Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna yfirleitt milli hálf sjö og sjö, fer aðeins eftir verkefnum morgunsins sem þarf að sinna.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
Við hjónin vöknum yfirleitt á sama tíma, og það fyrsta sem ég segi er „Góða morgun“, sem þýðir „góðan daginn“ á færeysku.
Maðurinn minn er frá Færeyjum og ég reyni að tala færeysku við hann og fjölskyldu hans, þó það sé oft freistandi að grípa til ensku þegar maður er að drífa sig og vill koma einhverju fljótt til skila.
Fyrsta verkefni dagsins er að vekja börnin og undirbúa okkur fyrir daginn. Ég drekk hvorki kaffi né borða morgunmat á virkum dögum, svo það er engin rólegheitastund á morgnana á heimilinu. Oft er mikið um að vera við að koma öllum í skóla og leikskóla.“
Þegar þú gerir létt/jákvætt grín að sjálfri þér, hvað nefnir þú oftast?
„Ég hef tilhneigingu til að vera mjög nákvæm og hugsa oft hlutina „í Excel-skjali“, eins og sagt er. Það skondna er að ég á það til að skipuleggja allt niður í smæstu smáatriði – og hlæ gjarnan að því með mínu nánasta fólki. Skipulag og yfirsýn skipta mig miklu máli, og ég finn öryggi í því að hafa góðan ramma utan um verkefni og daglega rútínu.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Ég er svo heppin að fá að vinna daglega með frábæru og metnaðarfullu fólki. Dagarnir líða hratt í fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum þar sem alltaf er eitthvað nýtt að fást við og amstur dagsins verður að sjálfsögðu hluti af því sem gerir starfið bæði krefjandi og gefandi.
Við höfum stækkað verulega á netverslunarmarkaði síðustu mánuði og erum að styrkja enn frekar þann rekstur hjá okkur. Ég er ótrúlega stolt af samstarfsfólki mínu sem hefur staðið sig frábærlega í uppbyggingunni og vinnur hörðum höndum að umbótum og áframhaldandi vexti.
Við höfum einnig nýlega gert breytingar á stjórnendateymi fyrirtækisins, þar sem ung kona hefur tekið við sem forstöðumaður söludeildar. Ég er virkilega spennt fyrir þessum breytingum. Það er nauðsynlegt að fá inn fjölbreytileika og ferskan blæ með nýrri kynslóð og öflugum einstaklingum. Það er svo mikilvægt að gefa fólki tækifæri til að vaxa og spreyta sig, og hlutverk stjórnenda er að efla teymið sitt til að ná enn meiri árangri.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Á kvöldin reyni ég oft að skipuleggja mig fyrir komandi daga og skoða hvaða fundir eru fram undan.
Ég nota fundarboð mikið til að marka upphaf verkefna og fylgja þeim eftir með samstarfsfólki mínu.
Mér finnst gott að bóka reglulega fundi til að halda verkefnum gangandi og tryggja að við fylgjum ákveðinni tímalínu.
Ég nýti einnig dagatalið til að skrá mig sjálfa í ákveðin verk og minnka þannig líkur á að einhverjir boltar falli niður.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég reyni að fara frekar snemma að sofa, mér líður best þegar ég næ að fara upp í rúm á milli tíu og ellefu á kvöldin og fæ mínn átta tíma svefn. Það tekst þó ekki alltaf, því mér finnst líka nauðsynlegt að fá smá tíma til að slaka á eftir að búið er að koma börnunum í háttinn og heimilisverkin eru frá. Þá er dýrmætt að eiga rólega stund og skipuleggja það sem fram undan er.“