Atvinnulíf

Starfs­menn sem ljúga

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Að ljúga, hagræða sannleikanum um of eða dreifa sögum sem hluta af baknagi getur skapað ýmisleg vandamál á vinnustað sem mikilvægt er að stjórnendur taki á hið fyrsta.
Að ljúga, hagræða sannleikanum um of eða dreifa sögum sem hluta af baknagi getur skapað ýmisleg vandamál á vinnustað sem mikilvægt er að stjórnendur taki á hið fyrsta. Vísir/Getty

Við erum flest alin upp við að það að segja alltaf satt og rétt frá, skiptir öllu máli. Enda hvimleiður vani að ljúga.

Sem þó sumir gera statt og stöðugt.

Eða í það minnsta hagræða sannleikanum oft og töluvert.

Á vinnustöðum getur þetta hæglega skapað alls kyns vandamál. Og móral. Því oft er sá sem lýgur eða hagræðir sannleikanum, að reyna að koma sér undan einhverju eða að eigna sér eitthvað. Sem þá bitnar á öðrum á vinnutaðnum líka.

Stjórnendum er samt bent á að reyna að átta sig á því hvers vegna viðkomandi starfsmaður er svona gjarn á að segja ósatt. Því það segir mikið um vinnustaðinn og stjórnunina ef starfsmaður er að ljúga vegna ótta um að lenda í vandræðum. Í þess lags aðstæðum eða vinnustaðamenningu, þarf að horfa til þess hvernig stjórnunin er að skapa þetta andrúmsloft frekar en að dæma starfsmenn of mikið fyrir ósannsögli.

Önnur skýring getur líka verið óöryggi. Þar sem viðkomandi óttast að koma upp um vanhæfni sína ef sannleikurinn verður of augljós. Sem stjórnandi, þarf þá að taka á þessari stöðu líka.

Sumir segja líka ósatt um árangur, útkomu eða niðurstöður á verkefnum vegna þess að þeir óttast viðbrögð yfirmannsins ef árangurinn er ekki eins og væntingar stóðu til um. Aftur þarf hér að benda á að sem stjórnandi, þarf stjórnandinn sjálfur að velta fyrir sér hvað í stjórnuninni getur spornað við þessu.

En stundum segir fólk einfaldlega ósatt því það vill lúkka betur en það gerir, er ósvífið og á auðvelt með að segja ósatt eða segir jafnvel ósatt til að koma höggi á annan starfsmann á vinnustaðnum. Því ósannindi geta líka verið liður í baknagi.

Í umfjöllun um ósannsögula starfsmenn sem birt var á Harvard Business Review er líka á það bent að sumt fólk er svo vant því að ljúga, krydda sögur eða að hagræða sannleikanum að það er nánast ógjörningur fyrir stjórnendur að uppræta þá hegðun. Vaninn við að ljúga er einfaldlega orðinn svo mikill að þótt starfsmaðurinn færi í átak við að segja satt um tíma, til dæmis eftir að málin hafa verið rædd, falli allt í sama farið fljótlega aftur.

Lygnir starfsmenn geta því verið erfitt vandamál við að etja. Þó þannig að stjórnendum sé bent á að leiðrétta öll ósannindi eins fljótt og hægt er og taka fyrr á vandanum en seinna. Stundum snúist verkefnið fyrst og fremst um að þjálfa viðkomandi í að segja satt og rétt frá, til að mynda með því að setja fólki almennt skýr mörk um það að ósannsögli sé ekki liðið.


Tengdar fréttir

Þegar ástríðan slokknar: Eins og hljóðlát kulnun

Það verður að segjast að enskan á ekki aðeins til mun fleiri starfslýsingar og titla fyrir atvinnulífið í samanburði við íslenskuna, heldur er hún líka fljót til að búa til alls kyns heiti yfir atriði og kenningar sem með einhverjum hætti virðast sýna sig á vinnumörkuðum víða; Hvar svo sem í heiminum það er.

Erfitt að vera mikið einn í vinnu og án mikilla samskipta

Við gerum okkur oft ekki grein fyrir því hvað það eru margir sem vinna einir. Til dæmis í lítilli verslun eða sjoppu, iðnaðarmenn, fólk í sérhæfðum störfum eins og þýðendur eða fólk í fjarvinnu. Fólk í viðgerðarþjónustu og fleira.

Í vinnutengdri ástarsorg

Nei, við erum ekki að fara að tala um framhjáhaldið sem óvart virtist komast upp á Coldplay-tónleikunum um daginn. En við erum samt að fara að tala um ástarsorg í vinnunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×