Umræðan

Við trúum á kraft sann­leikans

Björgvin Ingi Ólafsson skrifar

Ef fyrirtæki leggur áherslu á gildin fagmennsku, þjónustu og metnað, hvernig breytir það starfi fyrirtækis að gildi þessu séu hagkvæmni, samvinnu og jákvæðni? Væri fagmennskan minni eða þjónustan verri ef skilgreind gildi væru önnur?

Kannski er kjánalegt að spyrja hvort gildi skipti máli. Margar vísdómsgreinar segja að fyrirtæki sem eru skýr um gildi sín ná oft langvarandi árangri umfram aðra. Mér hefur að minnsta kosti þótt fyrirtæki sem hafa skýr og vel skilgreind gildi nái að skapa sameiginlegan skilning á markmiðum og leiðum til að ná þeim. Það getur aukið samheldni, einbeitni og hollustu starfsfólks.

Áhrif gilda á stjórnun

Skilgreind gildi eru ekki bara orðin á blaði; vel nýtt eru þau áttaviti sem styður við stefnu og getur hjálpað til við að beina ákvörðunartöku og hegðun innan fyrirtækisins í átt að skilgreindri stefnu. Skýr gildi veita starfsmönnum leiðarljós í starfi sínu. Fyrirtæki sem hafa skýr og vel skilgreind gildi eru líklegri til að ná langvarandi árangri vegna þess að þau skapa sameiginlegan skilning á markmiðum og leiðum til að ná þeim. Þetta eykur samheldni, einbeitni og hollustu meðal starfsmanna, sem leiðir til betri frammistöðu og meiri stöðugleika.

Að skilja kraft sannleikans

Caterpillar er dæmi um fyrirtæki sem hefur nýtt skýr gildi til að styðja við vel skilgreinda og skýra stefnumótun. Gildi þeirra, í minni þýðingu, eru heiðarleiki, framúrskarandi árangur, samvinna, skuldbinding og sjálfbærni.

  • Heiðarleiki — við trúum á kraft sannleikans (Integrity)
  • Framúrskarandi árangur — við setjum okkur metnaðarfull markmið og náum þeim (Excellence)
  • Samvinna — við hjálpum hvert öðru að ná árangri (Teamwork)
  • Skuldbinding — við öxlum ábyrgð á okkar verkefnum (Commitment)
  • Sjálfbærni — við erum einörð í að stuðla að betri heimi (Sustainability)

Þessi gildi eru ekki bara falleg orð á blaði. Þau eru leiðarljós í starfi fyrirtækisins og tengjast rekstrarlegum markmiðum og áherslum þeirra á markaði. Þau mynda kjarna sterkrar og heilbrigðrar fyrirtækjamenningar sem hefur hjálpað Caterpillar að vaxa og halda stöðu sinni sem leiðandi fyrirtækis — fyrirtækis sem hefur þrefaldast að markaðsvirði á síðustu fimm árum.

Gildafesta

Ef vel tekst til við mótun gilda er æskilegt að þau lifi dálítið. Ef þú vilt að gildi hafi áhrif á fyrirtæki og fyrirtækjamenningu er óæskilegt að breyta þeim oft. Auðvitað breytist tíðarandi og tónn en gildi sem eiga að vera inngreipt í DNA fyrirtækja þurfa að geta lifað af að minnsta kosti nokkur stefnumótunarverkefni svo vel sé. 

Fyrirtæki sem hafa skýr og vel skilgreind gildi eru líklegri til að ná langvarandi árangri vegna þess að þau skapa sameiginlegan skilning á markmiðum og leiðum til að ná þeim.

Ef þú hefur áhyggjur af því að eitt tiltekið gildi lifi ekki þegar vindar taka að blása aðeins öðruvísi mætti alveg hugsa sér að því gildi ætti kannski að sleppa. Að sama skapi mætti spyrja, þegar þú ert að spá í að skipta gildi út, hvort hættan á ruglingi sé það mikil að það réttlæti ekki að skipta því út. Mögulega má ná jákvæðum áhrifum gildabreytingarinnar með öðrum hætti.

Samræmi í tón og takti

Eftir að gildin hafa verið innleidd og tengd við markmið og stefnu fyrirtækisins er mikilvægt að halda þeim á lofti með stöðugum samskiptum. Þannig geta gildi fyrirtækja verið lykilþáttur í stjórnun og haft mikil áhrif á árangur.

Fagurgalinn?

Gildi fyrirtækja eru lykilþáttur í stefnumótun sem geta haft mikil áhrif á árangur fyrirtækis. Fyrirtæki sem eru skýr um gildi sín og leggja áherslu á þau í öllu starfi sínu eru líklegri til að ná langtímaárangri. Með því að skilgreina, forgangsraða, tengja við virðissköpun geta fyrirtæki nýtt gildi sín til að styðja við stefnumótun, stjórnun og rekstur og þannig náð að byggja upp sterkara og farsælla fyrirtæki.

Og að lokum

Gildin eru ekki bara fagurgali — vel útfærð og innleidd geta þau orðið grunnurinn að árangri Fyrirtæki sem taka gildin sín alvarlega og innleiða þau af krafti í góðu samhengi við markvissa stefnumótun, ná oft langvarandi árangri og sterkri fyrirtækjamenningu.


Viðauki: Forgangslisti forstjóra í gildavinnu

1. Skilgreindu þrjú til fimm gildi: 

Veldu fá, líklega þrjú til fimm, gildi sem endurspegla kjarna fyrirtækisins og áherslur til framtíðar. Gerðu lista að tillögum og fundaðu með starfsfólki til að afla stuðnings og samþykkis.

2. Tengdu gildin við stefnumótunarvinnu:

Tryggðu að gildin byggi á eða styðji við stefnu félagins. Það er ekki nóg að smíða bara gildi heldur þarf ígrunduð stefnumótunarvinna að vera tengd við gildin. Greindu stöðuna og leggðu fram valkosti við stefnumótunina. Ekki gleyma að stefnumótun snýst um val. Hægt er að nýta umgjörð eins og stefnukeðju til að tryggja að verklag sé skýrt og ekkert gleymist.

3. Tryggðu að gildin séu hluti af verklagi:

Gerðu gildin aðgengileg og hluta af daglegu starfi. Skrifaðu gildin inn í allar starfsreglur og verklagsreglur fyrirtækisins. Gakktu úr skugga um að þau séu sýnileg í öllum opinberum skjölum.

4. Þjálfaðu starfsfólk í gildunum:

Skipuleggðu námskeið þar sem allir starfsmenn fá þjálfun í því hvað gildin þýða og hvernig þau eiga að endurspeglast í daglegu starfi þeirra og hafa áhrif á ákvarðanir.

5. Fundaðu reglulega um gildi (og stefnu félagsins):

Taktu reglulega fundi þar sem farið er yfir hvernig gildi eru innleidd og hvort eitthvað þurfi að bæta. Þetta getur verið hluti af vikulegum eða mánaðarlegum teymisfundum.

Höfundur er meðeigandi hjá Deloitte.




Umræðan

Sjá meira


×