn 8.10.1986.

Hlutirnir gerðust ótrúlega hratt eftir það og í lok sumar 1986 var Óskar fluttur í bæinn til Maríu.

„Ég man eftir því þegar hann kom á leikskólann minn til að grilla ofan í mannskapinn pylsur og eitthvað. Ég var ekkert smá stoltur því hann var eiginlega bara eins og Súpermann sjálfur; einhver ofurhetja. Hvítklæddur í kokkagallanum með þennan risastóra meistarahatt á höfði,“ segir Guðfinnur, alltaf kallaður Guffi. Fæddur árið 1982 og því sá sem man hvað mest.

„Ég man helst eftir því hvað það var gaman að fara með pabba á Argentínu. Sem ég fór að gera pínulítil, Manstu pabbi; Við fórum síðan út í sjoppuna úti á horni og keyptum okkur pulsu eða eitthvað?“ segir Klara, fædd 1991 og Óskar kinkar kolli.

Feðginin horfast í augu og í eitt augnablik sér maður þetta fullkomna feðginamóment; þar sem ástin og kærleikurinn skín.

Klara rifjar upp hversu gaman það var að fara með pabba í vinnuna á Argentínu og Guffi rifjar upp þegar pabbi mætti eins og ofurhetja með stóru kokkahúfuna á leikskólann til að grilla pylsur. Hjónin tóku við rekstri Argentínu ásamt vinahjónum sínum árið 1990 en Óskar varð líka landsmönnum fljótt kunnugur í grillþáttum Stöðvar 2: Svona grillum við. Myndir: Einkasafn, Stöð 2 dagskrá, Mbl. 20/10 1991.

Staður fyrir steik

Enn kenna margir Óskar við Argentínu steikhús. En nú auðvitað Finnsson í Kringlunni, sem auglýsir „Staður fyrir steik.“

Sem svo sannarlega á vel við. Því Argentína var má segja fyrsta alvöru steikarhúsið á Íslandi. Naut mikilla vinsælda um árabil og í fyrirsögn í stóru viðtali árið 1991 segir í Mogganum:

„Argentínumenn með steikina í ofninum í 7-8 klukkustundir“

Í því viðtali útskýrir Óskar hvernig eldamennskan gengur fyrir sig með alvöru „prime-ribs“ steik. Því þótt steikur hafi aðeins nýlega orðið að aðalsmerki Finnsson, liggur það eitthvað svo augljóst fyrir nú, að sú stefna hafi verið tekin.

Enda hvers vegna ekki að bjóða upp á steikur þegar við erum með helsta steikar-sérfræðing landsins á staðnum?“ 

segir Finnur og brosir.

Hvers vegna ekki að nýta sér það að vera með einn helsta steikarsérfræðing landsins í liðinu, spyr Finnur þegar talið berst að þeirri stefnu Finnsson að gera nú sérstaklega út á góðar steikur. Óskar er eini Norðurlandabúinn sem hefur verið í dómnefnd árlegu World Steak Challenge sem er stærsta steikarkeppnin í heimi. Óskar hlaut æðstu viðurkenningu Klúbbs matreiðslumeistara í fyrra: Cordon Blue orðuna.Vísir/Anton Brink

Fyrir þá sem átta sig ekki á því hversu stórt nafn Óskar er í bransanum, má nefna að í fyrra hlaut hann Cordon Blue orðu Klúbbs matreiðslumeistara. Sem aðeins er veitt þeim sem sýnt hafa framúrskarandi starf í þágu matreiðslufagsins.

Óskar er líka fyrsti og eini Norðurlandabúinn sem situr í árlegu World Steak Challenge steikarkeppninni; Þeirri stærstu og virtustu.

Sumir tengja Óskar reyndar enn við að vera sjónvarpskokkur. Enda sást hann um árabil á skjánum; ekki síst á gullaldarárum Stöðvar 2.

Óskar lærði á Aski, starfaði með fram náminu á Hótel Sögu og Þremur frökkum og réði sig síðan sem yfirkokkur á Hótel Valhöll.

Þrátt fyrir allt þetta, var Óskar bara 22 ára þegar hann og María, ásamt hjónunum Kristjáni Sigfússyni og Ágústu Magnúsdóttir, tóku við rekstri Argentínu.

Það var árið 1990.

„Margir telja okkur hafa stofnað Argentínu en það var ekki þannig,“ segir María en útskýrir:

„Hið rétta er að það var Jörundur Guðmundsson skemmtikraftur sem stofnaði Argentínu ásamt viðskiptafélögum. Á þeim tíma var ég að vinna í markaðsmálunum hjá útvarpsstöðinni Aðalstöðin“ segir María.

Árið var 1989.

Óskar var á millibilstíma þá þannig að þegar Jörundur fer að segja mér frá Argentínu spurði ég einfaldlega: 

Nú, ertu þá ekki með eitthvað þar fyrir manninn minn?“

Úr varð að Óskari var sagt að mæta á Barónstíginn. Þar sem áður var rekin prentsmiðja en fólk fór nú að ganga inn á rauðum dregli eins og í Hollywood. Þar til hlýleg móttakan blasti við; Koníaksstofa og arineldur.

Margir kveiktu sér í fínustu vindlunum á staðnum. Enda varla annað hægt; Þannig var einfaldlega stemningin.

Sjálf fór María fljótlega að standa vaktina á Argentínu líka. Sá um borðapantanir og móttöku á meðan Óskar fór smátt og smátt að þýðast það að koma fram úr eldhúsinu til að heilsa upp á gesti og gangandi.

Alltaf svolítið breskur og lávarðalegur í fasi og framkomu. Svona eins og allir gestirnir hlytu að vera kóngafólk.

Það skáka fáir Óskari þegar kemur að fágaðri framkomu en í viðtali við Frjálsa verslun (mynd tv) í júlí 1994 rifjar Frjáls verslun það upp að Óskar var þó aðeins 22 ára þegar hann tók, ásamt fleirum, við rekstrinum á Argentínu. Og að sjálfsögðu var fjallað sérstaklega um vindlana margfrægu í þeirri grein!Frjáls verslun, Anton Brink

England

Klara segist strax á Argentínuárunum hafa ákveðið að verða þjónn; Flottasta og skemmtilegasta starf í heimi.

„Enda var ég eiginlega hálf svekkt ef ég fékk ekki að fara með pabba á Argentínu.“

„Ég hef hins vegar aldrei verið á þessari hillu,“ segir Guffi.

„Var reyndar eina helgi í uppvaskinu en sagði síðan við mömmu og pabba: Þetta er allt of erfitt fyrir mig!“

Þá nýfermdur og náði ekki einu sinni upp í efstu hilluna í eldhúsinu.

Finnur er fæddur 1998 og því varla með minni til að ræða Argentínuárin.

„Ég man eiginlega meira eftir Englandi,“ segir Finnur, enda á heimavelli þar þegar árin í Guildford í Suður-Englandi eru rifjuð upp. Þar sem Finnur eignaðist marga vini, spilaði fótbolta og undi sér vel.

Til Guildford flutti fjölskyldan árið 2003.

„Okkur hafði lengi langað að prófa að búa í útlöndum,“ segir María.

„En þar sem við höfðum í raun fengið Kristján og Ágústu til að fara með okkur í reksturinn á Argentínu, kunnum við eiginlega ekki við að fara.“

Þó var innkoma heimilisins farin að byggja meira á öðru en veitingastaðnum. Því hjónin voru dreifingaðilar hjá Herbalife sem gekk vel á þessum árum.

„Einn daginn sagði Óskar svo allt í einu; Það er komið að þessu. Förum,“ segir María og bætir við:

Ætli þetta myndi ekki kallast kulnun í dag. 

Því þegar þetta var, hafði Óskar unnið sleitulaust á Argentínu árum saman og oft nánast án þess að una sér hvíldar. 

Skuldbindingin var algjör og oft var hann að vinna til eitt tvö á næturnar. 

Það verða allir þreyttir á þessu til lengdar.“

Krakkarnir áttu svolítið erfitt fyrst eftir að fjölskyldan flutti til Englands. Þar sem Finnur þurfti fljótt að klæðast jakkafötum með bindi í skólan og Klara að klæðast dragt, en bæði gengu þau í einkaskóla. Á meðan var Guffi á Íslandi að spila með Þrótti, svolítið reiður við mömmu og pabba fyrst, en áttaði sig síðan fljótlega hvað þau voru að gera góða hluti í Guildford.

Sorgir og sigrar

Í Englandi unaði fjölskyldan sér vel. Þó áttu krakkarnir erfiðan tíma fyrst.

Menningin var líka svo ólík íslensku umhverfi æskunnar.

Óskar nefnir bresku skólabúningana sem dæmi.

Finnur er þarna 5 til 6 ára kominn í skólabúning og tveimur árum síðar í blaserjakka með bindi. 

Klara er 12 ára og klædd í dragt.“

En það var ekki bara erfitt fyrir Klöru og Finn. Því á fróni sat Guffi; samningsbundinn í fótbolta með Þrótti og gat ekki heldur hugsað sér að yfirgefa vinina.

„Ég var svolítið reiður við mömmu og pabba fyrst. Fékk íbúð í Hátúni og vinnu í Nóatúni við hliðina á. En var engan veginn tilbúinn til að búa einn. Ég átti auðvitað engan pening á þessum tíma en mamma og pabbi voru dugleg að fljúga mér reglulega út,“ segir Guffi og bætir við:

„Smátt og smátt fór ég þó að skilja þetta betur. Því úti voru þau einfaldlega að gera rosalega góða hluti.“

Lífið lék við Finnsson fjölskylduna eins og þau voru þá þegar kölluð. Í Guildford stofnuðu hjónin heilsusetur á besta stað í bænum með öðrum enskum dreifingaraðilum. Krakkarnir gengu í einkaskóla; Klara í stúlknaskólann Prior‘s Field School í Godalming og Finnur gekk í George Abbot School Guildford.

Þess á milli fór fjölskyldan reglulega á stórleiki í enska boltanum eða skellti sér á tónleika í London með einhverjum stórstjörnum.

Það sem var í Séð & heyrt á þessum tíma um hverjir voru hvar, var oft eitthvað sem börnunum okkar fannst ekkert nema eðlilegt. 

Því á Englandi var einhver mistería í kringum Íslendinga. 

Þessi litla þjóð sem fæstir vissu nokkuð um en fóru allt í einu að heyra að allt sem Íslendingar snertu umbreyttist í gull. 

Það vildu því allir vera með Íslendingum,“ 

segir Óskar og lýsir þar nokkuð vel stemningunni sem uppi var.

Þegar Íslendingar einfaldlega trúðu því sjálfir að þeir væru bestir í heimi.

„Þetta viðhorf breyttist all snarlega eftir hrun,“ segja hann svo og María bætir við:

Reiðin var mikil í garð Íslendinga og við fundum vel fyrir því.

Nágrannakonan okkar tapaði til dæmis peningum í einhverjum íslenskum sjóðum og stundum var eins og hún héldi að við hlytum þá að vera með peningana.“

Allt í einu var því ekkert gaman að vera Íslendingur.

„Ég hætti að segjast vera frá Íslandi,“ segir María og Óskar kinkar kolli.

„Við misstum nánast allt okkar. Allt í einu var lífeyrissparnaðurinn okkar einfaldlega farinn,“ segir María.

Óskar og María eru falleg og samhent hjón, sem þó hafa gengið í gegnum súrt og sætt saman. Hjónin lýsa stemningunni í Englandi vel í aðdraganda bankahrunsins, þegar allir vildu vera með Íslendingum því allt sem þeir snertu virtist breytast í gull. Það breyttist all snarlega og um tíma sögðu hjónin helst ekki að þau væru frá Íslandi.Vísir/Anton Brink

„Sjúkdómurinn“

Eitt af því sem er á afreksskránni hjá Óskari og Klöru er að þau eru rosalega flott AA fólk. Virk í sínu starfi, Óskar búinn að vera edrú frá árinu 1991 og Klara frá árinu 2023.

Fjölskyldan vísar í „sjúkdóminn“ þegar talað er um alkóhólismann eða edrúmennskuna.

Sem Óskar hefur náð að halda eftir tíu daga dvöl á Vogi og vikulegum AA fundum æ síðan.

„Hann átti að fara í eitthvað lengra prógram,“ segir María þegar hún rifjar upp þennan tíma.

„En við vorum náttúrulega með Argentínu þannig að hann einfaldlega sagðist ekki geta það, hann þyrfti að mæta á vaktina!“

María er auðheyrilega mjög stolt af sínum manni. Þó fór hún í gegnum það sama og svo margir makar alkóhólista hafa farið í gegnum:

„Það var eftir eina árshátíðina þarna um árið sem Óskar hafði fengið sér svona heldur betur of mikið að ég endaði með að henda honum út.“

Þessari elsku þó, því svo augljóslega er svo kært á milli þeirra hjóna.

„Ég gleymi því aldrei þegar fjölskylduráðgjafi SÁÁ sagði við mig að nú skyldi ég fara heim og hella niður öllu áfengi á heimilinu. Þannig ætti ég að undirbúa heimkomu Óskars eftir meðferðina,“ segir María og hópurinn getur nú ekki annað en brosað.

En ég sagði bara við hana: 

Bíddu, hann Óskar er með Argentínu þar sem það eru flöskur af áfengi fyrir margar milljónir. 

Ég held það muni ekki skipta neinu máli þótt ég hendi einhverri einni ræfilsflösku eða tveimur sem ég á heima.“

Eflaust finnst mörgum með ólíkindum hversu lengi Óskar er búinn að vera edrú. Með tilliti til þess að enn starfar hann í veitingageiranum. Umkringdur áfengi nánast alla sína starfstíð.

Því meira að segja í Englandi var Óskar líka viðloðandi veitingarekstur og verkefni honum tengdum. Kom til dæmis að opnun veitingastaðarins Texture ásamt Agnar Sverrissyni og fleirui Íslendingum. Staðurinn varð síðar fyrsti Michelin-staðurinn með íslenskar rætur.

Sjúkdómurinn átti sér þó lengri og lúmskari aðdraganda hjá Klöru. Sem um tíma fór í gegnum leitandi og sveiflukennd ár í Englandi. En uppgötvaði síðar hvert helsta meinið var og hefur verið dugleg að vinna í sjálfri sér síðan.

En áður en lengra er haldið, skulum við heyra hvað í raun fékk fjölskylduna til að flytja frá Englandi til Spánar.

Pabbi er besti vinur minn segir Klara meðal annars, en feðginin eru rosalega flott AA fólk. Edrúmennska Óskars nær aftur til ársins 1991 en eftir tíu daga meðferð á Vogi hefur hann mætt á vikulega AA fundi æ síðan. Klara hefur verið edrú frá 2023, er líka mjög virk í AA starfinu og hefur unnið mikið í sjálfri sér síðustu árin. 

Barcelona

Sem foreldrar gerðu Óskar og María það sem þeirra kynslóð hefur verið kennt; Að foreldrar tala ekki við börnin um peninga.

Krakkarnir vissu því lítið sem ekkert um stöðuna eftir bankahrun.

Staðan var þó gjörbreytt. Ekki aðeins hjá þeim, heldur líka á Íslandi. Þar sem þúsundir heimila lágu í valnum og bankar með nýjum kennitölum sópuðu til sín eignum. 

Á sama tíma fluttu íslenskir fjölmiðlar fréttir af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eins og nokkurs konar alvaldi.

Og enn var þjóðin að jafna sig á tilkynningunni sem fylgdi þegar Geir H. Haarde blessaði þjóðina í beinni útsendingu.

„Við Óskar veltum því fyrir okkur í nokkra mánuði með næsta skref því fjárhagslega gátum við ekki búið áfram í Guildford og vorum að skoða önnur svæði í Suður-Englandi þegar við ræddum um að fyrst við værum annað borð að flytja því ekki að fara meira suður á bóginn. Við enduðum því í Barcelona sem er borg sem okkur hefur alltaf þótt spennandi.“

Krakkarnir komu af fjöllum.

Klara harðneitaði að fara en Finnur var enn of lítill til að geta ráðið nokkru.

„Við fórum í samningaviðræður við hann. Reyndum að mála þetta sem spennandi flutning, að við myndum fá hús með sundlaug og allt. Því honum fannst þetta ömurleg hugmynd og vildi alls ekki fara frá vinunum í Englandi,“ segir María.

„Klara var hins vegar orðin svo stór. Hún var að nálgast tvítugt og því fær um að taka sínar eigin ákvarðanir,“ segir Óskar en bætir þó við:

„Ég hélt reyndar að ég gæti snúið henni og hún kæmi með en svo var ekki.“ 

Sem foreldrunum fannst þó virkilega erfitt. Því upphafleg hugmynd var auðvitað sú að saman myndi Finnsson fjölskyldan, eins og þau voru að jafnaði kölluð, flytja til Barcelona.

Tár falla.

Klara brotnar aðeins saman.

Feðginin faðmast.

„Þetta var svolítið erfiður tími,“ útskýrir María.

Klara segist ekki alveg skilja hvers vegna hún sé að gráta. Enn sé greinilega eitthvað óuppgert eftir þennan tíma: 

Þegar mamma og pabbi fóru, hún þó að þykjast vera fullorðin og sterk en á sama tíma svo villt og leitandi; þó ekki farin að átta sig á hvernig sjúkdómurinn var að læðast að.

Starfsframinn hennar var líka við það að hefjast og taka á sig skýrari mynd. Því já; Klara var farin að vinna sem veitingastjóri á Cote í Farnham og gekk mjög vel.

Talið berst síðan að Finni. Sem var líka að ganga í gegnum erfiðan tíma. Leist ekkert á hugmyndina við að flytja til Barcelona.

Fannst þér „heima“ enn vera á Englandi?

„Já,“ svarar hann einlægt.

Nokkrar skemmtilegar fjölskyldumyndir: Í New York, sæt systkinamynd frá Englandi, gömul fjölskyldumynd og mynd í tilefni útskriftar Finns sem framreiðslumaður. Ástæðan fyrir því að fjölskyldan flutti aftur til Íslands var sú að Óskari var boðið framkvæmdastjórastarf á Íslandshótelum árið 2017, sem var bara þannig tilboð að það var ekki hægt að segja nei. 

Ísland

Það fór þó ekki þannig að Finnsson fjölskyldan flutti aftur til Englands. Því þegar fjölskyldan bjó í Barcelona, fékk Óskar óvænt starfstilboð.

Að gerast framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Íslandshótela.

„Og tilboðið var eiginlega þannig að það var ekki hægt að segja nei við því,“ útskýrir María.

Sem þó fór í gegnum erfiðan tíma þegar fjölskyldan flutti heim.

Og nú er komið að mömmunni að fella nokkur tár.

„Mér fannst reyndar æðislegt að vera komin með börnin mín þrjú á sama stað,“ segir María og leggur hönd á hjartastað.

Svona eins og til að segja okkur hinum að nú væri hjartað orðið heilt.

Tárin renna þó niður kinnarnar.

Og Guffi segir:

Mamma fór þarna í gegnum erfiðan tíma. Og það var erfitt að horfa upp á það. 

En skiljanlegt því það að koma úr sól og sumri í Barcelona í íslenska þunglyndisveðrið er ekkert grín. 

Í raun var eins og hversdagsleikinn hér hafi slegið hana utan undir með mínus tíu gráðum.“

En eins og oft gerist, tekur eitthvað óvænt og spennandi við.

Því árið 2018 fóru mæðgurnar saman í reksturinn á Gott veitingastaðnum sem þá var að opna í Reykjavík, en var þá þegar heimsfrægur veitingastaður í Vestmannaeyjum. Gott er í eigu vinahjóna Maríu og Óskars; Berglindar Sigmarsdóttur og Sigurðar Gíslasonar.

Tímasetningin var einfaldlega snilld. Því þótt Klara hefði verið að ganga í gegnum alls konar alein í Englandi, hafði henni starfsframalega verið að ganga vel og gat fengið sig lausa.

„Ég þurfti alla vega ekkert að hugsa mig lengi um,“ segir Klara.

Úr varð að Óskar var á hvolfi í nýju og spennandi starfi á Íslandshótelum. Mæðgurnar Klara og María einhentu sér í Gott þar sem Klara stóð vaktina á staðnum á meðan María sá um bókhaldið, markaðsmálin og fleira.

Þá var Guffi byrjaður í góðu starfi hjá Nóa Síríus þar sem hann starfar enn sem sölustjóri, nú tveggja barna faðir.

Finnur átti erfitt með aðlagast lífinu á Íslandi en það breyttist fljótt þegar vinur hans Aron Heiðarsson sem hafði flutt nokkrum árum áður frá Englandi kippti honum inn í vinahópinn. Innan árs var Finnur farin í framreiðslunám.

„Því auðvitað þekkti ég engan á Íslandi þegar við fluttum hingað,“ segir Finnur.

Heimurinn hreinlega hrundi þegar Óskar og María boðuðu börnin til fjölskyldufundar í janúar 2020 og tilkynntu að læknarnir segðu Óskar aðeins eiga nokkra mánuði eftir. Krakkarnir viðurkenna að það hafi verið mjög erfitt og oft sé jafnvel grátið inni í eldhúsinu á Finnsson þar sem kokkarnir og aðrir starfsmenn hafa veitt þeim ómetanlegan stuðning. Sjálfur einsetti Óskar sér að gera allt sem hann mögulega gæti til að njóta samverunnar lengur með fjölskyldunni. Anton Brink, einkasafn

Þegar heimurinn hrundi

Eitt af því yndislega við samveruna með Finnsson fjölskyldunni er hlýleikinn. Hvernig þau peppa hvert annað upp þegar orðin bresta.

Hvernig þau faðmast eða snerta hvert annað ef einhver af þeim þarf á því að halda.

Og hversu gaman það er, þegar einhver segir eitthvað fyndið og skemmtilegt.

Fjölskyldusamvera eins og hún á að vera og er alltaf best.

Þessi móment, þessi ást og þessi kærleikur.

Því ef það er eitthvað sem lífið kennir er að á endanum er það fólkið okkar sem skiptir mestu máli. Ekki praktísku hlutirnir, veraldlegir eða annað.

Þegar lokaniðurstöðurnar lágu fyrir, hafði fjölskyldan þegar gengið í gegnum nokkra erfiðleika. Sem byrjaði allt á einhverju sem Óskar hélt jafnvel að væri slæmur höfuðverkur.

En reyndist 4. stigs ólæknandi heilaæxli.

Í viðtalinu sem fylgir hér að ofan, má lesa um og horfa á Óskar lýsa atburðarásinni best. Hvernig hann ákvað líka sjálfur að taka málin í sínar eigin hendur og gera allt sem í hans valdi stæði til að vera lengur í samveru með fjölskyldunni sinni.

En mikið rosalega hefur þetta verið erfitt.

Og óraunverulegt.

Guffi og Finnur taka undir með Klöru systur sinni um að fréttirnar hafi fyrst og fremst verið óraunverulegar á fjölskyldufundinum umrædda, 17. janúar árið 2020.

Þar sem Óskar sjálfur brotnaði algjörlega saman.

„Að sjá pabba gráta fannst mér eiginlega erfiðast,“ segja bæði Klara og Guffi og Finnur kinkar kolli.

Auðvitað hafði maður séð pabba gráta í jarðarförum og svona. Í umhverfi þar sem manni þótti það eðlilegt. 

Að pabbi væri grátandi þarna var hins vegar svo mikið sjokk. Þessi ósigrandi maður sem hafði fram til þessa einhvern veginn ráðið við hvað sem kom upp,“ 

segir Guffi og bætir við:

„En ég var samt að reyna að vera sterkur. Líka fyrir mömmu. Því það er svo oft sem aðstandendur gleymast. Makinn.“

„Amma Inga dó úr krabbameini aðeins 62 ára. Þannig að það var eitthvað svo óréttlátt að heyra að þessi sjúkdómur ætlar að taka pabba líka,“ segir Finnur.

Þögn.

Þar sem hver og einn hugsar sitt.

„Það urðu miklar persónubreytingar á honum,“ segir María loks um stóru ástina sína.

„Og stundum sér maður alveg hvað þetta er erfitt fyrir hann. Hvernig hann pirrast á ástandinu. Þá getur maður í raun ekkert orðið reiður. Því maður veit að hann er að leggja sig svo mikið fram. Að reyna sitt besta. Gera sitt besta,“ segir María og grípur ástúðlega í manninn sinn.

Það er svo erfitt að vilja en geta ekki,“ 

segir Óskar.

María segir erfitt að horfa upp á stóru ástina sína veikjast en leggja sig svona mikið fram; reyna svo mikið. Persónubreytingar hafa orðið í kjölfar heilaæxlisins. Sjálfur segir Óskar erfiðast að vilja, en geta ekki. Tæp sex ár eru liðin frá því að læknar tilkynntu að Óskar ætti aðeins eitt til tvö  ár eftir ólifað.Vísir/Anton Brink

Finnsson

En nú eru tæp sex ár síðan Óskari og Maríu var sagt að Óskar ætti aðeins eitt til tvö ár eftir ólifuð.

Og síðan þá hefur aldeilis margt gerst.

Ekki aðeins að Óskar hafi sannað sig sem gangandi kraftaverk. Heldur að fjölskyldan hafi opnað nýjan og stórglæsilegan veitingastað í Kringlunni í miðju Covid.

Árið er 2021 þegar Finnsson opnar.

„Staðurinn átti fyrst að heita 103 Bistro, við vorum komin með lénið og allt. Síðan komu krakkarnir með þessa hugmynd enda vorum við öll búin að kenna okkur svo lengi við Finnsson nafnið erlendis.“

Aaaah, snilldin ein hugsa nú eflaust margir.

„En ég vildi alls ekki nota Finnsson,“ segir Óskar alvarlegur.

Hvers vegna ekki?

Því mér fannst það bara svo súrrealísk hugsun. Að mögulega myndum við opna stað sem tilkynntur yrði lokaður vegna jarðarfarar nokkrum mánuðum síðar.“

Því já; Auðvitað hefur dauðinn að vissu leyti svifið yfir hópnum síðustu árin.

Hjá því hefur einfaldlega ekki verið komist.

Þó hefur margt jákvætt fylgt líka.

Mér finnst sambandið mitt við pabba til dæmis betra í dag en það var kannski áður. 

Ég meina: Pabbi er besti vinur minn. 

Ég segi honum allt. 

Líka vegna AA sambandsins okkar. 

Það er margt sem mamma og aðrir skilja ekki en ég get gengið að sem vísu að pabbi skilur,“ 

segir Klara og bætir við:

„En það er ekki bara það. Mér finnst eins og nú sé meiri auðmýkt áberandi í fari hans. Þótt auðvitað viti ég að það sem erfiðast er, hvílir mest á mömmu. En mér finnst margar persónubreytingar líka jákvæður.“

Þótt lífið færi okkur oft erfið verkefni færir það okkur líka sem betur fer allt það verðmætasta: Hér sæt ömmumynd með dætrum Guffa; Maríu Sól (f.2013) og Arabellu Sól (f.2020). 

Fjölskyldan segir Covid einangrunina sem allir gengu í gegnum, líka hafa reynst þeim vel.

„Við vorum öll heima saman í einhverjum bómul. Fjölskyldan var okkar búbbla. Það var engin truflun því það var allt meira og minna lokað,“ segir Klara.

Einn daginn sagði vinur Óskars, Kjartan Andrésson frá því að það væri hugsanlega að losna rými í Kringlunni.

Óskar viðraði því fyrst hugmyndina heima fyrir. Hvort staðsetningin gæti mögulega hentað vel fyrir Gott.

En smátt og smátt fór að fæðast hugmynd um þeirra eigin stað.

Þar sem allt væri nákvæmlega eins og þau sjálf myndu helst kjósa.

„Gott konseptið er til dæmis æðislegt. En við getum ekki eignað okkur það. Gott er konsept Berglindar og Sigurðar,“ útskýrir María.

En vá hvað fjölskyldunni fannst nú æðislegt að fara af stað með sinn eiginn stað. Þar sem allir fá að njóta sín:

Óskar með yfirumsjón yfir eldhúsinu eins mikið og hans kraftur leyfir, systkinin sjá um allan daglegan rekstur; Klara sér um vaktaplanið, Finnur um að allir drykkir séu til og drykkjarinnkaup; og María sér síðan um bókhaldið og markaðsmálin.

„Þetta er þannig rekstur að hver mínúta í vaktplaninu telur. Launaprósentan er hátt hlutfall af svona rekstri þannig að í þessu þarf hvert einasta smáatriði að smella saman,“ segir María.

„Við þurftum samt alveg að slípa samstarfið til fyrst,“ segir Finnur og aðrir í hópnum kinka kolli.

„Það tók okkur alveg smá tíma að finna út hver ætti að sjá um hvað og svo framvegis,“ bætir Finnur við.

Svona eins og aðrir með fjölskyldufyrirtæki þekkja einmitt svo vel.

„Mér finnst þetta auðvitað besti veitingastaður í heimi,“ segir Guffi og skælbrosir. Segist stoltur af staðnum og því að tilheyra Finnsson fjölskyldunni.

„Við leggjum líka áherslu á að gestir sem til okkar koma hitti alltaf eitthvert okkar. Pabbi reynir að vera alla virka daga í hádeginu. Það er svo mikilvægt að okkar mati, að fólk upplifi Finnsson sem stað sem er virkilega annt um gestina sína,“ segir Klara og sem einn kinka allir kolli.

Væntumþykjan nær þó lengra en aðeins til gesta. Því hópurinn talar einstaklega vel um starfsfólkið sitt. Sem veit líka hver staðan er.

„Maður hefur alveg oft brotnað saman og grátið í fanginu á kokkunum. Eða orðið meyr þegar einhver er að spyrja um pabba frammi; þá fer maður inn í eldhús og segir bara Úff og leyfir tárunum að koma. Því þau vita öll að þetta er bara staðan,“ segir Klara.

Það getur líka verið svolítið erfitt þegar allir eru að spyrja mann um pabba. 

Bara í gærkveldi, spurðu eflaust sjö til átta manns mig þegar fólk var að gera upp og fara,“ 

segir Finnur og Klara segist upplifa það sama: Allir eru að spyrja en margir kunna ekki við að spyrja Óskar beint.

„Ég segi nú samt oft við fólk: Hann er þarna, spurðu hann bara,“ segir María þá og lýsir því hvernig oft nánast hvísli fólk spurningunni í eyrað á henni um Óskar, þótt hann sé nánast við hliðina á henni.

En auðvitað get ég ekki vitað nákvæmlega hvernig Óskari líður. Það er aðeins hann sem getur svarað því beint.“

Fjölskyldan tekur þó fram að auðvitað séu spurningarnar frá fólki skiljanlegar og endurspegli fyrst og fremst væntumþykju í þeirra garð.

Og það þyki þeim svo sannarlega vænt um sjálfum.

Allir eru þó sammála um að sunnudagsviðtalið og samveran eigi ekki að snúast bara um veikindin. Heldur ekkert síður alla aðra hluti lífsins.

Það verðmæta.

Það skemmtilega.

Það sem svo vert er að þakka fyrir og muna.

Að reka Finnsson í Kringlunni hefur að þeirra sögn verið ofboðslega skemmtilegt þótt það sé í senn krefjandi.

„En hefur líka hjálpað okkur heilmikið í gegnum þetta allt,“ segir Guffi með tilvísun í allar samverustundirnar sem hafa skapast. En sjálfur segist hann reyna að hjálpa til við aukaverkefnin; sækja, skutla, skrúfa saman og hengja upp. Allt eftir því hvað vantar.

Já; Svo sannarlega má segja að enn eitt ævintýrið hafi hafist, þegar Finnsson varð til.

Þakklæti er ofarlega í huga fjölskyldunnar.

Við fjölskyldan erum innilega þakklát fyrir þetta tækifæri í Kringlunni. 

Það hafa margir aðstoða okkar með að gera þennan draum fjölskyldunnar að veruleika. 

Finnsson er og verður Staður fyrir Steik,“ 

segir Óskar.


Tengdar fréttir

„Haustið 1937 skrifaði afi Bjarna Ben bæjarstjóra bréf“

„Við vitum ekki nákvæma dagsetningu hvenær fyrirtækið var stofnað en haustið 1937 skrifaði afi Bjarna Ben bæjarstjóra bréf og bað um að vagninn yrði færður á sitt nafn því hann væri orðinn einkaeigandi. Bréfið eru fyrstu skriflegu heimildirnar sem við höfum um að reksturinn væri hafinn,“ segir Guðrún Kristmundsdóttir aðaleigandi Bæjarins beztu pylsur.

Erfitt að fá launahækkun hjá pabbanum

„Árið 1947 brann allt til kaldra kola enda ekki komin vatnsveita í Selás í Reykjavík þá. En það hvarflaði aldrei að pabba að hætta rekstri,“ segir Eyjólfur Axelsson stjórnarformaður AXIS. Faðir Eyjólfs stofnaði fyrirtækið árið 1935 en fyrirtækið er í dag rekið af þriðju kynslóðinni: Þeim Eyjólfi og Gunnari Eyjólfssonum. „Nei ég ætlaði ekkert að fara að vinna hér. Ég er lögfræðingur og starfaði sem slíkur þegar pabbi talaði við okkur systkinin um það hvort eitthvert okkar vildi taka við,“ segir sonurinn Eyjólfur og hlær.

„Áskoranir í rekstri eru ekkert á við baráttuna upp á líf og dauða“

„Gunnar bauð mér fyrst til Íslands að sumri til. Ég varð ástfangin af landinu strax úr flugvélaglugganum,“ segir Chandrika Gunnarsson og brosir. Chandrika er fædd og uppalin á Indlandi. Hún giftist Gunnari Gunnarssyni og stofnaði með honum veitingastaðinn Austur-Indíafjelagið á Hverfisgötu árið 1994. 

Slógu lán hjá Útvegsbankanum og bankastjórinn hló

„Ég var svo svekkt að geta ekki horft á teiknimyndirnar á laugardagsmorgnum. Því pabbi dró mann á fætur til að kíkja á kaffihúsið,“ segir Sunna Rós Dýrfjörð og skellihlær. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×