Umræðan

Hags­muna­á­rekstrar og traust fjár­festa á fjár­mála­fyrir­tæki

Andri Fannar Bergþórsson skrifar

Hagsmunir fjármálafyrirtækja sem veita fjárfestingarþjónustu og viðskiptavina þeirra geta skarast á ýmsan hátt. Þannig kann fyrirtæki að hafa hagsmuni af því að sem flestir viðskiptavinir þess sem eru með eignir í eignastýringu hjá því eigi viðskipti með hlutabréf eða skuldabréf sem það sjálft, eða aðili undir þess yfirráðum, hefur gefið út. Sem annað einfalt dæmi má nefna þá aðstöðu að fyrirtæki hafi sölutryggt hlutabréf eða skuldabréf sem þriðji aðili hefur gefið út, sem síðan tekst ekki að selja í almennu útboði nema að litlu leyti. Við slíkar aðstæður hefur fyrirtæki hagsmuni af því að geta selt viðkomandi hlutabréf eða skuldabréf til viðskiptavina sinna.

Hagsmunaárekstrar geta einnig verið af allt öðrum toga. Þannig reka margar lánastofnanir greiningardeildir sem gefa út opinberlega skýrslur um fjármálagerninga þar sem mælt er með því að fjárfestar kaupi, selji eða eftir atvikum eigi áfram viðkomandi fjármálagerninga miðað við skráð markaðsgengi. Ef viðkomandi fyrirtæki, eða fyrirtæki undir þess yfirráðum, er hluthafi í viðkomandi útgefanda, er kominn upp augljós hagsmunaárekstur. Einnig geta verið hagsmunaárekstrar milli ólíkra hagsmuna tveggja eða fleiri viðskiptavina sem fyrirtæki hefur skyldur gagnvart. Fjölgun ólíkra verkefna hjá fjármálafyrirtækjum á síðastliðinum árum hefur aukið enn líkurnar á hagsmunaárekstrum milli starfseminnar og hagsmuna viðskiptavina fyrirtækjanna.

Vitneskja fjárfesta um aðstæður sem eru til þess fallnar að fyrirtæki láti sína eigin hagsmuni hafa forgang er eðli máls samkvæmt til þess fallin að draga úr áhuga þeirra á því að eiga viðskipti við viðkomandi fyrirtæki. Hættan á hagsmunaárekstri í starfsemi fyrirtækja er því í eðli sínu til þess fallin að draga úr trausti fjárfesta á fjármálamarkaðinum og getur þar með haft neikvæð áhrif á skilvirkni hans.

Nauðsyn þess að greina og takast á við hagsmunaárekstra

Nauðsynlegt er því að hafa til staðar reglur sem eru til þess fallnar að draga úr neikvæðum áhrifum slíkra aðstæðna og efla þannig traust og trúverðugleika fjárfesta á fjármálamarkaðinum. Í lögum um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID-lögin) er einmitt að finna slíkt ákvæði sem er ætlað að draga úr líkum á hagsmunaárekstrum og að slíkir hagsmunir skaði hagsmuni viðskiptavina fyrirtækisins.

Fjölgun ólíkra verkefna hjá fjármálafyrirtækjum á síðastliðinum árum hefur aukið enn líkurnar á hagsmunaárekstrum milli starfseminnar og hagsmuna viðskiptavina fyrirtækjanna.

Ákvæðið leggur ekki bann við hagsmunaárekstrum innan fyrirtækis, enda má segja að ómögulegt sé að koma í veg fyrir einhvers konar hagsmunaárekstra. Í staðinn er lögð sú krafa á fyrirtæki að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að greina og koma í veg fyrir eða takast á við hagsmunaárekstra í tengslum við veitingu fjárfestingar- eða viðbótarþjónustu. Þegar það gengur ekki eftir eða ráðstafanirnar veita ekki fullnægjandi vissu fyrir því að hættu á hagsmunaárekstrum verði afstýrt getur fyrirtæki samt sem áður veitt viðskiptavini þjónustu, að því gefnu að hann sé upplýstur um eðli og ástæður hagsmunaárekstranna og hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til að draga úr hættunni.

Afleiðingar þess að greina ekki hagsmunaárekstra og skjalfesta greininguna - Íslandsbankamálið

Ljóst er að þessar reglur eru þýðingarmiklar fyrir fjármálafyrirtæki og getur það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér ef reglunum er ekki fylgt, hvort sem það er vegna himinhárra stjórnvaldssekta eða dvínandi trausts almennings. Í sáttarmáli Fjármálaeftirlits Seðlabankans frá 9. júní 2023 komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að Íslandsbanki hefði hvorki framkvæmt né skjalfest greiningu á hagsmunaárekstrum í tengslum verkefni bankans vegna sölu á eignarhlut ríkisins í bankanum sjálfum.

Íslandsbanki hafði tekið að sér vera umsjónar- og söluaðila í útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% eignarhlut ríkisins í bankanum sjálfum sem fram fór 22. mars 2022. Salan fór fram með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi þar sem þátttakan í útboðinu var bundin við hæfa fjárfesta, en það útilokaði þátttöku almennra fjárfesta frá þátttöku í útboðinu. Fjármálaeftirlitið taldi að bankinn hefði ekki framkvæmt mat á því hvort ráðstafanir bankans vegna hagsmunaárekstra hefðu verið fullnægjandi, hvort þörf væri á frekari ráðstöfunum vegna verkefnisins eða hvort bankinn hefði átt að sleppa því að taka að sér hlutverk umsjónar- og uppgjörsaðila útboðsins, sérstaklega í ljósi þess að um var að ræða sölu á hlutabréfum útgefnum af bankanum sjálfum. Að mati eftirlitsins leiddi skortur á greiningu hagsmunaárekstra til þess að ekki hefðu verið forsendur hjá bankanum til að taka ákvörðun um hvort starfsmönnum bankans væri heimilt að taka þátt í útboðinu.

Jafnvel þótt um fleiri brot hafi verið að ræða í málinu sýnir umfang málsins og sektarfjárhæðin hve afdrifaríkt það getur verið fyrir fjármálafyrirtæki að greina ekki hagsmunaárekstra hjá sér og leita allra leiða til að koma í veg fyrir eða takast á við hagsmunaárekstrana.

Til viðbótar við það taldi Fjármálaeftirlitið að bankinn hefði ekki gert allar viðeigandi rástafanir til að greina og koma í veg fyrir eða takast á við hagsmunaárekstra vegna þátttöku starfsmanna bankans í útboðinu, enda hefði bankinn gegnt stóru hlutverki í framkvæmd útboðsins og því hefði hættan á hagsmunaárekstrum vegna þátttöku starfsmanna bankans í útboðinu verið mikil. Fjármálaeftirlitið gerði einnig athugasemdir við að bankinn hefði ekki virst tryggja á fullnægjandi hátt aðskilnað tveggja sviða bankans sem komu að útboðinu, þ.e. fyrirtækjaráðgjafar og verðbréfamiðlunar. Með hliðsjón af því komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu bankinn hefði brotið gegn ákvæði MiFID-laganna um hagsmunaárekstra.

Sektin í málinu hljóðaði upp á rúmlega 1,1 milljarð króna og er sektin sú langhæsta sem eftirlitið hefur lagt á frá því það fékk til þess heimild árið 2003. Jafnvel þótt um fleiri brot hafi verið að ræða í málinu sýnir umfang málsins og sektarfjárhæðin hve afdrifaríkt það getur verið fyrir fjármálafyrirtæki að greina ekki hagsmunaárekstra hjá sér og leita allra leiða til að koma í veg fyrir eða takast á við hagsmunaárekstrana. Hættan er ekki aðeins á hárri sekt heldur einnig að orðspor fyrirtækis bíði hnekki.

Höfundur er dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og lögmaður hjá ADVEL lögmönnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×