Leikurinn fór fram í Höllinni á Akureyri. Mikil eftirvænting var meðal heimamanna og gestirnir úr Borgarnesi flykktust norður í rútum.
Skallagrímur vann fyrsta leik einvígisins fyrir norðan, Þór tók næstu tvo, fyrst úti svo heima, Skallagrímur vann svo síðast á sínum heimavelli en Þórsarar höfðu betur í kvöld og halda áfram í undanúrslit.
Leikurinn var æsispennandi frá upphafi og lítið skildi liðin að. Heimamenn áttu reyndar slakan annan leikhluta, en mættu tvíefldir út í seinni hálfleikinn og sigldu sigrinum heim.
Harrison Butler og Jason Gigliotti voru allt í öllu hjá Þór, sá fyrrnefndi með 42 stig og 10 fráköst, sá síðarnefndi skoraði 21 stig úr 70% skotnýtingu, greip 11 fráköst og stal boltanum tvisvar.
KR varð deildarmeistari og tryggði sig beint upp í efstu deild. Liðin sem enduðu í 2.–9. sæti deildarinnar keppa nú um hitt lausa sætið.
Þórsarar mæta næst ÍR, Fjölnir og Sindri eigast við hinum megin í undanúrslitum.