Innlent

Vonar að bú­setu í húsinu verði hætt

Bjarki Sigurðsson skrifar
Jón Viðar Matthíasson er slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Jón Viðar Matthíasson er slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu. vísir/Steingrímur Dúi

Slökkviliðsstjóri segir það dapurt að einhver búi í húsi í jafnslæmu ástandi og kona sem rætt var við í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær gerir. Hann segir að þrátt fyrir meintan þrýsting hennar á leigusalann sé ábyrgðin alltaf hans. 

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var rætt við Sigurbjörgu Hlöðversdóttur, 62 ára öryrkja, sem býr í leiguhúsnæði í Hafnarfirði. Hún lýsti ófögrum samskiptum sínum við leigusala sinn sem hún segir hafa lofað að gera nauðsynlegar úrbætur á húsinu en ekki staðið við það.

Leigusalinn, lögfræðingurinn Árni Stefán Árnason, steig fram síðan í viðtali hjá Vísi í morgun og viðurkenndi að húsnæðið sé ekki hæft langtímaleigu, heldur hafi Sigurbjörg krafist þess að fá að búa þar.

Alvarlegt og dapurt

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að útfrá ljósmyndum af húsinu sé það ekki gott að einhver sé búsettur þar.

„Þetta er alvarlegt og mjög dapurt. Ég vona svo innilega að búsetu þarna verði hætt og húsið lagað og komið í gagnið. Þeim úrbótum skilað til byggingarfulltrúa og við fáum þá tækifæri til að koma að því út frá brunavörnum,“ segir Jón Viðar.

Friðhelgi einkalífsins flækir málin

Slökkviliðið á erfitt með að sinna eftirliti í húsnæði sem er skráð íbúðarhúsnæði, líkt og húsið sem Sigurbjörg býr í.

„Almennt hjá okkur í eldvarnareftirlitinu er það atvinnuhúsnæði sem við skoðum. Í einstaka tilvikum þegar við fáum ábendingar þá höfum við farið inn í íbúðarhúsnæði en það er mjög erfitt fyrir okkur að fara inn í íbúðarhúsnæði bara út frá friðhelgi einkalífsins,“ segir Jón Viðar.

Leynast oft hættur í samþykktu íbúðarhúsnæði

Hann segir meintan þrýsting Sigurbjargar á leigusalann ekki breyta því að ábyrgðin sé hans.

„Í sumum tilvikum eins og þetta dæmi sannar og mörg önnur, þá getur verið ákveðin hætta í íbúðarhúsnæði sem er hannað sem slíkt,“ segir Jón Viðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×